13.03.1984
Sameinað þing: 65. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3719 í B-deild Alþingistíðinda. (3137)

203. mál, úttekt á rekstrar- og afurðalánakerfi atvinnuveganna

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Því miður heyrði ég ekki umr. sem fram fór sennilega s. l. fimmtudag um þessa till. þar sem hv. 1. flm. mun hafa talað fyrir till. og umr. fóru fram um hana að öðru leyti.

Þegar þáltill. er lesin yfir má svo sem segja að það sé mjög eðlilegt að svona till. komi hér fram og hún fái ekki mikla umfjöllin til að byrja með, ef málflutningurinn væri í samræmi við þá till. sem er hér til umr. Það er t. d. vitnað í skýrslu Þorvaldar Búasonar eðlisfræðings. Nú langar mig til að spyrja hv. 1. flm. Nú kom skýrsla frá Sláturfélagi Suðurlands þar sem svarað er þessari skýrslu. Það vita nú allir hverjir ráða ríkjum í Sláturfélagi Suðurlands. Þeir svara þessari skýrslu frá orði til orðs. Hefði ekki verið eðlilegt að birta þá skýrslu þar sem svarað er skýrslu Þorvaldar Búasonar? Ég vona að flm. þessarar till. taki fullt mark á því sem forustumenn Sláturfélags Suðurlands segja um þessi mál. Því miður hef ég ekki skýrslu þess undir höndum þó ég hafi lesið hana, en ég vil skora á n. sem fær þessa till. til meðferðar að fá skýrsluna og athuga efni hennar og svör við skýrslu Þorvaldar vegna þess að þar er svarað þeim efnisatriðum sem hér koma fram.

Ég vil líka biðja hv. flm. að hugleiða hvernig stendur á að bændur hafa ekki óskað eftir því að breyting yrði gerð á þessu kerfi. Eru það ekki þeir sem búa undir þessu kerfi? Hvers vegna skyldi það vera að þeir hafa ekki beðið um breytingar? Það eru allt aðrir menn sem eru að fjalla um þetta bæði í blöðum og hér og því miður helst menn sem hafa minnsta þekkingu á þessum málum. Það má segja að það sé alveg í réttu hlutfalli að eftir því sem mennirnir vita minna um þessi mál því meira tala þeir. (EgJ: Það er ekki nóg að menn hafi þekkingu ef menn beita henni alltaf bandvitlaust.) Já, það má segja það.

Það er ágætt að einmitt þetta hljóð kom því að síðasti hv. ræðumaður fór að tala hér um áburðarverð máli sínu til stuðnings. Það er eins og þessi hv. flm. geri sér ekki grein fyrir því hver rekur Áburðaverksmiðjuna og hver ber ábyrgð á verðinu og rekstrinum. Eru það samvinnufélögin? (EgJ: Sagði ég það?) Ja, sagðir. Hver ber ábyrgð á því? Það er ríkið sem rekur þetta og það er Alþingi sem kýs stjórnina. (Gripið fram í: Ég skal rekja þá sögu.) Já, já, þú mátt rekja allar þínar sögur eins og þú vilt, en málið er nú svona.

Menn tala um það hér að engar skýrslur liggi fyrir í sambandi við þetta t. d. frá bönkunum. Það hefur komið — ég held það — á undanförnum árum tvisvar sinnum svipuð till. hér eða a. m. k. var hugmyndin á bak við hana svipuð sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson flutti hér um árið. Þá komu umsagnir frá bönkunum, t. d. frá Magnúsi heitnum Jónssyni frá Mel. Ég vona að hv. flm. taki mark á því sem fyrrv. varaformaður Sjálfstfl. og fjmrh. sagði um þessi mál. (Gripið fram í.) Nei það virðist vera að menn vilji frekar kynna sér það neikvæða sem hefur komið fram í þessu máli í blöðum og annars staðar en að kynna sér málið til hlítar.

Auðvitað hef ég alls ekki á móti því að sú athugun sem felst í þessari till. fari fram, langt frá því, og ég veit að hv. 1. flm., Guðmundur H. Garðarsson, ég þekki hann það vel, vill vel í þessu máli. Hitt er annað mál, að það fer ekki fram hjá mér að hann skortir töluvert mikla þekkingu á þessu máli. Hann þekkir hvernig þetta er hjá sjávarútveginum, það veit ég vel, en hann þekkir ekki þessi mál í sambandi við landbúnaðinn.

Ég vil aðeins í þessu sambandi skýra frá því, þó ég ætli ekki að fara á þessum kvöldfundi að eyða of löngum tíma, að Kaupfélag Eyfirðinga mátti sæta því til fleiri ára að fá heildsala í Reykjavík til að selja t. d. smjör og osta og þess háttar áður en Osta- og smjörsalan tók til starfa. Hver haldið þið að sé nú reynslan á því hvað þessi kostnaður minnkaði við tilkomu Osta- og smjörsölunnar? Það eru ekki 25% sem þarf að borga nú miðað við það sem áður var og það er sölukostnaður. Það er eingöngu sölukostnaðurinn sem ég á við því að Osta- og smjörsalan er fyrst og fremst og raunar eingöngu pökkunar- og dreifingarmiðstöð. Þetta er hægt að sýna fram á. Það er til um þetta grg., sem hægt er að leggja á borð þm. ef menn óska þess.

Ég ætla ekki að fara að ræða till. í löngu máli. Ég vil undirstrika aftur og ég vil að menn hugleiði að það eru ekki bændur sem hafa óskað eftir því að breyta þessu kerfi. Þeir sem vilja breyta þessu vilja neyða það upp á bændur. Menn hafa ekki viljað till. Eyjólfs Konráðs í sambandi við beinar greiðslur til bænda. Það hefur verið rætt um það á fundum t. d. norður í landi, fundum samvinnufélaganna. Menn telja það neikvætt spor þar. Ég hygg að það sé svipað og kom fram í skýrslu Sláturfélags Suðurlands. (Gripið fram í: Hefur það verið rætt á fundum bændasamtaka?) Já, þetta hefur verið rætt á fundum bændasamtakanna, ekki einu sinni heldur miklu oftar og sérstaklega í sambandi við þá till. sem ég vitnaði í áðan frá hv. þm. Eyjólfi Konráð. (EgJ: Staðgreiðslan.) Það er alveg rétt. Það er baráttumál bændastéttarinnar til fleiri ára að fá staðgreiðslu. En þá er spurningin hvernig á að koma henni við. Á t. d. ríkið að kaupa þessa framleiðslu? Er það leiðin? Það er ekki nóg að segja: Það þarf að koma á staðgreiðslu. Það þarf að finna einhvern farveg til þess að hún sé möguleg. (Gripið fram í: Till. er spor í þá átt.) Þá þarf að athuga um vinnsluna og dreifinguna því það eru bændur sem eiga vinnslustöðvarnar. Ef vinnslu- og dreifingarkostnaðurinn er ekki reiknaður rétt út kemur það niður á því hvað bændur fá þegar endanlega er uppgert. Það var það sem skeði í sambandi við sauðfjárafurðirnar árið 1982. Fjármagnskostnaðurinn reyndist langtum meiri en sexmannanefndin taldi að mundi verða. Þar af leiðir að það vantar.

Það er dálítið villandi eins og hv. þm. Egill Jónsson komst að orði áðan þegar hann er að tala um heildsöluverð og hluta af því, vegna þess að það er viðmiðunin í gegnum árin, ekki heildsöluverðið, heldur er það grundvallarverð, sem kallað er, til bænda sem á að miða við prósenttöluna af vinnuliðnum. Ég hef ekki í kollinum hvernig það er, en það er allt önnur tala. En ef vinnslu- og dreifingarkostnaður er ekki í samræmi við það sem áætlað er kemur það niður á bændum vegna þess að þeir eiga og reka þessar vinnslustöðvar. Þetta verða menn að athuga.

Það er hægt að hugsa sér að einhverjir aðrir kaupi og taki yfir þessar vinnslustöðvar. Hver á að gera það? Hvernig á að reka þær? Það hefur komið í ljós við könnun að vinnslu- og dreifingarkostnaður á landbúnaðarvörum á Íslandi er lægri en nokkurs staðar annars staðar í nágrannalöndum. Það skulu menn athuga. Það kerfi hafa ýmsir áhuga á að rífa niður og breyta um væntanlega til að minnka kostnaðinn. Ef við finnum leið til að minnka kostnaðinn á auðvitað að fara þá leið, en það á ekki að gera það bara breytinganna vegna, ekki síst ef allt bendir til þess að við séum að taka upp kerfi sem eykur kostnaðinn.

Það verða sjálfsagt framhaldsumr. um þáltill. eftir að hún kemur úr n. og ég ætla að láta staðar numið út af þeim umr. sem ég hlustaði á í dag nema að einu leyti.

Menn eru að tala um félagssamtök fólksins. Ég vil nú spyrja vin minn, hv. þm. Guðmund H. Garðarsson: Eru ekki félagasamtök fólksins t. d. þjóðin í heild? (Gripið fram í.) Við sjáum hvaða áhrif þjóðin í heild hefur t. d. hér á Alþingi. Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson veit að ef félagarnir sýna tómlæti er hætt við því að það séu fáir menn sem stjórna hinum stóru félögum. Það þekkir hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson líka í þeim samtökum sem hann starfar í. (GHG: Kannske of vel.) Ef félagarnir í samvinnufélögunum hafa ekki áhrif þar er það vegna þess að þeir bera sig ekki til þess. Ég er orðinn gamall og grár eins og hv. þm. sjá en ég tel mig hafa reynslu af samvinnufélögunum. Ég hef oft gagnrýnt samvinnufélögin, því að jákvæð gagnrýni er öllum holl, og ég hef gert það með því hugarfari, og við höfum oft breytt ýmsu eftir að gagnrýni hefur komið frá hinum ýmsu félögum út um byggðina og frá ýmsum bæjarbúum líka því að Kaupfélag Eyfirðinga er sterkt félag og fjölmennt. — En ég segi það enn og aftur, að ef menn fá ekki lagfæringar á því sem þeim finnst vera gagnrýni vert er það vegna þess að félagarnir fylkja ekki liði, hafa ekki áhuga eða einurð til að laga það sem þeir telja að aflaga fari. Á sama hátt er í þeim félögum sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson þekkir best og starfar í.