09.02.1984
Sameinað þing: 46. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2761 í B-deild Alþingistíðinda. (2377)

172. mál, hagnýting Íslandsmiða utan efnahagslögsögunnar

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þakkarorð annarra hv. þm. til hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar fyrir að hafa vakið máls á því sem kom fram í hádegisútvarpi, sem ég því miður heyrði ekki, auk þess sem ég vil segja nokkur orð um þá þáltill. sem hann talaði hér fyrir. Ég vil lýsa því strax yfir að ég er eindregið fylgjandi því að þessi þáltill. verði samþykkt. Hún ber þess vott sem oft hefur komið fram í máli hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar að hann fylgist vel með málum á þessu sviði, þessu lífshagsmunamáli Íslendinga að vera vel vakandi yfir þeim möguleikum sem Íslandsmið kunna að færa okkur Íslendingum. Hefur hann sýnt það og sannað í gegnum árin með málflutningi bæði hér heima og erlendis.

Ég hef ekki miklu við það að bæta sem hann sagði í sinni framsögu eða það sem hv. þm. bættu við í sínum ræðum. Ég vil þó segja að þessi þáltill. býður upp á marga möguleika umfram það sem fram hefur komið í ræðum hv. þm., umfram það sem hv. flm. sagði í sambandi við samstjórn fiskimiðanna. Það eitt væri ræðuefni út af fyrir sig hvernig við Íslendingar ættum að nálgast það atriði. Því miður höfum við ekki rætt það sem skyldi hvað hagsmunir Íslendinga, Grænlendinga og Færeyinga eru samtengdir í þessu efni en þó hefur það vakið hv. þm. til umhugsunar vegna þeirra ótíðinda sem hafa komið fram í því að Efnahagsbandalagið hyggst nú bjóða Grænlendingum fé í sambandi við sölu á veiðileyfum. Íslendingar geta ekki látið það lengur afskiptalaust né neitað að taka afstöðu til þess með hvaða hætti þeir ásamt þessum tveim þjóðum — og ég vil þá segja alveg sérstaklega Færeyingum — ber að taka þetta mál upp.

Ég held að þó þessi tíðindi séu mjög alvarleg fyrir okkur sem þau eru séu þau e.t.v. enn þá alvarlegri fyrir Færeyinga. Nú eru Færeyingar í ríkjasambandi við Danmörk og þar af leiðandi Efnahagsbandalagið þannig að öll sú umræða sem fram færi á milli Íslendinga og Grænlendinga sérstaklega í þessu máli sem og í sambandi við samstjórn fiskimiða í Norður-Atlantshafi eins og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson talaði fyrir gerir okkur kleift að nálgast þessi mál e.t.v. með enn sterkari hætti en við ella gætum. Ég fel mjög mikilsvert að Íslendingar hafi jákvæða afstöðu til Færeyinga í sambandi við þær viðræður sem fram háfa farið á milli þessara landa og hugsanlegra veiðiheimilda Færeyinga í íslenskri fiskveiðilögsögu en þær viðræður munu víst halda áfram í mars. Ég vil styðja eindregið þá hugmynd hv. þm. Eyjólfs Konráðs um að það dragist ekki að hefja viðræður við Grænlendinga og Færeyinga í sambandi við sjálfstjórn fiskimiðanna.

En þessi alvarlegu tíðindi að Efnahagsbandalagið hyggst fara þá leið að kaupa sér veiðiheimildir við Grænland tengjast fleiru en veiðunum. Þetta tengist einnig þeirri stefnu sem Íslendingar hafa haft í sambandi við fiskvinnslu og markaðsöflun erlendis fyrir sínar afurðir. Það að Efnahagsbandalagslöndin og þá sérstaklega Vestur-Þjóðverjar og Bretar kynnu að hefja veiðar með þessum stórtæku tækjum sem sérstaklega veiðifloti Vestur-Þjóðverja er við Grænland mun auðvitað þýða það að framboð á fiski og fiskiskipum frá Efnahagsbandalagslöndunum muni stóraukast, ekki aðeins í Vestur-Evrópu heldur einnig á öðrum mörkuðum svo sem í Bandaríkjunum. Það hefur áhrif á okkar stöðu þar til viðbótar þeim erfiðleikum sem við höfum í sambandi við þá samkeppni sem við heyjum við Kanadamenn sem eru með ríkisstyrki og þjóðnýttan fiskiðnað.

