31.10.1983
Neðri deild: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (315)

Umræður utan dagskrár

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Vegna þeirrar umr. sem hér fer fram vildi ég að það sjónarmið mitt kæmi fram, að ég tel æskilegt að ekki sé verið að blanda saman málefnum framkvæmdavaldsins og löggjafarvaldsins, það beri að varast eins og kostur er, og það sé út af fyrir sig óæskilegt að vera að gefa í skyn hver verða muni afstaða Alþingis í sambandi við afgreiðslu frv. eða fyrirhugaða lagasetningu. En varðandi þá umr. sem fram hefur farið um þá aðstöðu sem hæstv. landbrh. var í á s.l. sumri sem einn að handhöfum forsetavalds, þá finnst mér að ekki sé saman að jafna þegar ráðh. á í hlut og þegar menn sem verið hafa þm. og eru endurkjörnir gegna þeim skyldum áfram. Á því finnst mér nokkur munur.

Almennt séð er æskilegt að ekki þurfi að framlengja störf alþm. að kosningum loknum, en auðvitað getur það verið álitamál hvað fært þykir í þeim efnum. Ég er þeirrar skoðunar og var það á liðnu sumri, að þær aðstæður sem sköpuðust m.a. með því að hæstv. núverandi landbrh. hafði tekið við störfum sem slíkur og hafði verið forseti sameinaðs þings, sú staðreynd ásamt mjög mörgu öðru, væri nægilegt til að kalla þing saman strax á s.l. vori, ekki seinna en eftir að ríkisstj. hafði verið mynduð, og hefði þingið þó gjarnan mátt koma saman áður en það gerðist. — Þetta sjónarmið vildi ég að kæmi fram.