02.02.1984
Sameinað þing: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2560 í B-deild Alþingistíðinda. (2228)

Þingsköp

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Áður en næsta mál verður tekið fyrir vil ég segja eftirfarandi og skal ekki tefja fundinn lengi:

Hér á hinu háa Alþingi hefur verið dreift skýrslu, sem ég hef hér í höndunum, sem iðnrh. hefur látið gera um tækifæri fyrir þá sem fjárfesta vilja í kísilmálmvinnslu á Íslandi. Skýrsla þessi er um margt fróðleg og því mikilvægt að allir hv. þm. kynni sér hana. En nú er það svo að skýrsla þessi er lögð hér fram á enskri tungu, sem ekki er öllum hv. þm. nýtanleg, enda ekki inntökuskilyrði til setu á Alþingi að hafa vald á erlendum tungumálum. (Gripið fram í.)

Ég vil minna á sams konar aths. í umr. fyrir líklega tveimur árum um aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnun, þegar þykkum doðröntum var dreift hér á ensku þm. til aflestrar. Ég vil því enn sem áður krefjast þess að öll gögn Alþingis verði lögð fram á íslensku ævinlega, svo að allir hv. þm. sem og aðrir þeir sem áhuga kynnu að hafa á þeim málum sem hér er fjallað um geti lesið þau. Annað er auðvitað engan veginn sæmandi. Þessari stofnun, hinu háa Alþingi, ber fyrst af öllu skylda til að standa vörð um íslenska menningu og tungu.

Ég bið því hæstv. forseta að sjá þegar í stað til þess að skýrsla iðnrn. verði skrifuð á íslensku eða þeir hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson og Geir Gunnlaugsson þýði skrif sín yfir á íslensku — ég vænti að þeir ráði við það — og henni verði dreift að nýju. Jafnframt fer ég þess á leit að þess verði gætt að gögn frá rn. landsins verði ævinlega lögð fram á íslenskri tungu. (Gripið fram í: Ég hef aldrei séð þau gögn á íslensku.)

En úr því að ég er komin í ræðustól vil ég leyfa mér að vekja athygli á öðru, sem ekki síður varðar störf Alþingis, en það er seta og viðvera hv. þm. stjórnarliðsins í þingsölum. Fyrir nokkrum mínútum gekk ég fram og taldi þm. sem eru staddir yfir höfuð í húsinu, þeir voru ekki allir í þingsölum. Þeir voru alls 25 af 60 og enginn ráðherra. Af þessum 25 þm., sem staddir voru í húsinu, voru 18 stjórnarandstæðingar. Hér hefur staðið yfir umr. um eitt þýðingarmesta mál okkar Íslendinga í dag síðan kl. 2. Klukkutímum saman var hér ekki ein einasta sála sem styður núv. ríkisstj. Hvers konar reisn er yfir hinu háa Alþingi og hvers konar virðing er þetta fyrir málflutningi stjórnarandstæðinga? Eru þetta mennirnir sem tala hæst um virðingu fyrir lýðræði og frelsi? Ég held að menn ættu að hugsa vandlega um þetta.

En það er annað sem er athyglisvert einnig í sambandi við þetta. Svo hefur brugðið við í tíð núv. ríkisstj. að nokkuð fer saman viðvera stjórnarliða og viðvera sjónvarps og útvarps hér. Ég vil nú ekki segja að ég sakni sífelldrar yfirsetu sjónvarpsins með myndavélar sínar á okkur þm. hv. dag út og dag inn, eins og tíðkaðist hér í tíð fyrrv. ríkisstj., en fyrr má nú vera áhugaleysi þeirrar góðu stofnunar á störfum þingsins síðan núv. ríkisstj. tók við. Ég vil biðja menn að íhuga aðeins — þessar fáu sálir sem hér eru nú komnar til þings — hvort eitthvert samband kunni að vera á milti áhuga stjórnarþingmanna fyrir störfum þingsins og áhuga Ríkisútvarpsins og sjónvarpsins á störfum þingsins.