13.03.1984
Sameinað þing: 65. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3702 í B-deild Alþingistíðinda. (3126)

Umræður utan dagskrár

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það eru margir þm. sem kæra sig ekkert um að sitja undir þeirri umr. sem hv. 3. þm. suðurt. hóf hér á undan og ég vil leyfa mér að þakka honum fyrir, enda strax byrjuð frammíköll frá ákveðnum mönnum um að hann væri jafnvel að tefja þingstörf með því að hefja máls á þessu máli og ég með því að vekja athygli á að ég hafi lagt fram fsp. um það sem beint á sinn þátt í því hvernig komið er nú í öryggis- og slysamálum þessarar stéttar, og svo aðra fsp., sem varðar hluta af þessu stóra máli, en það er að eiginlega er látið gott heita að þessi mál séu sett skör lægra pólitískum áróðursmálum sumra þm. sem hér vaða uppi í nær hverju máli. Ég skal ekki hafa fleiri orð um það, enda hér um miklu alvarlegri mál að ræða þegar við erum að tala um sjóslysin sem hafa dunið yfir á síðustu mánuðum og misserum.

Ég hef lengi haft það starf með höndum á vegum sjómannadagssamtakanna að skýra frá því á sjómannadaginn hve margir sjómenn hafi látist á liðnu ári. Þessi tala er að sjálfsögðu á landsmælikvarða. Þá eru tekin saman öll dauðaslys sem verða á skipum. Við fögnuðum því sérstaklega, forustumenn sjómannasamtakanna, síðasta sjómannadag að ekki voru nema þrjár stjörnur í stjörnufánanum sem er minningarfáni samtakanna. Síðan þessi dagur leið hafa 26 íslenskir sjómenn látið líf sitt við störf á sjónum eða vegna slysa sem þeir hafa hlotið um borð í skipum sínum. Til viðbótar fórust fjórir starfsmenn Landhelgisgæslunnar í flugslysi og voru tveir þeirra sem þar fórust skipverjar hjá Landhelgisgæslunni. Til viðbótar má svo benda á hið hræðilega slys þegar sjö Þjóðverjar fórust við suðurströnd landsins ekki alls fyrir löngu. Þá eru að sjálfsögðu ótalin öll þau örkuml, sár og veikindi sem menn hafa hlotið um borð í fiskiskipaflota okkar og farskipum. Meðan svo stendur á að sjómenn þegja í sambandi við launakjör og launamálaumræðu í þjóðfélaginu vegna þess að þeir hafa öðrum frekar skilið hvað þurfti að gera — það bitnaði fyrst og fremst á þeim þegar þorskur hvarf af miðum — þá geta menn varið tíma þingsins mánuðum saman til að ræða um bílastyrki fólks, sem situr inni í heitum herbergjum alla daga og vinnur takmarkaðan tíma úr sólarhringnum, en þegar sjómenn eiga í hlut er unnið upp í 18 tíma sólarhringsins við þær aðstæður sem skapa m. a. það hroðalega ástand sem komið er upp.

Ég hef tekið eftir því að margar stéttir þjóðfélagsins benda á vinnuaðstöðu sína og reyna að nýta hana til frekari kauphækkunar en aðrir fá. Og út af fyrir sig getur það verið réttmætt. En ég spyr hv. þm.: Hvar á þá íslensk sjómannastétt að standa í launastiganum í dag? Ætli þeir væru ekki nokkrir bílastyrkirnir sem þyrftu að koma til svo að jöfnuði yrði náð? Hefur nokkur þeirra hv. þm. sem mjög hafa haft á orði stöðu kvenna í vetur haft orð á stöðu sjómannskonunnar sem félagslega býr oft við verra hlutskipti en þær sem mest eru bornar fyrir brjósti í dag, en það eru skiljanlega einstæðar mæður? Hlutskipti sjómannskonunnar er nákvæmlega hið sama.

