06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3411 í B-deild Alþingistíðinda. (2943)

434. mál, jarðhitarannsóknir á Snæfellsnesi og í Dalasýslu

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég hef kannske verið óskýrmæltur þegar ég mælti á þessa leið: Orkustofnun hefur ekki uppi áætlanir um verulegar jarðhitarannsóknir á Snæfellsnesi á árinu 1984. Úr því sem komið er hef ég það ekki heldur af því sem fjármagn skortir. Ég tók fram að vegna Grafarlaugar í Miðdölum þá yrði lokið við boranir þar strax í vor eða sumar þannig að þeim verður haldið fram. Ég hef hins vegar sagt og endaði ræðu mína á því, að ég hefði áhuga á og mundi beita mér fyrir frekari jarðhitarannsóknum á þessum svæðum. Ég verð að segja það, að þeir möguleikar sem kann að vera að finna við Berserkseyri, svo ég nefni það sem dæmi, hljóta að vekja áhuga áhugamanna um fiskirækt.

Ég vil enn víkja að því að ég sagði: Nú er ekki á döfinni brúargerð yfir Kolgrafarfjörð. En það má alls ekki skilja svo að þær áætlanir og hugmyndir séu með öllu úr sögunni, enda alls ekkert ófært að leggja fyrir Kotgrafarfjörð leiðslu, ef menn vildu virkja jarðvarma við Berserkseyri. Við Berserkseyrina þarf að byggja út garð og mig minnir að ég hafi hér hnotið um það að þetta væru 300–400 metrar og allt er þetta með þeirri vísu og í námunda við það mikla þéttbýlisstaði, að ég hef alveg sérstakan áhuga á þessum stað, að rannsaka þetta frekar. Og ég held að svo kunni einnegin að vera að ómaksins sé vert að bera niður víðar á sunnanverðu nesinu og þar kunni möguleikarnir að vera meiri.

Ég endurtek þess vegna að í ár á ég þess ekki kost að verja meira fjármagni til þess arna að því er nú best verður séð. Það er e. t. v. ekki siglt fyrir öll sker með það að eitthvað frekar fáist af fjármagni til jarðhitaleitar. Ég vil ekki fullyrða að með öllu sé lokum skotið fyrir það. En á meðan það liggur ekki fyrir get ég í ár ekki haft uppi frekari áform, en ég mundi beita mér fyrir því alveg sérstaklega við Berserkseyri, og það þá þegar á næsta ári. Vona ég að þessi orð séu það skýr að ekki fari milli mála við hvað ég á.