19.03.1984
Efri deild: 66. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3875 í B-deild Alþingistíðinda. (3295)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Við afgreiðslu þessa máls hér í Ed. á dögunum bentum við stjórnarandstæðingar á að ekki væru allar áformaðar erlendar lántökur fram taldar hér, þar vantaði stórar upphæðir, bæði vegna atvinnuveganna, einkum landbúnaðar og sjávarútvegs, og eins vegna húsnæðismála. Af þeirri ástæðu að frv. var bersýnilega mjög ófullkomið tókum við þá afstöðu að sitja hjá við afgreiðslu málsins. Síðan málið var afgreitt í Ed. hefur verið að koma æ betur í ljós að við höfðum á réttu að standa og það eru engin smágöt sem blasa nú við á þessari holóttu lánsfjáráætlun.

Hæstv. fjmrh. er sjálfur búinn að kynna fyrir þjóðinni að auk allra litlu gatanna sé eitt heljarstórt og mikið gat sem stafi af vöntun í fjárlögum upp á 1800 millj. króna. Það er svo sannarlega upphæð sem getur sett allt um koll í lántökuáformum ríkisstj. Ríkisstj. hefur talið það markmið sitt að erlend lántaka eða skuldastaða þjóðarinnar út á við færi ekki yfir 60% af þjóðarframleiðslu og vitað er að þjóðin hefur verið að nálgast það mark óðfluga. Ef nauðsynlegt verður að taka lán í ríkissjóð vegna stóra gatsins upp á nokkur hundruð milljónir til viðbótar við þær lántökur, sem vitað er að ríkisstj. stefnir að en eru ekki fram taldar í lánsfjáráætlun, þarf enginn að efast um að þetta áform ríkisstj. er heldur betur sprungið í loft upp með þeim afleiðingum fyrir hæstv. ríkisstj. og hæstv. fjmrh. sem hann hefur sjálfur gert grein fyrir hér á Alþingi.

Ég held ég þurfi ekki að orðtengja frekar um þessa hlið málsins. Vissulega er það eðlileg till., sem borin var upp af stjórnarandstöðunni í Nd., að málinu yrði vísað til ríkisstj. þar sem ekki er venja að gefa út formleg nál. þegar mál er tekið til umr. öðru sinni í deild og ekki er um sérstakar breytingar að ræða sem fyrirhugað er að gera heldur snýst málið eingöngu um hvernig frv. skuti afgreitt er þess ekki kostur að leggja til að málinu verði vísað til ríkisstj. En afstaða okkar mun birtast í því að við munum sitja hjá við atkvgr. um málið.

En það er einn angi þess sem mig langar að gera að umtalsefni sérstaklega. Það er 3. brtt. á þskj. 423 sem kom frá meiri hl. n. í Nd., Friðrik Sophussyni, Geir Hallgrímssyni og Þorsteini Pálssyni ásamt Sverri Sveinssyni. Þeir gerðu till. um að fjmrh. væri fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að endurgreiða Flugleiðum og Cargolux lendingargjöld á Keflavíkurflugvelli vegna Norður-Atlantshafsflugs.

Nú er vitað að hæstv. fjmrh. hefur ekki talið ríka þörf á því að styrkja þetta fyrirtæki með framlögum úr ríkissjóði og hefur borið fram ýmis rök því til stuðnings að ástæðulaust sé að greiða úr ríkissjóði til þessa fyrirtækis. Var þó fyrirtækið hér fyrr á árum í allverulega miklu verri stöðu en það er nú. Þá varð það ofan á að ríkissjóður tók veruleg lán sem síðan voru endurgreidd af ríkissjóði. Ríkissjóður tók þessar upphæðir á sig og því var um að ræða beinan fjárhagsstuðning við Flugleiðir á árunum 1981, 1982 og 1983. Þessi ár var sem sagt um að ræða stórfelldan fjárhagsstuðning ríkissjóðs við Flugleiðir vegna rekstrarerfiðleika. Talið var að fyrirtækið væri í verutegri hættu og því var hlaupið undir bagga.

Svo var því lýst yfir fyrir ári síðan að nú væri hættan liðin hjá, ekki væri þörf á því að ríkissjóður veitti þessa aðstoð lengur og því var ekki gerð nein till. af hálfu hæstv. fjmrh. í fjárlögum að stuðningur yrði áframhaldandi veittur. Ég var þessu innilega sammála og taldi þetta vera skynsamlega ákvörðun. En þá er eins og talsmenn Flugleiða hafi læðst bakdyramegin að fjmrh. með tillöguflutningi meiri hl. nm. í fjh.- og viðskn., Geirs Hallgrímssonar, Þorsteins pálssonar og Friðriks Sophussonar, sem leggja til að styrkir við Flugleiðir séu teknir upp á ný, það á að greiða fyrir fyrirtækið öll lendingargjöld vegna Norður-Atlantshafsflugsins.

Þarna er um mjög stórar fjárhæðir að ræða. Ég gæti trúað því að hæstv. ráðh. yrði að þola það ef þessi till. yrði samþykkt að álíka stór upphæð rynni út úr ríkissjóði eins og hann fær inn í ríkissjóð með því að hækka skattana eins og gert var í dag með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Því vissulega mun það ekki reynast vinsæl athöfn sem framkvæmd var hér í dag, að skattarnir voru hækkaðir og ekki að vita nema sú ákvörðun ríkisstj. hafi veruleg áhrif á þá allsherjar atkvgr. sem fer fram hjá BSRB þessa dagana.

Ég hygg að hæstv. fjmrh. hafi orðið var við að menn hafi áhyggjur af þessu. En hann taldi svo brýnt að ná inn í ríkissjóð þessum tekjum, sem nema þó ekki nema líklega um 70 millj. kr., að hann mátti ekki til þess hugsa að ekki væri framkvæmd þessi skattahækkun. En hann telur sig, að því er virðist, á sama tíma, ef hann styður þessa tillgr., hafa efni á því að greiða Flugleiðum áframhaldandi styrk. Ég vil ekki segja að þarna sé um samsvarandi fjárhæðir að ræða en þó er þarna um verulega fjárhæð að ræða. Ég vildi því leyfa mér að spyrja fjmrh. álits á þessari nýju styrkveitingu. Er það stefna hæstv. ráðh. að nú verði teknar upp í hans fjármálaráðherratíð, og það á tímum þegar hinir miklu rekstrarerfiðleikar fyrirtækisins eiga að heita að baki, styrkveitingar úr ríkissjóði að nýju? Mun hann nota þá heimild sem verið er að veita honum í þessari grein? Því vissulega er hann ekki skyldugur til þess, þetta er heimild til handa fjmrh. og hann getur ráðið því sjálfur hvort hann nýtir heimildina eða ekki. Ég vil spyrja hann hvort hann ætli sér að nota heimildina og ef svo er hvernig það samrýmist fyrri afstöðu hans til mála af þessu tagi.

Virðulegi forseti. Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál enda er orðið nokkuð áliðið dags, en ítreka að við Alþb.-menn munum sitja hjá við lokaafgreiðslu þessa máls.