27.10.1983
Sameinað þing: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það var afar athyglisverð ræða sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson flutti hér áðan. Sem betur fer er það sjaldgæft að slíkur málflutningur sé uppi hér á Alþingi. Þó er nauðsynlegt að fá það fram þó það sé ekki nema eins og eitt sýnishorn af sjónarmiðum Sjálfstfl. sem hér er flutt, þannig að alþjóð geti áttað sig á því af hvaða tagi sá stjórnmálaflokkur er sem enn þá hefur verulegan stuðning meðal kjósenda í þessu landi, því að utanríkisstefna Eyjólfs Konráðs Jónssonar er utanríkisstefna íslensku ríkisstj. um þessar mundir. Það er alger samhljómur á milli hæstv. utanrrh. og þeirrar stefnu sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson kynnti hér áðan. Vegna þess að ríkisstjórn Íslands er þeirrar skoðunar um þessar mundir að það sé smekksatriði hvort stórveldi fótumtreður sjálfstæði smáþjóðar, það sé nánast algert smekksatriði hvaða afstöðu menn taka til slíks.

Fyrir nokkrum árum birtist grein í Morgunblaðinu þar sem það var kynnt sem sjónarmið ákveðinna aðila sem stóðu að Sjálfstfl. og hafa ráðið utanríkisstefnu hans að í raun og veru væri eðlilegt að útlendingar tækju það að sér við ákveðnar kringumstæður að hafa vit fyrir Íslendingum í utanríkismálum. Það var sú stefna sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson var að kynna hér áðan að útlendingar geti við ákveðnar kringumstæður tekið að sér að hafa vit fyrir Íslendingum í utanríkismálum. Þar með er hv. þm. í rauninni að segja að það hafi verið misskilningur og mistök, að Íslendingar treystu sjálfstæði sitt með ákvörðun 17. júní 1944. Hann er að segja að það sé ástæða til að sjá eftir þeirri ákvörðun, hún hafi verið röng reynslan sýni að, vegna þess að aðrir eigi að taka ákvörðun fyrir Íslendinga. (Gripið fram í: Þetta var spaklega mælt.) Hér er um hrikalegt dæmi að ræða, um það hvílík lágkúra ríkir í Sjálfstfl., enn þá stærsta flokki landsins, varðandi utanríkismál, sem er tilbúinn til þess á hvaða stundu sem er að selja sig svo að segja í einu og öllu undir hin bandarísku viðhorf. Smekksatriði, sagði hv. þm. og þar með er hann í rauninni að segja að innrás geti verið réttlætanleg við ákveðnar aðstæður, — að innrás í smáríki geti verið réttlætanleg við ákveðnar aðstæður. Það er hrikaleg yfirlýsing í rauninni.

Hitt, og það vekur athygli að hæstv. ríkisstj. skuli ekki hafa komist að sameiginlegri niðurstöðu í þessu máli, því að hæstv. forsrh. gefur þá yfirlýsingu í einu dagblaðanna í dag, að hann gagnrýni harðlega eða fordæmi þessa innrás í eyríkið Grenada. Hæstv. utanrrh. virðist ekki taka undir þessi sjónarmið og neitar að fordæma innrásina og talar um hana með mjög mildum orðum hér áðan, talar um athöfn Bandaríkjanna, athöfn Bandaríkjamanna heitir það í munni hæstv. utanrrh. Ég vil inna hæstv. ráðh. eftir því hvort ríkisstj. fjallaði um þetta mál á fundi sínum í morgun og hvort hæstv. utanrrh. talar fyrir hönd ríkisstj. allrar. Og hvar er Framsfl. í þessari umr.? Það fer stundum mikið fyrir honum á málþingum um þessar mundir. Hann hefur ekki komið fram enn þá hér í þessari umr. utan dagskrár og þó er formaður utanrmn. Alþingis úr Framsfl. Væri fróðlegt að vita hvort þeir framsóknarmenn hafa einhverja skoðun á þessu máli eða hvort hæstv. utanrrh. talar fyrir þá í þessu máli hér í dag.