13.03.1984
Sameinað þing: 65. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3724 í B-deild Alþingistíðinda. (3140)

203. mál, úttekt á rekstrar- og afurðalánakerfi atvinnuveganna

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Fyrr í þessum umr. var spurt: Hvernig stendur á því að flm., og þó einkum frsm. þessarar till. og aðrir þeir sem hafa gert hana að umræðuefni hafa áhuga á málefnum bænda? Bak við þessa spurningu bjó, fannst mér, svolítil tortryggni. Hvað eru þessir menn að vaða upp á dekk? Hvað eru þeir að skipta sér af því sem þeim kemur ekki við?

Hv. þm. Þórarinn Sigurjónsson tók það líka fram að það hefði svo sem enginn pantað þessa tillögu, bændur hefðu ekkert beðið um þetta. Og hvað eru menn að flytja mál á þingi sem enginn hefur pantað? Þetta lýsir nú hugarheimi um hlutverk þm. sem má kannske segja margt um, en ég ætla ekkert að fjölyrða um annað en það, að þá væri illa komið á löggjafarsamkomu þjóðarinnar ef hér væru ekki flutt önnur mál en þau sem hagsmunahópar, sem mikilla fjárhagslegra hagsmuna eiga að gæta í hinum og þessum bankastofnunum eða þjóðhagslegum kerfum, hefðu pantað fyrir fram.

En svarið við spurningunni — hvað eru þessir menn að skipta sér af þessum málum — það er mjög einfalt, ákaflega einfalt. Það er nefnilega það að ef ekki væru til aðrir en framleiðendur landbúnaðarafurða í þessu landi, þ. e. ef ekki væru til hér neinir neytendur, sem eru hin hliðin á stóru niðurgreiðslukrónunni, þá væru heldur engir bændur. Það eru tvær hliðar á þessu máli, annars vegar framleiðendurnir og hins vegar neytendurnir, og landbúnaðarmál á Íslandi eru fyrir löngu síðan orðin neytendamál og eru það auðvitað að sjálfsögðu öðrum þræði, neytendamál, og þau eru að verða það í sívaxandi mæli. Hvers vegna? Það er vegna þess að að tilhlutan löggjafarsamkundunnar eða meiri hluta hennar hefur hér verið útbúinn lagarammi og stofnanarammi utan um starfsemi landbúnaðarins sem, þegar hann er skoðaður í heild sinni, þýðir að forsendur landbúnaðarframleiðslu í landinu eru að verulegu leyti komnar undir millifærslugreiðslum frá neytendum. Það nægir að nefna bara nokkur dæmi.

Það er staðreynd að landbúnaðurinn sem slíkur nýtur í skjóli lagaverndar frelsis frá innflutningssamkeppni. Hann er verndaður fyrir samkeppni erlendis frá. (Gripið fram í: Það gera ekki allar landbúnaðarvörur.) Nei, en ég er að tala um hinar hefðbundnu greinar íslensks landbúnaðar, þær eru verndaðar gegn slíkri samkeppni. Þetta eru gífurleg hlunnindi í hvaða atvinnuvegi sem er og aðrir íslenskir atvinnuvegir geta ekki státað af því að njóta slíkrar verndar. Þetta eru forréttindi sem ríkið eða löggjafarvaldið skenkir íslenskum landbúnaði og skipta auðvitað gífurlega miklu máli. Má ég taka samanburð?

Hér hefur verið lögð fram á hv. Alþingi ítarleg fsp. um Íslenska aðalverktaka og starfsemi þeirra á Keflavíkurflugvelli. Hvers vegna er verið að spyrjast fyrir um það? Það er vegna þess að þetta fyrirtæki, sem er samsteypufyrirtæki nokkurra forréttindahagsmunahópa í þessu þjóðfélagi, starfar á einni forsendu. Það starfar í skjóli ríkisverndaðrar einokunar. Eðlilegasta hugsun væri sú ef svo væri ekki að þetta væri starfsemi sem væri boðin út á markaði. En gegn því snúast mjög áhrifamikil öfl vegna þess að þá er sagt: Ja, hinn erlendi aðili sem unnið er fyrir mundi hagnast á því. Þess vegna er eðlilegt að þarna sé einokunarstarfsemi. En um leið snúast þessi rök við vegna þess að þetta eru þá einföldustu og sígildustu rök um að þessa starfsemi á að þjóðnýta algjörlega.

Ef um er að ræða starfsemi sem haldið er uppi í skjóli einokunar eru það rök fyrir því að ef hún skilar einhverjum arði eða hagnaði þá beri að þjóðnýta hana.

Hvers vegna á ríkisvaldið sem slíkt eða löggjafarvaldið sem slíkt að afhenda einhverjum fáeinum einstaklingum slíka lögverndaða einokun, m. ö. o. nánast tiltekið einkaleyfi til að prenta peninga?

Strax þessi staðreynd um hina lögvernduðu verndun frá samkeppni skapar landbúnaðinum gífurlega mikla sérstöðu. En það er fleira. Á löngum tíma hefur því svo verið fyrir komið að ríkisvaldið eða meiri hluti af löggjafarsamkomu þjóðarinnar hefur tekið að sér að ábyrgjast að halda uppi verði íslenskra landbúnaðarafurða, hinna hefðbundnu landbúnaðarafurða, hvað svo sem líður öllum markaði. Niðurgreiðslurnar og útflutningsbæturnar eru ósköp einfaldlega trygging fyrir því að hvað svo sem gerist á þessum lögverndaða innanlandsmarkaði, ef eftirspurn minnkar þá er það engu að síður tryggt fyrirfram að þessum afurðum skal komið í lóg á einhverju lögvernduðu verði, alveg burtséð frá öllum öðrum forsendum.

