06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3381 í B-deild Alþingistíðinda. (2901)

179. mál, eftirlitsnefnd með framkvæmd fjárlaga

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég þakka þær upplýsingar sem komið hafa fram. Þær staðfesta það sem kemur fram í þessari frétt blaðsins á sínum tíma og gerð var nánari grein fyrir verksviði nefndarinnar. Ég tel að formleg aðild formanns og varaformanns fjvn. að þessari embættismannanefnd sé ekki rétt. Auðvitað þinga menn um þessa hluti alveg eins og embættismenn þinga um fjárlög við undirbúning þeirra en ég tel að fjvn. eigi að hafa ákveðið eftirlit. Ef það er vilji fjvn. að þessir tveir meðlimir nefndarinnar séu samstarfsaðilinn við embættismannanefndina, þá gott og vel. En mér finnst að það þurfi þá að vera ósk og samþykki nefndarinnar sjálfrar.

Ég veit ekki hvað fjvn. hefur verið látin fylgjast með því starfi embættismannahópsins sem hefur leitt til þeirra talna sem birtar hafa verið þingheimi núna að undanförnu. Ef ég ætti sæti í fjvn., sem hefði þingað dag og nótt í tvo mánuði fyrir jól um fjárlög og sæti núna undir því tveimur mánuðum síðar að þessi fjárlög væru ómerk upp á tíunda hluta, fyndist mér ég hafa verið hafður út undan ef ég hefði ekki verið hafður með í þeirri vinnu sem hingað til hefur farið fram eða fengið á virkan hátt að fylgjast með.