Það að ég tek til máls nú er að sjálfsögðu vegna þess að ég tel að ekki sé hægt að kenna einum eða neinum eða einni stofnun um hvernig komið er og alls ekki Siglingamálastofnuninni. Við höfum farið fram á það í samtökum sjómanna í nær 25 ár, sem ég er búinn að eiga sæti í stjórn stærsta sjómannafélags landsins, að Alþingi veiti fé til að láta framkvæma skyndiskoðanir á öryggisbúnaði skipa. Þetta hefur aldrei verið veitt. Þó hefur siglingamálastjóri margbeðið um þetta. Alþingi hefur ekki séð ástæðu til þess. Og fjárveitingar til þessarar stofnunar hafa alltaf verið skornar við nögl. Ég hef margoft bent á það hér að ekki er hægt að búast við öðru í jafnvélvæddu vinnutæki eins og fiski- og farskip eru í dag, og miðað við þær miklu hættur sem eru orðnar um borð í þessum skipum, þegar hraðinn eykst, þegar fækkar í áhöfn, þegar mannaskiptin eru örari en nokkru sinni áður og óvanari menn um borð en áður voru, en að taka verði mið af því og auka allan öryggisbúnað og kennslu mannanna í að fara með þann öryggisbúnað.

Ég hef margoft bent á að ekki er hægt að ætlast til þess að útgerð, sem kannske berst í bökkum, beri allan kostnað. Það eru ekki vegfarendur einir, akandi fólk eða gangandi fólk, á götum borgarinnar sem látnir eru borga götuvitana, umferðarljósin. Það fé er tekið úr sameiginlegum sjóði borgarbúa t. d. í Reykjavík. Og auðvitað á að taka hluta af fé til að gæta öryggis sæfara úr sameiginlegum sjóðum landsmanna og stuðla þannig að meira öryggi og gæta þess að tryggingar sjómanna séu í einhverju samræmi við áhættu og tryggingar annarra landsmanna sem þeir hafa náð fram bæði með samningum og lögum.

Það er blóðugt til þess að vita að þegar þeir „pakkar“ sem hafa verið sendir sjómönnum á liðnum árum hafa verið opnaðir hefur alltaf vantað í þá. Það hefur verið komin svolítil feyskja í innihaldið og í pakkanum hefur ekki verið allt sem lofað var, sbr. lög um rétt sjómanna til að taka sinn lífeyri og hætta störfum 60 ára gamlir ef þeir væru búnir að vera lögskráðir í a. m. k. 25 ár. En ég ætla ekki að fara út í það mál núna. Það mun bíða betri tíma.

Það eru að sjálfsögðu fleiri stofnanir en Siglingamálastofnun sem koma við sögu. Það er m. a. Landhelgisgæsla Íslands. Í nóvembermánuði fékk ég að taka til máls utan dagskrár hér í Sþ. með leyfi forseta. Ég vakti athygli á slysi sem varð norður í Íshafi þar sem loðnuflotinn var að veiðum. Þar fórst maður af slysförum. Skipið sem hann var á fékk nót í skrúfuna og gat ekki bjargað sér og þegar þeir voru að reyna að rífa nótina lausa slitnaði vír, sem slóst í höfuð mannsins, og hann lést. Nú tíðkaðist það á þeim tíma sem síldveiðar voru stundaðar norður í höfum yfir vetrartímann, og var það gert að ósk og kröfu sjómannasamtakanna, með stuðningi útgerðarmanna og þáv. ríkisstj., að landhelgisgæsluskipin voru látin fylgja flotanum. Þau voru búin þannig að læknar gátu verið um borð, og það sem meira var: Það voru kafarar um borð í þessum skipum sem voru sérhæfðir m. a. til þess að skera net úr skrúfu ef skip fengju nót í skrúfuna.

Mín fsp. átti m. a. að vera til hæstv. dómsmrh. sem æðsta manns Landhelgisgæslunnar, þótt enginn viti hver sá sé þegar semja þarf um launakjör þessara manna. Spurningin var: Hvernig stendur á að það eru engir samningar til við þessa menn lengur og þeir hafa lagt niður störf og ekki stundað þau misserum saman? Þetta kom kannske best í ljós þegar hræðilegt slys varð uppi í Hvalfirði, er fjórir menn af einum Fossanna létu lífið þar, að menn koma þar að sem sjálfboðaliðar úr þessari starfsgrein til að hjálpa til við hugsanlega björgun, en þeir eru ekki á launum og þeir eru ekki starfsmenn Landhelgisgæslunnar sem slíkir þegar þetta skeður. Hvað veldur því að varðskip ríkisins fara úr höfn með ballest af sjó eða vatni og leggjast á firði fyrir vestan eða austan og geta ekki hreyft sig, hvorki sjálfum sér til bjargar né öðrum, eiga aðeins olíu til að komast til Reykjavíkur aftur? Af hverju hafa ekki þeir ráðherrar sem ég hef snúið mér til beðið um að eitthvað af þeirri olíu sem á að vera til almannavarna væri geymt í tönkum varðskipanna og að þá mætti opna þegar neyðartilfelli koma upp eins og þegar slys verða á sjó?

