15.02.1984
Efri deild: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2853 í B-deild Alþingistíðinda. (2475)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég þarf svo sem ekki að hafa um þau frv. sem hér fylgjast að svo afskaplega mörg orð. Hv. 3. þm. Norðurl. v., Ragnar Arnalds, hefur gert hér ágætlega grein fyrir afstöðu minni hl. fjh.- og viðskn. til þessa máls.

En örfáum orðum vildi ég þó bæta inn í þessa umr. Kjarni þessa máls er auðvitað sá að í þessum tveimur frv. kristallast með býsna skýrum hætti skattastefna og stefna ríkisstj. í efnahagsmálum. Í sem stystu máli eins og kemur raunar fram í neikvæðum umsögnum tveggja stærstu launþegasamtaka landsins sem prentaðar eru með þessu frv. er það stefna þessarar ríkisstj. sem hún fylgir fram ljóst og leynt að gera þá ríku ríkari og hina fátæku fátækari. Þetta er ríkisstj. fyrirtækjanna, þetta er ekki ríkisstj. fólksins. Það er kjarni málsins hér. Þessi frv. sem hér eru til umr. eru ekki miðuð við að efla hag eða bæta stöðu láglaunafólksins. Þau eru miðuð við að bæta stöðu eignamannanna í íslensku þjóðfélagi, þeirra sem hafa fé aflögu til að leggja í fyrirtæki.

Nú er það ekki svo að það séu skattfríðindi út á það að leggja í hvaða fyrirtæki sem er, eingöngu örfá stórfyrirtæki sem fullnægja ákveðnum skilyrðum koma þar til greina. Þó að menn út um hinar dreifðu byggðir landsins vildu leggja fé í fyrirtæki á sínum heimaslóðum, t.d. í fiskirækt eða einhverri nýrri búgrein, geta menn það ekki og notið þessara skattfríðinda. Fyrst og fremst er sem sagt verið að hygla og hlúa að þeim sem eiga eignirnar, eignafólkinu í þjóðfélaginu. Það er stefna sem við í minni hlutanum eru andvíg.

Enginn veit hver áhrif þetta hefur á tekjur ríkisins, það kom mjög glöggt fram þegar þessi mál voru gaumgæfilega skoðuð í samráði við hina bestu sérfræðinga í fjh.- og viðskn. Enginn maður getur um það sagt hvaða áhrif þetta kann að hafa á tekjur ríkisins þannig að hér er enn einu sinni verið að renna blint í sjóinn.

Ég held að menn ættu að hafa það í huga og hugsa til þess að þessi hæstv. ríkisstj. sem nú situr er að breyta þjóðfélaginu með öðrum og áhrifaríkari hætti frá sínum sjónarhóli séð en nokkur önnur ríkisstj. hefur gert hér í langan tíma. Ég ætla að afsósíalisera þjóðfélagið, segir hæstv. fjmrh. og viðhafði þau orð síðast í gær í Sþ. Þessi ríkisstj. er að gera miklu meira, hún er að breyta þjóðfélagsgerðinni, hún er að afnema það kerfi velferðar og samhjálpar sem flokkarnir hafa verið sammála um að hér ætti að vera. Sjúkraskatturinn alræmdi eða sjúklingaskatturinn hvort sem menn vilja kalla hann er eitt dæmið um þetta. Frv. sem hér eru nú til umr. eru annað dæmi um að ekki er verið að aðstoða þá sem minnst mega sín í þjóðfélaginu. Þvert á móti er verið að koma í hvívetna og með margvíslegum hætti til móts við þá sem síst þurfa hjálpar með, þá sem ráða fjármagninu og þá sem eiga eignirnar. Í nái. okkar segir undir lokin, með leyfi forseta:

„Hér er komið að kjarna málsins. Við undirritaðir nm. fjh.- og viðskn. Ed. teljum að miklu brýnna væri að bæta kjör lágtekjufólks með breytingum á skattalögum en að veita atvinnurekendum enn frekari skattfríðindi. Við leggjum því til að þetta frv. verði fellt.“ Þetta er kjarni málsins.

Mér barst í morgun, kannske meira fyrir tilviljun en annað, launaseðill konu sem hefur starfað um nokkurra ára skeið í iðnfyrirtæki hér í Reykjavík. Hún er einstæð móðir með eitt barn á framfæri sem er í framhaldsskóla. Nú ætla ég að segja hæstv. fjmrh. og hv. þdm. hvað þessi kona hefur í laun vegna þess að það er þjóðfélaginu til skammar. Auðvitað bera allir flokkar þar einhverja ábyrgð, mesta þó þeir sem stjórna landinu núna og hafa neitað að koma til móts við sanngjarnar kröfur um að bæta hag láglaunafólksins.

Þessi kona hefur fyrir viku vinnu 2536 kr. laun alls útborguð 10. febrúar 1984. Frádráttur sem er lífeyrissjóður, félagsgjald, starfsmannafélag og gjaldheimta er 381,45 kr. Heim fær þessi kona 2154 krónur. Nú spyr ég hæstv. fjmrh. og hv. stuðningsmenn þessarar ríkisstj.: Hvernig á einstaklingur að lifa á þessu kaupi, hvernig á einstaklingur að framfleyta sér og sínum á þessum launum? Ég segi: Það er ekki hægt. Þessi smánarlaun eru hneyksli og smánarblettur á íslensku þjóðfélagi, þau eru okkur öllum til skammar.

Fram kemur í þessu nái. að við teljum brýnna að bæta kjör þessa hóps, þessa fólks í þjóðfélaginu sem er viðlíka ástatt fyrir og þessum einstaklingi sem ég hef nú sagt frá, en að bæta kjör atvinnurekenda. Um það snýst þjóðmálabaráttan nú á stundum að bæta kjör þessa fólks, ekki að bæta hag atvinnurekenda, ekki að bæta hag fyrirtækjanna sem þegar virðast blómstra ef marka má frásagnir af afkomu hinna stærstu fyrirtækja sem nú halda senn aðalfundi og hafa verið að gera upp sína ársreikninga fyrir árið 1983. Þar er ekkert kvartað, þar er hagurinn góður, það fer ekkert á milli mála. En það er þarna sem þarf að breyta. Þetta er smánarblettur á íslensku þjóðfélagi.