21.02.1984
Sameinað þing: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3038 í B-deild Alþingistíðinda. (2636)

194. mál, sameiginleg hagsmunamál Grænlendinga og Íslendinga

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er eiginlega tvennt sem menn hafa undir sem von er við þessa umr. og ræða jöfnum höndum: annars vegar áhyggjur okkar út af samningi Grænlendinga við Efnahagsbandalagið og hins vegar það sem er í rauninni efnisatriði þessarar till. og fer ekki að öllu leyti fyllilega saman við hitt.

Ég verð að játa að í mínum huga hefur það verið nokkurt áhyggjuefni um nokkra hríð hvernig þessi mál mundu þróast og sé eiginlega eftir því að hafa ekki gert það í enn ríkara mæli að umtalsefni en ég hef þó gert, bæði að því er varðar samninga af því tagi sem nú hafa séð dagsins ljós og hins vegar óleystan vanda að því er varðar markalínuna við Jan Mayen. Maður gerði sér vonir um að forræði Grænlendinga á þessum málum mundi þýða ákveðna möguleika fyrir Íslendinga og kannske gerir það það enn þá, en það sem gerst hefur veldur manni áhyggjum um þessar mundir engu að síður. Segja má að það sé leitt að till. eins og þessi, sem í felst vilji Alþingis til samvinnu og í rauninni ósk um samvinnu, skuli ekki hafa komið fram fyrr. Menn geta vitaskuld velt því fyrir sér hvort það hefði skipt máli eða ekki, eins og hæstv. sjútvrh. gerði, en skoðun mín er að það hefði a.m.k. ekki skaðað og hugsanlega hefðum við haft af því einhvern hag.

Hitt er ljóst, að Grænlendingar eru sjálfstæð þjóð sem er að fjalla um sína eigin hagsmuni. Spurningin sem snýr að okkur er þá hvernig við getum tryggt hagsmuni okkar í því sambandi. Við erum ekki að biðja Græn­lendinga um að fórna hagsmunum sínum, en við hljót­um jafnframt að krefjast þess að þeir fórni ekki hagsmunum okkar. Það held ég að eigi að vera kjarni máls­ins í samskiptum okkar við þá, jafnframt því að við komum að öllu leyti fram við þá á jafnréttisgrundvelli.

En það er í rauninni fleira nýtt í þessari till. en felst einungis í því sem sagt er um að leita samkomulags við Grænlendinga og þá kannske sérstaklega af þessu tilefni. Í till. felst að verið sé að leita eftir nánari samvinnu þeirra ríkja sem liggja að fiskimiðunum norðarlega í Atlantshafi. Við höfum vanið okkur á það, Íslendingar, að hugsa sérstaklega um fiskstofna okkar, gegnum landhelgisdeilurnar, sem okkar eigin og eins og þeir héldu sig á okkar slóðum ævinlega, en það er ekki tilfellið að því er varðar nema hluta af þeim. Þar eru flökkustofnar og það eru sameiginlegir stofnar. Ég ætla að leyfa mér að nefna kannske markastofna. Þar á ég við rækjumiðin t.d. á Dohrnbanka og á þeim slóðum. Með þessari till. erum við að taka þau mál upp. Sérstaklega erum við að brýna fyrir okkur að við þurfum að taka upp samvinnu við önnur ríki um einmitt þessa fiskstofna. Það höfum við gert í ákaflega tak­mörkuðum mæli. Ég veit að við höfum haft samvinnu við fiskifræðinga um ýmis atriði, en að því er varðar stjórnun veiðanna höfum við verið að mínum dómi heldur sinnulaus. Þess vegna fagna ég þeirri nýjung sem ég tel felast í till. að þessu leytinu og ég held að það sé áreiðanlegt að Alþingi hafi ekki með almennum hætti tekið afstöðu af þessu tagi fyrr. Fiskveiðimál okkar, landhelgismál okkar eru í rauninni með þessari till. að færast á nýtt stig, að mínum dómi, og ég held að það sé gagnlegt.

Ég tel að þessi till. sé gagnleg, eins og ég sagði, og ég tel að það sé gott að Alþingi birti með þessum hætti opinberlega vilja þings Íslendinga í þessu máli og láti það koma fram um leið og í henni felst, eins og ég hef sagt, tilboð og ósk. Ég held að það sé ekki rétt að of seint sé að gera þetta þó ég hefði gjarnan viljað að það væri gert fyrr. Ég held að það sé ekkert síður bæði rétt og nauðsynlegt að halda á málinu eins og þessi till. gerir ráð fyrir og taka upp samvinnu um verndun og nýtingu fiskstofnanna með almennum hætti að því er varðar grannþjóðir okkar og sérstaklega að því er varðar Grænlendinga, eins og hér hefur komið fram í máli margra ræðumanna.

Ég skal ekki, herra forseti, tefja þessa umr. öllu lengur. Það er skoðun okkar Alþfl.-manna að rétt sé að greiða fyrir því að þessi till. geti hlotið samþykki sem allra fyrst.