14.03.1984
Neðri deild: 57. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3740 í B-deild Alþingistíðinda. (3161)

210. mál, vísitala framfærslukostnaðar

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Í hv. Ed. var flutt till. um að neyslukannanir skyldu fara fram hjá því fólki sem býr við lökust lífskjör, þ. e. þeim fjórðungi fjölskyldna sem hafa lægstar tekjur. Þeirri till. var hafnað þar. Hins vegar finnst mér nú að umr. hér bendi til þess að rétt sé að láta reyna á till. aftur og ég mun beita mér fyrir því að svo verði.

Enn fremur sýnist mér einsýnt að rétt sé að flytja till. hér um breytingu á þessu frv. þar sem skýrt komi fram að neyslukannanir þær, sem liggja til grundvallar lífskjaramælingum í landinu, nái til landsins alls. Ég kvaddi mér hljóðs til að koma þeirri athugasemd á framfæri að ég mun beita mér fyrir því fyrir mitt leyti — og ég veit að fleiri þm. eru tilbúnir að taka þátt í því — að slík till. verði flutt og að upphaf 3. gr. frv. orðist t. d. svona:

„Kauplagsnefnd skal eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti“ — ef miðað væri við brtt. sem var í Ed. — „láta fara fram athugun á því hvort ástæða sé til að endurskoða grundvöll vísitölu framfærslukostnaðar. Könnunin nái til allra landsfjórðunga.“— Síðan haldi till. áfram eins og frv. gerir ráð fyrir.

Þetta er einföld lausn á þessu máli sem hv. þm. Ólafur Þórðarson hefur stundum verið að halda ræður um á undanförnum þingum.