08.02.1984
Efri deild: 48. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2701 í B-deild Alþingistíðinda. (2328)

150. mál, fæðingarorlof

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Virðulegi forseti. Raunar vissi ég ekki af þessum umr. á fyrri fundinum og gat því ekki komið því við að vera hér við umr. um það mikilvæga mál sem hér er á dagskrá í hv. deild. Ég hefði vissulega haft bæði af því gagn og fróðleik að hlusta á þessar umr. eftir því sem mér hefur verið sagt að þær hafi farið fram. Hér er vissulega um mikilvægt mál að ræða, lög um fæðingarorlof. Þetta er þýðingarmikið mál í okkar efnahagsmálum almennt og um leið jafnréttismál á vissan hátt.

Það var að mínu mati mikið spor fram á við þegar lög um fæðingarorlof voru sett 1980. Eins og flestum er sjálfsagt kunnugt voru þessi lög þá sett í sambandi við kjarasamninga og í samræmi við það samkomulag sem launþegahreyfingin í heild gerði við þá ríkisstj. sem þá sat að völdum. Sú löggjöf var að mínu mati og margra fleiri gölluð að því leyti að mikill munur var gerður á milli fólks í sambandi við þá löggjöf sem ég sé ekki ástæðu til að rekja hér ítarlega.

Ég gerði tilraun til að fá fram þá breytingu á frv. að allar fæðandi konur fengju jafnháa upphæð í fæðingarorlof. Það reyndist ekki hægt og ég dró þetta til baka þá af þeirri einföldu ástæðu að ef ég hefði haldið því til streitu — þetta var á síðustu dögum fyrir þinglok, fyrir jól 1980 — hefði ekki orðið um það að ræða að þetta frv. yrði að lögum. Hins vegar lýsti ég því yfir að ég mundi beita mér fyrir því að gerð yrði breyting á þessu síðar í réttlætisátt. Það var reynt en náði ekki fram að ganga. Ég vísa til frv. sem var flutt á 105. löggjafarþingi á þskj. 384 þar sem sú breyting er lögð til að þetta nái til allra fæðandi kvenna jafnt. Núgildandi 16. gr. orðist þannig:

„Foreldri sem lögheimili eiga á Íslandi eiga rétt á þriggja mánaða fæðingarorlofi skv. ákvæðum þessarar greinar, hvort sem um er að ræða fólk í launuðum störfum á vinnumarkaði eða utan vinnumarkaðar.“

Síðan er skilgreint nánar hvernig þetta er útfært. Skv. þessu hefði fallið niður sú mikla vinna sem núna liggur að baki töku fæðingarorlofs, þ.e. alls konar vottorð frá vinnuveitendum og ýmsum öðrum aðilum sem tekur mikinn tíma hjá Tryggingastofnun að vinna úr. Það þarf að hafa margt fólk í þessu og þessu fylgir mikil skriffinnska og bókhald. Sífellt er verið að skera úr ágreiningsefnum. Og það meira að segja svo að lögfræðingar þurfa að standa í því að úrskurða hvort viðkomandi móðir á rétt á fullu fæðingarorlofi eða ekki miðað við þau vottorð sem fyrir liggja frá hinum ýmsu atvinnurekendum. Þetta er með meiri háttar ágöllum í núgildandi lögum og framkvæmd þeirra.

Þetta náði ekki fram að ganga á 105. löggjafarþingi. Ekki virtist vera vilji fyrir því hér inni á hv. Alþingi að leiðrétta þetta þrátt fyrir að kvennasamtök í landinu létu rigna yfir alls konar samþykktum, fundarsamþykktum aðalfunda o.s.frv., um að leiðrétta það mikla misrétti sem þarna viðgengist.

Þegar núv. ríkisstj. var mynduð var sett í hennar stefnuskrá að endurskoða lögin um fæðingarorlof, það er eitt af stefnumörkum sem þar kemur fram. Núna fyrir síðustu áramót lagði ég formlega inn til hæstv. heilbrrh. till. byggða á því frv. sem ég lýsti hér og ég beitti mér fyrir að fá leiðréttingu á með ósk um að það yrði tekið inn í þessa endurskoðun. Hægt er að segja það hér að þetta mál er núna til athugunar í heilbrrn. og fylgst er grannt með því hvaða stefnu það tekur.

Mér fyndist miðað við allar aðstæður að vissulega væri spor í rétta átt ef hægt væri að leiðrétta lögin um fæðingarorlof þannig að öll foreldri, hvort sem við tölum um foreldra eða mæður sem fæða barn, fái sömu upphæð í fæðingarorlof og leggja niður þetta vottorðafargan. Vottorð frá fæðingarlækni ætti að nægja um að konan hefði fætt barn. Það yrði lagt til grundvallar. Allt annað vottorðafargan yrði lagf til hliðar og málið gert miklu einfaldara en nú er.

Ég er ekki með þessu að leggja til að ef fólk hefur betri kjör í gegnum sérsamninga einhvers staðar megi það ekki gilda áfram. Þá vil ég benda á eitt atriði í sambandi við þetta mál sem hefur komið upp til viðbótar allri skriffinnskunni og óréttlætinu varðandi mismunandi greiðslur. Komið hefur í ljós að konur í verkalýðsfélögum hafa ekki sama rétt í sambandi við atvinnuleysisbætur vegna fæðingarorlofsins. Þegar hefur verið óskað eftir leiðréttingu á ýmsum slíkum atriðum en ekki hægt vegna laganna.

Ég get nefnt sem dæmi að kona sem fer úr launuðu starfi í barnsburðarleyfi fær veitt fæðingarorlof lögum samkvæmt. Verði hún síðar atvinnulaus telst barnsburðarleyfið til starfstíma eins og um venjulega launagreiðslu hefði verið að ræða og fær því konan greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við áunninn starfstíma að barnsburðarleyfi meðtöldu.

Önnur kona á sama vinnustað verður atvinnulaus um leið og sú fyrri. Hún hafði einnig verið í barnsburðarleyfi en ekki stundað launað starf þegar það hófst þannig að hún fær ekki greitt fæðingarorlof. Hafi þessi kona ekki stundað það mikla vinnu á síðustu 12 mánuðum fyrir atvinnuleysið að hún nái 425 stunda vinnumarki fær hún ekki atvinnuleysisbætur þar sem barnsburðarleyfið bætist ekki við hjá henni eins og er réttur konunnar í fyrra dæminu.

Þetta hefur þegar valdið miklum leiðindum á a.m.k. þremur vinnusvæðum sem ég veit um og er eitt dæmi um hvað margt þarf að athuga í sambandi við svona löggjöf ef menn eru á annað borð að tala um það að allar fæðandi mæður eða foreldri hafi svipaðan hátt.

Ég ætla ekki að tefja hv. þd. lengur í sambandi við þetta mál. Það er misskilningur að ég hafi talað um 300 millj. kr. upphæð í sambandi við framkvæmd fæðingarorlofsins skv. lögunum í dag. Ég hef ekki þá upphæð. Hins vegar veit ég það að breytingin, sem ég og fleiri höfum verið að berjast fyrir, mundi hafa kostað rúmar 70 millj. til viðbótar miðað við framkvæmd laganna eins og hún var á s.l. ári, þannig að það er alveg ljóst hver þessi viðbót yrði, ef öll foreldri fengju sömu upphæð miðað við lögin eins og þau eru nú. Að öðru leyti hef ég áhuga fyrir því að þetta mál þokist í réttlætisátt, en hins vegar tel ég ekki möguleika eins og okkar efnahagsástand er að ganga lengra en þetta. En ég vil ná því réttlæti sem ég hef hér lýst.