Þá er einnig vert að hafa í huga að tvær aðrar þjóðir hafa verið að sækjast eftir aðild að Efnahagsbandalaginu sem eru miklar fiskveiðiþjóðir, þ.e. Spánn og Portúgal. Þessar tvær þjóðir, en sérstaklega Spánverjar, urðu að hverfa með sína fiskiflota frá austurströnd Norður-Ameríku eftir að 200 mílurnar voru færðar út þar með þar af leiðandi samdrætti í eigin fisköflun sem hafði aftur í för með sér að staða Íslendinga styrktist mjög á saltfiskmörkuðum bæði á Spáni og Portúgal. Nú gæti það gerst við aðild þessara tveggja ríkja að Efnahagsbandalaginu sem margir búast við að geti orðið á næstu árum að flotar þessara þjóða myndu bætast við vestur-þýska flotann í þeim veiðum við Grænland meðan einhvern fisk verði þar að fá. Þá sjá menn náttúrlega hversu alvarlegt það er fyrir fiskveiðar Íslendinga með tilliti til bæði þeirra óhemju veiða sem þarna geti átt sér stað með minnkandi möguleikum á því að þorskurinn geti aftur komið frá Grænlandsmiðum yfir á Íslandsmið eins og gerðist hér áður fyrr, auk þess sem framboðið mundi aukast á þessum mörkuðum okkar og gersamlega að mínu mati leggja í rúst þá uppbyggingu í markaðs- og sölumálum sem við Íslendingar höfum verið að vinna að á undanförnum árum í Evrópu.

Rétt er að rifja það upp að á síðustu þremur árum hafa Íslendingar fjárfest geysilega mikið fé í markaðsuppbyggingu innan Efnahagsbandalagsins. Nægir þar að minna á fiskiðnaðarverksmiðju sem byggð hefur verið á vegum Íslendinga í Grímsby í Englandi og m.a. er hugsuð þannig í uppbyggingu og framkvæmd að staða Íslendinga yrði sterkari í sambandi við sölu sjávarafurða, ekki aðeins í Bretlandi heldur innan Efnahagsbandalagslandanna almennt. Þau nýju viðhorf sem kynnu að skapast ef Grænlendingar selja Efnahagsbandalagslöndunum veiðileyfi með þeim hætti sem skýrt var frá áðan upp á 1.5 milljarð árlega mundi gersamlega raska öllum okkar áætlunum óhjákvæmilega vegna þess að áætlanir okkar Íslendinga hafa byggst á nokkuð jöfnu framboði með tilliti til þekktra stærða í veiðum í Norður-Atlantshafi.

Ég mun ekki, herra forseti, hafa mitt mál miklu lengra um þetta. Ég ítreka að ég styð eindregið að sú þáltill. sem var upphaf þessarar umr. fái hér skjóta afgreiðslu og að þm. sameinist um hana allir sem einn. En jafnframt vil ég leggja áherslu á það eins og hv. þm. hafa gert hér á undan mér að það vandamál sem við blasir ef Grænlendingar kynnu að semja við Efnahagsbandalagið um sölu veiðileyfa við Grænland er svo alvarlegt að hæstv. ríkisstj. hlýtur að taka þetta mál upp strax og gera viðeigandi ráðstafanir. Ég held að einnig sé nauðsynlegt í því sambandi að ríkisstj. hugi að því hvernig umræður eða viðræður geti átt sér stað milli Grænlendinga, Íslendinga og Færeyinga með þeim hætti að Efnahagsbandalagsþjóðunum sé gerð grein fyrir því hvað sé í húfi fyrir þessar smáþjóðir hér nyrst norður í Atlantshafi.