28.02.1984
Sameinað þing: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3230 í B-deild Alþingistíðinda. (2790)

173. mál, takmörkun fiskveiða í skammdeginu

Árni Johnsen:

Herra forseti. Það er sorglegt hve hv. 4. þm. Suðurt. er með kvótann á heilanum sem allsherjarlausn. Það má ekki minnast svo á fiskveiðar eða kvótafyrirkomulag að kvóti eigi ekki að ríkja um aldur og ævi í fiskveiðimálum hjá hv. þm. Þetta eru hans ær og kýr. Ég vil vara við þessu sjónarmiði sem er í fyllsta máta hættulegt og á að berjast gegn því af alefli að kvótakerfi ríki fremur en neyðin býður. Slík miðstýring sem hv. þm. Garðar Sigurðsson mælir sífellt fyrir er ekki í þágu okkar þjóðar né okkar sjómanna og útvegsmanna. Kvóti sá er um ræðir kemur til af illri nauðsyn og við skutum vona að það fyrirkomulag vari sem styst og að úr rætist fremur en menn hafa þorað að vona.

Það skýtur einnig skökku við þegar hv. 4. þm. Suðurl. lýsir því yfir að menn séu ekki neyddir til neins. Ég minnist þess að þegar greidd voru atkvæði um það hvort leyfa ætti hvalveiðar eða ekki stóð hv. þm. hér í pontu og hrópaði upp að hann væri með hvalveiðum en neyddist til að greiða atkvæði á móti þeim. Þetta er ekki í samræmi við það sem hv. þm. sagði hér áðan um kvótafyrirkomulagið fyrir íslenska sjómenn á veiðunum í kringum landið.

Allt sem dregur úr sókn á sjó hlýtur að draga úr afla. Það er einn sá liður sem allt byggist á í þeirri stöðu sem íslenskur sjávarútvegur býr nú við. Þess vegna hlyti niðurfelling á veiðum í einn mánuð eða sex vikur, hvað sem er, að draga úr afla. Þess vegna er sá þáttur tekinn inn í þá till. sem hér um ræðir að ef þarf að koma til stýring á þessum veiðum án þess að beinlínis sé um kvóta að ræða hlýtur að vera skynsamlegt að miða við ákveðinn tíma ársins, þann tíma sem erfiðast er að sækja og þann tíma sem skilar í heildina hvað minnstum afla. Þarna rekast þó auðvitað á launamál, bæði sjómanna og landverkafólks, og það er ekkert sjálfgefið að unnt sé að framkvæma þetta á þennan hátt nema með margháttuðum breytingum tengdum launagreiðslum og slíku. En þetta er þó þess virði að það sé skoðað og kannað ofan í kjölinn.

Ég vil undirstrika að kvótafyrirkomutag sem um ræðir nú er neyðarbrauð í þeirri stöðu sem menn telja að sé skynsamlegast að miða við. En það á auðvitað að vera eðlilegast að sjómenn, útvegsmenn og þeir sem sinna daglegum störfum í sjávarútvegi geti metið það sjálfir hvar sem er og hvenær sem er hvernig þeir vilji haga sinni vinnu. Það undirstrikar einnig það miðstýringarvald, sem kom fram hjá hv. 4. þm. Suðurl. og ég vil mótmæla, að hann sagði áðan að það hefði átt að byrja á kvótafyrirkomulaginu þegar aflinn var mikill. Þá á hreinlega ekkert að vera að tala um kvóta. Þá eiga menn að vera frjálsir að því að vinna eins og þeim sýnist. Það er furðulegt að maður sem hefur gripið í sjómennsku af og til skuli láta slíkt og því líkt út úr sér.

Allt var skynsamlegt sem hv. þm. Tryggvi Gunnarsson lét hér frá sér fara en ég er sannfærður um að hann er í sjálfu sér algjörlega á móti kvótafyrirkomulagi og mælir því ekki bót nema á meðan neyðarbrauð er, þótt hv. þm. Garðar Sigurðsson hafi viljað gera hans orð að sínum.