13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3667 í B-deild Alþingistíðinda. (3075)

424. mál, notkun sjónvarpsefnis í skólum

Fyrirspyrjandi (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 356 að spyrja menntmrh. nokkurra spurninga. Fyrsta er svohljóðandi:

„Hvað líður athugun á því að Námsgagnastofnun fái til dreifingar í skóla myndefni sem sjónvarpið hefur framleitt á liðnum árum og telst gagnlegt til notkunar í skólum?“

Ég hef frétt að þetta mál hafi verið tekið fyrir í útvarpsráði og fengið þar góðar undirtektir og það hafi verið tekið aftur fyrir í útvarpsráði og fengið aftur góðar undirtektir en ekkert skeð.

Í öðru lagi spyr ég: „Hvað kemur í veg fyrir að Námsgagnastofnun geti fengið slíkt efni til dreifingar í skólum?“

Þriðja spurningin er: „Hver er stefna menntmrh. að því er varðar notkun þessara mikilvægu og sterku fjölmiðla í skólakerfinu?“

Ég vil geta þess að í mörgum löndum Evrópu og víðar er ríkisfjölmiðlunum, útvarpi og sjónvarpi, gert skylt að framleiða efni sem hentað gæti til kennslu í skólum. Einnig sjá þessir aðilar um útgáfu bóka og bæklinga sem tengjast efni þáttanna.

Mér er sagt að ýmsir stjórnendur Ríkisútvarpsins telji að sjónvarpinu hafi aldrei verið falið að framleiða fræðsluefni fyrir skólakerfið. Námsgagnastofnun hefur verið gert ókleift að annast þessa þjónustu. Sú stofnun hefur margsinnis óskað eftir að fá fjármagn til framleiðslu myndefnis sem hentar í skólum, en ekki fengið.

Í fjórða lagi spyr ég: „Hver er stefna menntmrh. varðandi þátttöku Íslands í samvinnu skólasjónvarpsdeilda sjónvarpa á Norðurlöndum?“

Á undanförnum misserum munu starfsmenn Námsgagnastofnunar hafa rætt við fulltrúa skólasjónvarpsdeilda Norðurlanda sjónvarpsstöðvanna og viðrað þann möguleika að sú stofnun verði fulltrúi Íslands í samvinnu þessara deilda og sjónvarpsstöðvanna. Það mun hafa verið tekið jákvætt undir það mál og þeir frændur okkar segjast sakna okkar Íslendinga í því samstarfi. En íslenska sjónvarpið hefur ekki tekið þátt í þessu eins og ég gat um hér áðan. Ég vænti þess að fá skýr og greið svör við þessum fsp.