28.02.1984
Sameinað þing: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3238 í B-deild Alþingistíðinda. (2796)

173. mál, takmörkun fiskveiða í skammdeginu

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil aðeins af þessu tilefni undirstrika að það sem vakir fyrir flm. þeirrar till. sem hér liggur fyrir er fyrst og fremst það, hvort ekki sé vegur að fara öðruvísi að þegar nauðsynlegt er talið að takmarka fiskveiðar meira en gert er með kvótakerfinu. Það er rétt, sem fram kom hjá síðasta ræðumanni, að það var þrýstingur frá hagsmunaaðilum sem réði úrslitum um það að heimildir til þess að taka upp kvótakerfið voru veittar á Alþingi nú fyrir jólin og hefði ekki verið gert að öðrum kosti. Félag ísi. botnvörpuskipaeigenda voru einu hagsmunaaðilarnir sem mæltu gegn því á þeim tíma eins og við öll raunar vitum.

Ég vil einnig út af ræðu hæstv. sjútvrh. taka fram að þannig hefur verið haldið á takmörkun fiskveiða á þessu ári að línuveiðar hafa verið örvaðar núna í svartasta skammdeginu, janúar og febrúarmánuði með því að helmingur af þorskafla skuli vera utan við kvóta en ekki á öðrum tímum ársins. Aðeins þessi ráðstöfun ein gefur tilefni til þess að því máli sé hreyft hvort ekki sé réttara að slík tilhliðrun sé gefin á öðrum tíma en þessum þegar sjósókn er erfiðust og hættulegust og vekur einnig umhugsun um hvort rétt sé að miða aflaárið endilega við almanaksárið hvort ekki væri réttara að miða aflaárið t.d. við 1. febr. eða 15. febr., þannig að fiskveiðar í svartasta skammdeginu mættu afgangi. Þessi hugsun er líka á bak við þennan tillöguflutning.

Við vissum það fyrirfram að kvótakerfið eins og það var hugsað af Fiskifélaginu og hagsmunaaðilum sjávarútvegsins mundi ekki verða réttlátt í öllum greinum, til þess eru afbrigði of mörg. Það liggur líka fyrir að afli hefur verið tregur í sumum byggðarlögum á síðustu árum borið saman við önnur þannig að þessi byggðarlög fara verr út úr kvótaskiptingunni en ella mundi.

Í sambandi við umr. um þessi mál hér á þingi og einnig í sjútvn. hefur komið fram að sjútvrn. mun athuga sérstaklega hvort rétt sé að bæta þeim byggðarlögum aflamissinn sem verst hafa farið út úr fiskveiðum á liðnum misserum. Það mál hlýtur að koma nú til endurskoðunar.

Það er rétt sem hv. 3. þm. Austurl. sagði áðan að stjórnun fiskveiða hefur tekist misjafnlega og við vitum raunar að kvótakerfið sem slíkt felur ekki í sér neina óskalausn á því máli. Viðurkennt er jafnvel af helstu talsmönnum þess kerfis að í tregum afla er þessi veiðiháttur síður en svo þannig vaxinn að hann tryggi verndun fiskstofna. Einmitt þegar fiskstofnar eru veikari en búist hafði verið við er kvótakerfið hættulegra en hinn hátturinn að reyna að takmarka veiðar á ákveðnum tímum.

Ég skal ekki fara út í þá sálma sem hv. 4. þm. Vesturl. gerði hér áðan, að ræða sérstaklega um hagsmuni ákveðinna landsvæða, fjórðunga, í sambandi við fiskveiðistefnuna. Það má vera að rétt sé hjá honum að Suður- og Vesturland fari illa út úr þessari skiptingu að þeirra dómi sem þar búa. Hitt er alveg ljóst að að dómi Norðlendinga er svo ekki og heldur ekki að dómi Austfirðinga, svo að ég viti, a.m.k. ekki norðan til. Sú ráðstöfun að ufsinn sé utan við kvótann nú til 20. febr. s.l., sú ráðstöfun að línufiskur sé að hálfu utan við kvóta í janúar- og febrúarmánuði er að sjálfsögðu fyrst og fremst gerð fyrir Suður- og Vesturlandið þar sem gæftir eru betri á þessum tíma. Það vita menn og einnig hitt að ufsaveiðar verða ekki stundaðar með árangri á þessum árstíma nema hér sunnanlands.

Ég vil beina því til þeirrar n. sem fær þetta mál til meðferðar að reyna að hraða afgreiðslu þessarar þáltill. og einnig að athuga hvort rétt sé að víkka hana, íhuga hvort rétt sé að minnast þar á fleiri árstíma en svartasta skammdegið, einkum með það í huga hvort ekki geti náðst víðtækt samkomulag um að haga stjórnun fiskveiða með öðrum hætti en gert er nú á þessu ári.