20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3891 í B-deild Alþingistíðinda. (3312)

224. mál, ráðstöfun gegnismunar

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég vek athygli þingheims á því sem hv. 3. þm. Reykv. sagði áðan: Ég hirði ekki um að svara gagnrýni sem fram kemur á mig. — Þetta var megininntak hans orða. Þetta sýnir ekki djörfung eða dug eða kjark manns til að verja það sem hann hefur út úr sér látið í samningaviðræðum við hagsmunasamtök sjómanna. Þetta sýnir auðvitað og sannar að rétt er að þessu var lofað, en það var svikið. Og sá sem á því ber ábyrgð að þetta var svikið er fyrst og fremst hv. 3. þm. Reykv. ásamt öðrum þeim sem að því stóðu að gefa þetta vilyrði eða loforð á sínum tíma, en entist ekki aldur í ráðherrastól einhverra hluta vegna til að standa við það loforð. — Þetta er athyglisvert, jafngeyst og þessi hv. þm. hefur farið í ræðustól undangengna daga. Nú er hann slappur og niðurbrotinn og getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér til að verja það sem hann hefur áður út úr sér látið fara.