13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3676 í B-deild Alþingistíðinda. (3085)

185. mál, greiðslur ríkisfyrirtækja til Vinnuveitendasambandsins

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þau svör sem hann hefur veitt hér í dag. Þau eru allítarleg og upplýsa að verulegu leyti það mál sem hér er verið að spyrja um, þ. e. hvað ríkisstj. ætlar að láta ríkisfyrirtækin borga Vinnuveitendasambandinu háa styrki á árinu 1984 til að heyja kjarabaráttu við verkalýðshreyfinguna í landinu. Styrkurinn sem hér hefur verið nefndur er upp á um það bil 1.5 millj. kr. frá þeim fyrirtækjum sem þegar hefur verið ákveðið að setja inn í Vinnuveitendasambandið, þessum fyrirtækjum fólksins, og síðan er ætlunin að bæta fleiri fyrirtækjum við. Hæstv. landbrh. mun ætla að ganga þessa braut íhaldsins á enda líka og setja Áburðarverksmiðjuna inn í Vinnuveitendasamband Íslands. Hann telur væntanlega að það sé affarasælt í samskiptum launamanna og bænda í þessu landi að reka Áburðarverksmiðjuna inn í Vinnuveitendasamband Íslands við þá stöðu sem nú er uppi í landinu. Þetta er auðvitað sama afstaðan og framsóknarforustan hefur haft til Mjólkursamsölunnar og Mjólkurbús Flóamanna, en þau fyrirtæki eru bæði í Vinnuveitendasambandi Íslands og eru þó fyrirtæki bændanna sjálfra, þeirra sem framleiða þá vöru sem unnin er hjá þessum fyrirtækjum.

Ég tel að með ákvörðun ríkisstj. sé verið að stíga mjög hættulegt skref og ég tel að nauðsynlegt sé að fyrir liggi hér og nú, a. m. k. af okkar hálfu í Alþb., að við viljum að þessu verði breytt á ný. Við teljum að með þessu sé verið að skipa ríkisfyrirtækjunum, fyrirtækjum fólksins, einhliða við hliðina á fjármagnsöflunum í landinu.

Hv. þm. Páll Pétursson er orðinn svo áttavilltur og ruglaður af íhaldssamstarfinu að hann kemur hér upp og segir að rökin séu þau að rétt sé að þessi fyrirtæki fái að hafa samflot um samninga innan Vinnuveitendasambands Íslands vegna þess að þar þurfi eiginlega helst öll fyrirtæki að vera. Þá vil ég spyrja hv. þm. Pál Pétursson sömu spurningar sem ég bar fyrir hæstv. forsrh. fyrir nokkrum vikum. Mun hv. þm. Páll Pétursson beita sér fyrir því, og hæstv. landbrh. sem er kunnugur húsum þar líka, að Vinnumálasamband samvinnufélaganna gangi í heilu lagi í Vinnuveitendasamband Íslands? Það væru hin einu rökréttu viðbrögð af þeirri allsherjarherleiðingu Framsfl. sem hefur verið ákveðin undir forustu Steingríms Hermannssonar og svo auðvitað það líka að Framsfl. gangi í íhaldið, vegna þess að það er ekki nokkur munur að verða á þessum tveimur stjórnmálaflokkum til eða frá, hvorki í þessu máli né öðrum.

Hæstv. forsrh. gerði grein fyrir því áðan að ætlunin væri að öllum líkindum að vinnumálanefnd ríkisins starfaði áfram. Sá kostnaður sem lagður hefur verið út þar verður bersýnilega til áfram. En hér er ekki verið að spara fjármuni og ég vil spyrja hæstv. forsrh. og hæstv. iðnrh., sem hefur kvatt sér hér hljóðs: Er hann hér með þessari ákvörðun sinni að lýsa vantrausti á vinnumálanefnd ríkisins? Er hæstv. landbrh. með þessari afstöðu sinni, af því að hann hefur líka beðið um orðið, að lýsa vantrausti á vinnumálanefnd ríkisins? Og er hæstv. landbrh. með afstöðu sinni varðandi Áburðarverksmiðjuna að lýsa því yfir að bændur eigi samleið með fjármagnsöflunum gegn launamönnum í þessu landi? Auðvitað getur þessi yfirlýsing og afstaða hæstv. landbrh. ekki þýtt neitt annað, þó hann hafi kannske ekki áttað sig á því þegar þessi ákvörðun var tekin.

Það er greinilegt að íhaldið hefur haft sín sjónarmið fram í þessu máli að fullu og öllu. Framsfl. er svínbeygður í bóndabeygju íhaldsins í þessu efni. Væri fróðlegt að heyra ítarlegri rökstuðning fyrir þessari afstöðu þeirra framsóknarmanna.

Nú vil ég minna á að á undanförnum árum hefur það verið svo að leitast hefur verið við að hafa það þannig með kjarasamninga gagnvart ríkisfyrirtækjunum að gera heildarsamninga. Þannig hefur það verið t. d. í Sementsverksmiðjunni, Áburðarverksmiðjunni og Járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga. Það hafa verið gerðir heildarsamningar við öll verkalýðsfélögin, sem eru með starfsmenn hjá viðkomandi fyrirtækjum, í sameiningu. Ég vil benda á að auðvitað hlýtur sú ákvörðun ríkisstj. að senda fyrirtækin inn í Vinnuveitendasamband Íslands að skapa hættu á því að samstaða splundrist um kjarasamninga hjá ríkisverksmiðjunum. Telja menn að hagsmunum þessara fyrirtækja sé betur borgið ef það þarf að gera 10–20 kjarasamninga fyrir hvert fyrirtæki í staðinn fyrir einn heildarkjarasamning, eins og þetta hefur verið á undanförnum árum, en það er nákvæmlega sú ákvörðun sem hæstv. ríkisstj. er að taka í þessu efni? Hún er að splundra fyrirkomulagi sem komið hefur verið á á liðnum árum.

Hæstv. ríkisstj. hefur ákveðið að greiða stórfellda fjármuni, fleiri millj. kr. á ári, í baráttusjóði Vinnuveitendasambands Íslands gegn launafólkinu í landinu. Á sama tíma og hæstv. fjmrh. vælir á götuhornum yfir því að ríkissjóður sé á hausnum eru nógir peningar til til að styrkja Vinnuveitendasambandið í herferð þess gegn launafólki í landinu. Þessi afstaða segir meira um ríkisstj. en flest annað sem spurst hefur til hennar til þessa.