13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3693 í B-deild Alþingistíðinda. (3115)

Um þingsköp

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég vona að ég sé ekki að brjóta þinghefð með því að svara undir þessum umr. þeim spurningum sem til mín er beint frá tveimur ágætum ræðumönnum, sem tekið hafa til máls, hv. 3. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Austurl. Þeir hafa báðir spurt hvort ríkisstj. stæði að baki menntmrh. í þeim skipulagsbreytingum sem hún hefur staðið að í sínu rn. Svo er. Hæstv. menntmrh. lagði tillögur sínar fram fyrir ríkisstj. og ráðh. samþykktu þær. Þar með vil ég líka svara spurningu nr. 2, að ég sem fjmrh. stend fyllilega að baki menntmrh. og mun gera mitt til þess að þessi skipulagsbreyting í menntmrn. megi eiga sér stað. Þar með mun ég að sjálfsögðu líka standa að þeim launagreiðslum sem minnt var á í spurningu til mín.

Það sem ég er óánægður með er að það skuli vera svona miklar umr. hér um bil í heilan dag og svo margir Alþb.-menn taka þátt í þeim án þess að hafa skammað mig nokkurn skapaðan hlut. (GHelg: Það kemur.) Það kemur, já. Ég fagna því. Og í öðru lagi: Það sem veitir mér kannske hvað mesta ánægju er það að hæstv. menntmrh., sem við eigum öll að vera stolt af, skuli nú hafa tekið af skarið og reynt að breyta því sem hingað til hefur verið talið hreiður Alþb., menntmrn., sem ég vil alls ekki kalla hreiður Alþb., og gerbylta því og hreinsa þar til. Það er í fyllsta samræmi við það sem ég hef verið að segja frá því að ég kom í þetta starf. (RA: Það eru pólitískar ofsóknir.) Pólitískar ofsóknir hafa verið. Ég er að tala um að það sé í fyllsta samræmi við það sem ég hef sagt. (Gripið fram í.) Ég vissi að það væri hægt að vekja hv. 7, þm. Reykv. Vinur minn, hv. 7. þm. Reykv., er vaknaður. Það gleður mig. Það er nákvæmlega þessi hugsun sem ég hef verið að reyna að koma inn hjá íslensku þjóðfélagi, að það sé kominn tími til að afsósíalisera — hreinsa þetta tímabil Alþb. í burtu í eitt skipti fyrir öll.

Með þessum orðum hljótið þið að vera búnir að fá umr. niður á það plan sem þið viljið halda þeim, vegna þess að þessar umr. og margar aðrar sem hér hafa átt sér stað eru eingöngu vegna þess að þið hafið ekkert merkilegra til að tala um, þið hafið ekkert málefnalegt og komið með mál eins og þetta til að flækja og tefja tímann og ekkert annað. Málefnafátækt Alþb. er gersamlega furðuleg.