01.03.1984
Sameinað þing: 60. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3339 í B-deild Alþingistíðinda. (2865)

111. mál, áfengt öl

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Nú fyrir skömmu var opnað stórt meðferðarheimili, sjúkraheimili til að freista þess að bjarga altmörgum mönnum frá áfengisbölinu. Þetta heimili er ekki eina meðferðarheimilið af þessu tagi. Þau eru hér víða um land og mörg og öll full. Enda þótt við höfum fleiri sjúkrapláss fyrir drykkjusjúklinga en nokkur önnur þjóð í veröldinni duga þau ekki sem fyrir eru. Margfalt fleiri en þeir sem fara til slíkrar meðfeðrar eru illa farnir vegna áfengisneyslu. Stöðugt verða þeir unglingar, og ég held að það sé óhætt að segja þau börn, yngri sem ánetjast áfengisneyslu. Það er staðreynd að ákveðið hlutfall þeirra sem hefur drykkju ánetjast áfenginu þannig að það eyðileggur þeirra líf og þeirra nánustu. Afengisvandamálið er kannske eina stóra vandamálið í þessu þjóðfélagi. Hin má leysa eftir atvikum.

Herra forseti. Það er reynsla annarra þjóða, sem hafa bætt bjórnum við annað áfengi, að það dregur ekki úr neyslu þess áfengis sem fyrir var á markaðnum heldur hefur bjórinn bæst við. Ef við athugum þær tölur sem fyrir liggja um það magn hreins vínanda sem hver einstaklingur drekkur í ákveðnum löndum kemur í ljós að þeir sem drekka mestan bjór drekka langmest af hreinum vínanda samtals ýfir árið. Íslendingar eru sem betur fer enn tiltölulega lágt á þeirri skrá. Ég er ekki í nokkrum vafa um að meðalneysla áfengis mun vaxa ef bjórnum er bætt við. Ég held að það skaðræðisdýr sé nógu slæmt sem fyrir er þó við förum ekki að beita okkur fyrir að bæta öðru við.

Ég er ekki sammála þeim röksemdum þeirra manna sem eru að berjast gegn bjórdrykkju að unglingar læri eitthvað fyrr að drekka áfengi með bjór. Íslenskir unglingar, börn, hafa getað lært það nógu snemma og allt of fljótt þó að bjór hafi ekki verið á boðstólum. En ég vil minna hv. alþm. á að áfengisvandamálið er ærið fyrir og sú staðreynd liggur fyrir, sönnuð staðreynd, að bjórdrykkjan bætist við en kemur ekki í staðinn fyrir aðra áfengisneyslu.

Hvernig stendur svo á því að menn fara þessa leið nú, ákaflega sakleysislega leið, að velta ábyrgðinni af sjálfum sér — því auðvitað á þingið sjálft að taka ákvörðun í slíkum málum — yfir á þjóðaratkvæðagreiðslu? Við höfum sem betur fer tækifæri til að greiða atkv. um ýmsa hluti í þjóðaratkvæðagreiðslu en þeirri aðferð á ekki að beita í slíkum málum sem þessum. Ég held að þjóðaratkvæðagreiðsla sem slík setji ofan við það að nota hana við að lauma inn meira áfengi til neyslu. Kannske þora flm. ekki að flytja sjálfir frv. um að hér skuli vera bruggaður bjór og seldur. Þeir eru að víkjast undan því og velta hlutunum yfir á aðra.

Herra forseti. Um þetta mætti auðvitað tala lengra mál en ég vil hvetja alþm. til, þegar þeir fjalla um þetta mál, að reyna að gera sér skýra grein fyrir þeim voðalegu afleiðingum sem af þeirri ákvörðun gæti leitt.