Þessi undarlegi sofandaháttur þegar sjómannastéttin á í hlut er að verða þannig að ekki er líðandi. Og auðvitað mun koma að því að sjómenn munu sameinast, hvar sem þeir eru í pólitík, hvar sem þeir eru stöðulega staddir, í hvaða félagi sem þeir eru, og segja: Hingað og ekki lengra. Þeir hafa lagt fram óskir við þingflokkana og mótmæli við ákveðinni löggjöf sem hér er á ferðinni, einmitt löggjöf sem við getum notað til að hjálpa útgerðinni til að beita sér fyrir frekari öryggis- og tryggingamálum sjómanna, sem við þurfum að lagfæra, eigum að lagfæra og erum siðferðilega skyldugir til að lagfæra og betrumbæta.

Það eru auðvitað fleiri aðilar sem hafa haft þetta sama á orði og samtök sjómanna. Þau samtök sem hafa fyrr og síðar staðið að ekki aðeins björgunarmálum heldur einnig slysavarnamálum, Slysavarnafélag Íslands, hafa nýlega beitt sér fyrir fundi með fulltrúum þingflokkanna vegna þeirrar slysaöldu sem þegar er að baki þegar vetrarvertíð er rétt hálfnuð. Við skulum vona að guð gefi að þau verði ekki fleiri slysin en orðið er. Slysavarnafélagið hefur beitt sér fyrir því að átak verði nú gert til að koma í veg fyrir þessi tíðu sjóslys. Fyrsti fundur hjá þessum hópi manna með stjórnendum Slysavarnafélagsins var haldinn fyrir skömmu. Þar kom það m. a. fram sem ég gat hér um og einnig að þetta er hluti af ástandi sem ríkir í menntunarmálum sjómanna og því sem liðið er í menntunarmálum sjómanna.

Hér hafa ráðh. hæstv. ríkisstj. gengið fram í því að gera það að skyldu að bæði ljósmæður og hjúkrunarfræðingar verði að ganga háskólaleið til að geta hlotið réttindi. Gott og vel. Það er ekkert við því að segja. En verkmenntunin situr eftir, sem ekki hvað síst verður áberandi þegar farið er að mennta vel eða frekar fólk til stjórnunar úr þessum stéttum. Ég tek það fram og undirstrika að enginn er betur til þess fallinn en þeir aðilar sem hér er bent á. Ég fæ hins vegar ekki séð annað en að við getum búist við því einhvern tíma á næstunni að þeir sem eiga sinn þátt í því að skapa ljósmæðrum atvinnu verði líka skikkaðir til að hafa stúdentspróf áður en til þeirra kemur, en það er annað mál.

Ég hef bent á það áður og dregið það m. a. fram með fsp. til hæstv. samgrh. hvernig komið væri undanþágumálum meðal skipstjórnarmanna og vélstjórnarmanna. Þetta er á margan hátt skiljanlegt þegar haft er í huga að það sem ég ræði um nú þekki ég mætavel sem gamall nemandi úr sjómannaskólanum og það m. a. s. í tvígang. Ég flutti þáltill. á fyrstu þingárum mínum um endurskoðun laga Stýrimannaskólans. Í henni var lögð áhersla á nauðsyn þess að skipstjórnarmönnum yrði sköpuð aðstaða til að nýta menntun sína þegar í land kæmi. Allar aðrar fagstéttir skipa geta gert það nema þessi eini hópur, skipstjórnarmennirnir. Að vísu eru þeir taldir hinir ágætustu stjórnendur í vinnu þegar þeir koma í land, að ég tali nú ekki um að Alþingi þykir mætagott að hafa virðulega höfðingja úr skipstjórnarstétt hér á göngum þinghússins. En þetta er ekki nóg. Þetta eru mennirnir sem eiga að vera grundvöllur þess að öryggi skapist um borð í skipinu. T. d. á togurunum er auk skipstjóra og stýrimanns hópur manna viðloðandi um langan tíma. Á öðrum er meira los, eins og ég gat um áðan, vegna þess að þeir menn sækja í land. Þeir sækja í land í betur launaða vinnu, í meira öryggi, til að vera lausir úr vosbúðinni, til þess að tryggja sig fyrir framtíðina, svo að þeir komi ekki í land gamlir, slasaðir eða útslitnir fyrir tímann og þá utanveltu á vinnumarkaðinum.

Það er því afskaplega þýðingarmikið að þeirri verkkunnáttu sem einmitt þessir menn búa yfir verði við haldið því að það er hún sem dregur úr slysahættunni. Ef við getur ekki kennt þetta um borð í skipunum sjálfum þá eigum við auðvitað að gera það á annan hátt.

Þetta er gert í sjómannaskólunum en það er ekki nóg. Það sem Slysavarnafélag Íslands er að fara fram á er að fá eitt af gömlu varðskipunum, sem hafa verið á sölulista en ekki fengist viðunandi tilboð í, varðskipið Þór, til að staðsetja það í grennd við Reykjavík svo að kenna megi þar bæði brunavarnir og önnur öryggismál sem sjómenn varða. Og ég minni á í þessu sambandi að það varð á s. l. ári hræðilegt dauðaslys um borð í íslensku skipi einmitt vegna bruna.

Ég held og vona að hæstv. ríkisstj. taki þessum málum vel þegar til hennar verður leitað. Og það verður auðvitað líka gengið eftir því, bæði af sjómannasamtökum og þeim sem fást við slysavarnir, að keypt verði ný eða nýjar þyrlur handa Landhelgisgæslunni. Við megum ekki gefast upp þótt illa hafi farið í sambandi við þennan rekstur hjá okkur á undanförnum árum og slys orðið. Þyrlur eru þau verkfæri sem best reynast til björgunar á sjó og reyndar á landi líka, eins og við þekkjum svo vel.

Það er óhugnanlegt að vita til þess að þegar slíkt slys verður eins og varð í fyrrinótt við Vestmannaeyjar, fáum við að heyra um það hér frá hv. fyrirspyrjanda að enn skuli vera í Vestmannaeyjum 9 eða 10 skip sem ekki eru búin þessum sjálfsagða búnaði, Sigmundsgálganum. (Gripið fram í: Þrjú.) Þrjú. En af hverju er þetta? Af hverju voru skipin ekki búin að fá þetta tæki? Var það vegna fátæktar útgerðarinnar? Var það vegna þess að búnaðurinn var ekki til? Getum við hjálpað þessum útgerðarmönnum til að kaupa þennan búnað um borð í skipin? Getur Alþingi gert eitthvað til þess? Geta lífeyrissjóðir sjómanna lánað útgerðum til að kaupa búnaðinn, ef þær hafa ekki efni á því? Má ekki taka eitthvað af þeim milljónatugum og hundruðum milljóna sem við erum með lögum að flytja til útgerðarinnar á Íslandi, má ekki taka eitthvað af því og nota til að auka öryggi sjómanna? Er það ekki hluti af útgerð á Íslandi?

Einu sinni voru Íslendingar í fremstu röð meðal allra siglingaþjóða þegar þeir börðust fyrir því að koma gúmmíbátunum um borð í skipin. Við erum það ekki lengur, Íslendingar, því miður. Við erum langt, langt á eftir í allri björgunartækni um borð í skipunum, fyrst og fremst vegna þess að hún kostar peninga. Og ég spyr ykkur enn, hv. alþm.: Eigum við að láta það líðast lengur að við getum ekki búið skipin nútímalegum búnaði til björgunar manna vegna peningaskorts? Væri þá ekki betra að skera strax nokkrar útgerðir af og spara á því fyrir þjóðarbúið, en flytja féð til þessara sjálfsögðu mála?