Þetta eru líka gífurlega mikil forréttindi. Við erum ekki að tala um neinar smáupphæðir, við erum að tala um hvorki meira né minna en um hálfan annan milljarð á fjárlögum ríkisins á þessu ári, sem til þessa fer. Og þetta eru engan veginn sjálfsagðir hlutir. En þetta er hins vegar vissulega röksemd fyrir því að landbúnaðarmál á Íslandi eru ekki bara spurning um hagsmuni bænda. Landbúnaðarmál eru ekki hvað síst, ef við lítum á þau út frá þessum sjónarhól, einhver þýðingarmestu hagsmunamál neytenda líka.

Það er mesti misskilningur að sú togstreita sem orðið hefur um þessi mál sé tilbúin í fjölmiðlum, hún er það ekki. Þó að greinaskrif séu tíð um þessi mál eru þau fyrst og fremst af því taginu að lýst er óánægju neytenda með sitthvað í þessu kerfi. En hitt má hins vegar jafnharðan bóka að launaðir fulltrúar og hagsmunaverðir þessa kerfis eru óðar komnir fram á ritvöllinn til að svara. En umræðan sem slík er ekki búin til af fjölmiðlum.

Þeir sem verja þetta kerfi svara venjulega á þennan hátt: Ja, niðurgreiðslurnar, þær koma landbúnaðinum ekkert við. Þetta er bara hagstjórnartæki. — Síðan segja þeir: Niðurgreiðslur eru hagstjórnartæki og það er ríkisstj. eða þing sem tekur ákvarðanir um að beita niðurgreiðslum. Þetta er tengt gamla leiknum um vísitölufalsanir til að halda niðri verði — og kaupgjaldi — og sé þar af leiðandi í þágu neytenda.

Að vísu má halda því fram að niðurgreiðslur geti verið hagstjórnartæki. En þá verður um leið að segja: Af hverju er sú ákvörðun tekin að greiða niður bara vöruverð á hefðbundnum landbúnaðarafurðum? Af hverju ekki að greiða niður annað verð, verð á hlutum sem jafnvel eru snarari þáttur í neyslu eða framfærslu t. d. láglaunafólks í þéttbýli? — Nú vita allir miðað við það verðlag sem á þessum vörum er, að þetta eru í minnkandi mæli fyrst og fremst neysluvörur hinna fátæku.

Þetta er aðeins lítill hluti af röksemdafærslunni því að niðurgreiðslur í svona stórum stíl hafa margvíslegar afleiðingar — hliðarverkanir. Þær eru í fyrsta lagi til þess að halda niðri verðinu til neytenda og þar af leiðandi eru þær framleiðsluhvetjandi. Niðurgreiðslur í svona stórum stíl valda því að framleitt er meira af þessum vörum vegna þess að verðið er tilbúið með niðurgreiðslum. Ef íslenskir neytendur ættu að borga raunverulegt framleiðslukostnaðarverð mundi það óhjákvæmilega hafa í för með sér verulega minnkun framleiðslu.

Sama er að segja um útflutningsbæturnar, þær eru ekkert annað en hrikalegur skattur á íslenska neytendur og búið að vera við lýði lengi og er partur af þessu tryggingakerfi. Ég nefni þetta aðeins sem dæmi um að þetta eru alveg ótvírætt sannanir fyrir því að það er engin goðgá þótt þm., sem eru fulltrúar þéttbýlisbúa, ræði landbúnaðarmál. Við þurfum ekkert að vitna í neina bændarómantík til þess, við þurfum ekki að segja sögu af því að við erum flest hver á þeim aldri, sem hér erum inni, að við höfum einhverja reynslu af sveitardvöl og af störfum í landbúnaði, við eigum vini og frændur í bændastétt o. s. frv. Við þurfum yfirleitt ekki — eigum ekki að þurfa að svara ásökunum um árásir á bændastéttina, þetta er orðinn kækur hjá framsóknarmönnum. Það má ekki ræða um landbúnaðarmál nema með því að fá svona gusur framan í sig og er auðvitað ekki svaravert. Menn geta deilt um hvort þau dæmi, sem nefnd eru í þessari grg. Þorvaldar Búasonar um að bændur beri skarðan hlut frá borði sjálfir í þessu kerfi, eru rétt. Ófáir eru þeir bændur sem mundu taka undir þetta.

En að sjálfsögðu er tillagan á engan hátt árás á bændastéttina, hún er beiðni um úttekt á einum þætti, aðeins einum þætti af því kerfi sem komið hefur verið upp að frumkvæði löggjafans gegnum ríkisrekna banka, sem varðar afurðalánakerfið og er að vísu alls ekki eingöngu um landbúnaðinn. Um það má margt segja. En það er a. m. k. ástæða til að vísa frá röksemdum sem snúast um það að það séu aðeins fulltrúar þessa kerfis sjálfs eða menn sem hafa landbúnað að atvinnu sem hafi rétt til að fjalla um landbúnaðarmál. Ég er búinn að segja nóg um það að þessi mál eru með þýðingarmestu málum sem varða neytendur og þar með alla landsmenn.

Efnislega sagði ég mína skoðun á þessu máli fyrr við þessar umr. og þarf ekki að árétta það. Ég sé ekki ástæðu til að víkja frekar að einstökum efnisatriðum sem fram hafa komið í umr.