26.03.1984
Neðri deild: 65. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4147 í B-deild Alþingistíðinda. (3535)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Það er býsna fjölskrúðug flóran sem sprottið hefur upp af málflutningi talsmanna stjórnarandstöðunnar í þessum umr. Hv. 3. þm. Reykn., formaður Alþfl., lýsti afstöðu sinni til þessara mála sem hér liggja fyrir, bæði frv. til l. um breytingu á tekju- og eignarskatti og frv. til l. um frádrátt frá skattskyldum tekjum manna vegna fjárfestingar í atvinnurekstri, sem góðum hugmyndum um margt en það væru ágallar á því að samþykkja þessar góðu hugmyndir við núverandi aðstæður, sérstaklega með skírskotun til efnahagsástands, kjaraskerðingar, eins og hann orðaði það, og hins vegar með tilliti til þess að það þyrfti að huga betur að því hvernig ætti að framkvæma þessar góðu hugmyndir.

Hv. 5. þm. Reykv., Jón Baldvin Hannibalsson, lýsti þessu frv. einnig sem góðri hugmynd, markverðri tilraun sem yrði að framkvæma. Þannig hafa talsmenn Alþfl. skipst í tvo hópa um mál sem þeir telja efnislega gott og virðingarverða tilraun. Annar vill framkvæma hana, hinn vill fresta henni.

Hv. 3. þm. Reykv. hefur lýst andstöðu Alþb. við frumvörpin með skírskotun til marxískra hugmynda sem flokkur hans byggir á og vill nú skerpa og draga með skarpari og gleggri hætti fram í dagsljósið hvað ræður viðhorfum flokks hans til þjóðfélagsmálefna.

Þau einstöku atriði sem vikið hefur verið að lúta fyrst og fremst að því að óeðlilegt sé að koma fram með réttarbætur sem þessar í skattamálum þegar lífskjör almennings hafa skerst. Í öðru lagi að það kerfi sem hér er lagt til sé tæknilega galláð og verði erfitt í framkvæmd. Og í þriðja lagi að ekki sé vitað um tekjutap ríkissjóðs sem af samþykkt þessara frv. mundi hljótast. Þetta eru í meginatriðum þau viðhorf sem fram hafa komið gegn samþykkt frumvarpanna.

Ef við lítum fyrst á þá fullyrðingu að óeðlilegt sé að samþykkja frv. sem þessi við núverandi aðstæður í efnahagsmálum fyrir þá sök að lífskjör alþýðu manna hafi skerst á undanförnum mánuðum, þá er rétt að velta því fyrir sér hvers vegna lífskjörin hafa skerst. Hvers vegna eru lífskjörin núna minni en þau voru áður? Það er vegna þess að framleiðsla þjóðarinnar hefur farið minnkandi. Við sköpum ekki sömu verðmæti og áður. Það er ástæðan fyrir lífskjaraskerðingunni. Eitt af því sem okkur ber að gera við aðstæður sem þessar þegar lífskjör hafa dregist saman er að gera þær ráðstafanir sem geta leitt til þess að við sköpum meiri verðmæti í þjóðfélaginu. Við þurfum að ýta undir framleiðslustarfsemina í landinu, auðvelda atvinnufyrirtækjunum að takast á við ný verkefni, stofna til nýrrar framleiðslu og aukinnar verðmætasköpunar.

Ég er ekki að halda því fram að þessi frv. leysi allan vanda í þeim efnum. En þau eru snar þáttur í viðleitni stjórnvalda til þess að styrkja stöðu atvinnulífsins til þess að takast á við ný verkefni og þau eru þáttur í því að skapa almenningi tækifæri til þess að leggja fjármuni beint inn í atvinnustarfsemina og styrkja þar með stöðu afvinnulífsins, atvinnufyrirtækjanna, í samkeppni við fjármagnið. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt við þessar aðstæður að samþykkja frumvörp af þessu tagi. Einmitt við aðstæður sem þessar er mjög mikilvægt og brýnt að menn geri ráðstafanir í skattamálum sem örvi fjárfestingu og nýjar framkvæmdir í atvinnulífinu.

