20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3906 í B-deild Alþingistíðinda. (3334)

426. mál, fjármögnun húsnæðismála

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég ætla að vekja athygli á einu atriði í sambandi við Byggingarsjóð ríkisins. Í ræðu á hv. Alþingi 14. mars s. l. komst hæstv. félmrh. svo að orði:

„Það er beðið eftir þessari afgreiðslu á lánsfjáráætlun sem hér liggur fyrir og reiknað er með 925 nýbyggingum á árinu 1984. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að við það verði staðið miðað við óbreyttar tölur sem hér eru til grundvallar.“

Ég tel að með þessari yfirlýsingu hafi hæstv. félmrh. sagt að þeir sem byggja og kaupa húsnæði á árinu 1984 búi ekki við lakari reglur en verið hafa. Þannig að þeir sem ættu að óbreyttum reglum rétt á F-láni árið 1984 í nóv. og des. fái þau lán og þeir verði ekki fluttir yfir á árið 1985. Ef hæstv. félmrh. mótmælir þessari túlkun minni ekki lít ég svo á að hún standi óbreytt. Mjög mikilvægt er að þetta liggi fyrir vegna þess að í Húsnæðisstofnuninni eru til áætlanir um að aðeins verði veitt 760 F-lán á þessu ári, eins og ég ræddi um í gær, í þeirri niðurskurðaráætlun sem hæstv. félmrh. hefur verið með í töskunni sinni í nokkra daga en neitaði að sýna okkur í umr. um lánsfjárlögin hér á hv. Alþingi þó að eftir því væri ítrekað gengið. Hæstv. ráðh. kaus að fela þá áætlun og er það nokkuð sérkennileg framkoma gagnvart Alþingi. En hún skýrist af því að hann vildi gjarnan láta afgreiða lánsfjárlögin áður en áætlunin yrði sýnd vegna þess að hún hefði gerbreytt ýmsum þeim hugmyndum sem uppi voru um húsnæðismál á hv. Alþingi meðan lánsfjárlögin voru á dagskrá.

Annað atriði, herra forseti, sem ég vil vekja athygli á, er þetta: Nú er verið að úthluta verkamannabústöðum í Reykjavík. Það eru 200 íbúðir sem verið er að úthluta, 100 íbúðir í endursöluíbúðum, þ. e. eldri verkamannabústöðum, og 100 íbúðir í nýjum verkamannabústöðum. Skv. ákvörðun ríkisstj. og hæstv. félmrh. er gert ráð fyrir því að skera niður framkvæmdir um 1/4 þannig að þessir nýju verkamannabústaðir, sem verið er að úthluta einmitt þessa dagana, komi ekki til úthlutunar endanlega þannig að fólk geti flutt inn í þá fyrr en á árinu 1986. Hér er um að ræða 200 umsækjendur úr hópi 900 umsækjenda um verkamannabústaði í Reykjavík. Ég skora á hæstv. félmrh. að gera grein fyrir því hér og nú hvort meiningin er að fara fram með þessu offorsi gegn verkamannabústöðunum í Reykjavík.

Staðan er þannig hjá verkamannabústöðunum í Reykjavík að það eru 150 millj. kr. sem þeir gerðu ráð fyrir að fá á þessu ári. Ætlun ríkisstj. er að skera þá tölu niður í 100 millj. kr. Af þeim 100 millj. er 50–60 millj. kr. þegar ráðstafað í verkamannabústaðina á Eiðsgranda. Það þýðir að framkvæmdir við verkamannabústaðina í Ártúnsholti og í Neðstaleiti fengju aðeins á þessu ári 40 millj. kr., en þyrftu miðað við fyrri áætlanir að fá 96 millj. kr. Ég skora á hæstv. félmrh. að endurskoða þessi niðurskurðaráform gagnvart verkamannabústöðunum. Og ég skora á þingflokka stjórnarliðsins og þm. Reykjavíkur í þeim þingflokkum, t. d. hv. 9. þm. Reykv. sem hér er inni og hv. þm. Guðmund H. Garðarsson, að taka þessi málefni verkamannabústaðanna í Reykjavík upp í sínum þingflokkum til umr. Ég nefni að sjálfsögðu einnig hv. 12. þm. Reykv., en þessir hv. þm. þekkja þessi mál mjög vei. Nauðsynlegt er að á þessu máli verði tekið og niðurskurðaraðgerð ríkisstj. gegn verkamannabústöðunum verði stöðvuð.