26.03.1984
Efri deild: 68. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4097 í B-deild Alþingistíðinda. (3497)

255. mál, almannatryggingar

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Hv. 6. landsk. þm. segist hafa skömm á málflutningi mínum og hv. 11. þm. Reykv. Ég hirði svo sem ekki mikið um það hvort hann hefur skömm eða velvild á okkar málflutningi. Ég verð þó að vísa þeirri fullyrðingu á bug að 6. herdeild atvinnurekenda sé hér fram komin í minni persónu og persónu hv. 11. þm. Reykv. Ég held miklu frekar að hún sé enn þá í forustu fyrir verkalýðsfélögum flestöllum hér á landi. Og það að hv. 6. landsk. þm. skyldi verða sá fótaskortur á tungunni að fara að draga Norðurlönd hér inn í til samlíkingar sannar manni það einungis enn frekar. Þá er hann hreint og beint að horfa til þess gullna ástands sem þar ríkir, með hátt í 10% atvinnuleysi, sem einhverrar framtíðarhugsjónar fyrir verkafólk hér á landi. Ég er ekki viss um að verkafólk almennt geri sér grein fyrir því að hann er þar að taka undir þann málflutning og þá stefnumörkun sem hæstv. ríkisstj. hefur þegar aðhyllst, að ná hér efnahagslegu jafnvægi með því að koma á ákveðnu atvinnuleysisstigi sem leið að þeim efnahagslegu markmiðum sem hún setur sér.