Í annan stað er á það bent að frv. séu tæknilega erfið í framkvæmd. Auðvitað er það svo þegar nýmæli eru sett fram í lögum að menn vita ekki nákvæmlega fyrirfram hvernig framkvæmd þeirra verður. Ég sé þó ekki að í þessu tilviki hafi neitt það komið fram varðandi erfiða framkvæmd þessara laga sem eigi að koma í veg fyrir þessa réttarbót eða mæli gegn samþykkt frv.

Ég held að það hljóti ávallt að vera þannig þegar nýmæli eru sett fram í lögum að þau kunna að kosta það að embættiskerfið, sem á að framfylgja lögunum og fylgjast með þeim, þurfi að taka upp ný vinnubrögð. Hér hafa verið settar takmarkanir varðandi þessi efni. Það eru sett ströng skilyrði fyrir frádrætti skv. þessum lögum vegna þess að menn eru fyrst og fremst að stuðla að því að fá nýtt fjármagn inn í atvinnulífið, en vilja ekki opna upp á gátt allar smugur til skattundanskota. Eðlilega leggjast á skattkerfið nýjar skyldur við að fylgja þessu eftir. Hægt væri að draga úr verkefnum skattstofanna með því að slaka á þessum skilyrðum en það er ekki lagt til hér. Ég hygg að þegar menn stíga fyrstu skref í tilraun sem þessari geti menn verið sammála um að eðlilegt er að setja framkvæmd þessara laga ákveðin takmörk.

Hv. 3. þm. Reykn. ræddi um að óeðlileg mismunun væri gerð milli fyrirtækja eftir stærð þeirra. Talsvert hefur verið rætt í umr. um þetta mál um þær kröfur sem gerðar eru varðandi frádrátt við aukningu fjárfestingar í hlutabréfum. Þá hefur það skilyrði verið sett að um sé að ræða fyrirtæki sem eru í eigu a: m. k. 100 hluthafa og hlutafé sé 10 millj. kr. Flutt hefur verið brtt. við þetta ákvæði sem lækkar hlutafjármarkið niður í 5 millj. kr. og fjölda hluthafa niður í 50. Þau sjónarmið sem liggja þarna að baki byggjast fyrst og fremst á því að talið er eðlilegt að setja skilyrði sem þessi til að hindra að verið sé að opna leið fyrir smáfyrirtæki í einstaklingseigu til þess að draga fjármagn út úr fyrirtækjum og nota sama fjármagn til þess að kaupa ný hlutabréf og mynda þannig stofn til frádráttar. Með þessari reglu á það að vera tryggt.

En það eru miklu fleiri leiðir en þessi ein sem opin er einstaklingum til þess að njóta fríðinda skv. frv. Þar er í fyrsta lagi um að ræða myndun stofnfjárreikninga, tillög í stofnfjársjóði og fjárfesting í hlutabréfum í sérstökum fjárfestingarfélögum. Þannig fer því víðs fjarri að um eina leið sé að ræða.

Þegar sú breyting hefur verið gerð sem lögð hefur verið til hygg ég að um eðlilega takmörkun sé að ræða. Það er líka vert að hafa í huga varðandi frádrátt af þessu tagi að hann gildir því aðeins að um sé að ræða fyrirtæki þar sem viðskipti eru frjáls með hlutabréf. Þetta gildir ekki varðandi lokuð hlutafélög. Það takmarkar auðvitað þessa heimild. Ekki hefur verið talið rétt að opna frádráttarheimildir skv. þessu frv. fyrir litlum, lokuðum hlutafélögum. Eðlilegt er að gera þá kröfu að hér sé um að ræða opin félög sem birta reikninga sína og leggja engar kvaðir á sölu hlutabréfa. Þannig liggur það í eðli máls að alltaf verður um ákveðna mismunun að ræða milli hlutafélaga innbyrðis. Ef þau kjósa að starfa með lokuðum hætti og birta ekki reikninga sína og leggja kvaðir á sölu hlutabréfa þá njóta þau ekki fríðinda af þessu tagi. