24.02.1984
Neðri deild: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3172 í B-deild Alþingistíðinda. (2736)

127. mál, jarðhitaréttindi

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. sem ég flyt um jarðhitaréttindi en það er 127. mál þingsins. Með frv. er lagt til að lögfestar verði reglur um umráðarétt og hagnýtingarrétt jarðhita. Gert er ráð fyrir að landeigendur hafi umráð jarðhita á yfirborði landsins og undir því að 100 metra dýpi en umráð alls annars jarðhita, hvort sem er á landsvæðum sem ekki eru háð einkaeignarrétti eða eru undir yfirborði einkaeignarlands á meira en 100 metra dýpi, verði í höndum ríkisins, þ.e. almannaeign, sam­eign þjóðarinnar.

Fyrir nokkru síðan mælti hv. 3. þm. Reykn. fyrir frv. til l. um breytingu á orkulögum en það gerir ráð fyrir að orka háhitasvæðanna sé sameign þjóðarinnar. Það frv. er nær samhljóða frv. sem Magnús Kjartansson fyrrum iðnrh. flutti á mörgum þingum, fyrst sem stjfrv. þrívegis 1972–1974 og síðan þrívegis sem þmfrv. ásamt fleirum 1974–1976. Það frv. er gott mál en náði ekki fram að ganga á fyrri þingum.

Frv. það sem hér er flutt um jarðhitaréttindi er víðtækara, þar eð það tekur til alls jarðhíta hvort sem er um að ræða svonefnd lághita- eða háhitasvæði. Í 6. gr. frv. segir:

„Íslenska ríkið á allan rétt til jarðhita sem liggur dýpra en 100 metra undir yfirborði landareigna skv. 1. mgr. 1. gr. Íslenska ríkið á allan rétt til jarðhita sem liggur utan landareigna skv. 1. mgr. 1. gr.

1. gr. frv. er þannig:

„Landareign hverri sem háð er einkaeignarrétti fylgir réttur til umráða og hagnýtingar jarðhita á og undir yfirborði hennar í allt að 100 metra dýpi. Landeiganda er rétt að bora eftir og hagnýta sér jarðhita með þeim takmörkunum sem lög þessi tilgreina.“

Í þessu felst meginstefnumörkun frv., þ.e. að mörk­in milli einkaeignarréttar á jarðhita og almannaeignar eru dregin við 100 metra undir yfirborði, en til þessa hefur í löggjöf verið byggt á þeirri meginstefnu að landeigendur hefðu umráða- og eignarrétt á jarðhita, bæði á og í jörðu. Þótt þessum rétti hafi verið sett ýmis takmörk er enga reglu eða ábendingu að finna í löggjöf um það hversu djúpt í jörðu niður forræði landeiganda á jarðhita nær, né heldur er í íslenskum rétti að finna reglu sem kveður á um takmörk eignarráða land­eiganda niður á við. Fræðimenn hafa talið að þau nái svo langt niður sem nauðsynlegt er að leyfa til að landeigandinn geti haft þau not af landi sínu sem heyra til venjulegrar hagnýtingar á landi. T.d. kemur það fram hjá prófessor Ólafi Lárussyni í riti hans, Eignar­réttur.

Í frv. þessu er á því byggt að löggjafinn geti sett almennar takmarkanir að eignarrétti að landi, þó þannig að ekki brjóti í bága við rétt landeiganda til að hafa þau not af landi sínu sem heyra til venjulegrar hagnýtingar. Hér er því um almenna takmörkun á eignarrétti að ræða, að því er varðar heimildir land­eigenda til að nota og ráðstafa jarðhita, en ekki þess háttar eignarskerðingu að varði bótaskyldu skv. 67. gr. stjórnarskrárinnar. Í grg. með frv. er fjallað allítarlega um þetta atriði og er í því sambandi vitnað til ritgerðar Ólafs Jóhannessonar prófessors, núv. hv. 9. þm. Reykv., en hún er frá árinu 1966 og ber nafnið „Um eignar- og umráðarétt að jarðhita“. Svo og er vitnað til ummæla dr. Bjarna Benediktssonar í grg. með frv. sem hann flutti á Alþingi 1945 um viðauka við lög nr. 98/ 1940, um eignar- og notkunarrétt jarðhita.

Þessir tveir fræðimenn og þingskörungar virðast í aðalatriðum hafa verið sammála um eignarréttarviðhorf í þessu efni. Niðurstöður Ólafs Jóhannessonar í nefndri ritgerð voru þær að þrátt fyrir að réttur landeigenda til umráða og hagnýtingar jarðhita á landi sínu sé, að því er virðist, litlum skorðum bundinn af núgildandi lögum, þá megi auðvitað setja honum ýmis takmörk með nýrri löggjöf, ef ástæða þykir til. Enn fremur segir Ólafur að það sé sanngjörn regla og í samræmi við eðli máls að sérstök náttúruauðæfi, sem enginn einstakur hefur átt þátt í að skapa, séu sameign þjóðarinnar allrar. Um­rædd ritgerð hans fylgdi frv. til l. um jarðhita, sem lagt er fyrir Alþingi árið 1956. Var það mikill bálkur í 66 greinum og var í 8. gr. þess að finna svohljóðandi ákvæði, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkið á allan rétt til umráða og hagnýtingar jarðhita sem liggur dýpra eða sóttur er dýpra en 100 metra undir yfirborð jarðar, sbr. þó 14. gr.

Sést af þessu að 100 metra mörkin og almannaréttinn hefur borið áður á góma varðandi jarðhita í tillöguflutn­ingi hér á hv. Alþingi. Ég vek athygli á ákvæði 11: gr. varðandi sérstöðu og forgangsrétt sveitarfélaga, en þar segir: „Sveitarfélag, sem á land á jarðhitasvæði við gildistöku laga þessara, skal hafa forgangsrétt til jarð­hitarannsóknaleyfis og jarðhitaleyfis skv. 9. og 10. gr. á landi sínu og vera undanþegið leyfisgjaldi skv. 12. gr."

Í þessu ákvæði er lagt til að sveitarfélög, sem eignast hafa land á jarðhitasvæðum fyrir gildistöku laganna, skuli hafa betri rétt en aðrir til að hagnýta jarðhita sem á landi þeirra finnst. Er á því byggt í ákvæði þessu að jarðhiti í umráðum sveitarfélags verði notaður til al­menningsheilla, og rétt sé að tryggja með löggjöf að réttur sveitarfélagsins til að nýta jarðhitann sé betri en réttur annarra sem kunna að sækja eftir hagnýtingu jarðhita í landi sem sveitarfélag hefur eignast fyrir gildistöku laganna. Skv. 8. gr. er og ráð fyrir því gert að þeir sem þegar hafa borað eftir jarðhita og byrjað hagnýtingu hans skuli halda rétti til þess jarðhita án sérstaks leyfis og án greiðslu gjalds og einnig að slíkir aðilar hafi forgangsrétt til frekari hagnýtingar sama jarðhitasvæðis til sama fyrirtækis. Þetta þykir vera sanngirnisatriði.

Auk þessarar stefnumörkunar um eignar- og umráða­rétt jarðhita er leitast við að fella inn í frv. ákvæði um jarðhita úr gildandi lögum, fyrst og fremst III., V. og VII. kafla orkulaga nr. 58/1967, þannig að hér sé um að ræða heildarlög um jarðhita. Lagt er til að ákvæðum orkulaga verði haldið efnislega auk þess sem kveðið er á um skyldu ríkisins til ákveðinna ráðstafana og eftirlits vegna hættu sem stafar af jarðhitasvæðum.

Þá er gert ráð fyrir að áður en ráðh. veitir jarðhita­rannsóknarleyfi eða leyfi til nýtingar jarðhita á af­mörkuðu svæði, svonefnt jarðhitaleyfi, skuli leitað umsagnar Orkustofnunar og Náttúruverndarráðs.

Rétt er að taka fram að með frv. þessu er ekki gert ráð fyrir breytingum á ákvæðum vatnalaga, þeim er varða jarðhita.

Virðulegi forseti. Frv. þetta var lagt fram síðla á síðasta þingi og þá sem stjfrv. en fékk þá ekki umr. Undirbúning að þessu máli má rekja til ákvæðis í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar frá 1. sept. 1978 þess efnis að djúphiti í jörðu skuli vera þjóðareign. Á grundvelli þess ákvæðis hófst undirbún­ingur að frv.-gerð um jarðhita á vegum iðnrn. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar dr. Gunnars Thoroddsens frá 8. febr. 1980 var einnig ákvæði þess efnis að lög skyldu sett um eignar- og umráðarétt jarðhita. Sú staðreynd, að tvær ríkisstjórnir, sem hér hafa setið s.l. 5 ár, tóku ákvæði um að sett skyldi löggjöf varðandi jarðhitaréttindi upp í stjórnarsáttmála, sýnir hversu brýnt og mikilsvert mál hér er á ferð. Sama sýna raunar margar atrennur frá fyrri árum og áratugum hér á hv. Alþingi til að setja heildarlög um jarðhita, allt frá árinu 1937 að telja. Raunar verður að staðhæfa að rannsóknir á jarðhitasvæðum, ekki síst á háhitasvæðum, eru erfið­leikum bundnar í mörgum tilvikum vegna óvissu um jarðhitaréttindi. Ég minni í því samhengi á till. til þál., sem flutt var á síðasta þingi af þáv. ríkisstj., um skipulega rannsókn háhitasvæða landsins og nýtingu þeirra til iðnaðar og orkuvinnslu, en þetta frv. um jarðhitaréttindi var flutt á þinginu hinu síðasta um svipað leyti og nefnd þáltill. var lögð fram. Ég hef ekki heyrt um áform af hálfu núv, ríkisstj. í tengslum við þessi mál. Og raunar gekk ég úr skugga um það, áður en frv. þetta var lagt fram, að hæstv. núv. iðnrh. hugðist ekki taka málið upp hér á hv. Alþingi.

Jarðhitinn er stórkostleg auðlind sem farið er að hagnýta til mikilla hagsbóta fyrir þjóðina. Nýting hans, ekki síst á sviði margháttaðs iðnaðar, fer væntanlega ört vaxandi í náinni framtíð. Löggjafinn þarf því að sjá sóma sinn í að skapa almennan lagaramma um þá hagnýtingu. Þarf það viðhorf að sitja þar í öndvegi að þessi auðlind eins og önnur helstu náttúrugæði lands okkar sé sameign þjóðarinnar.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.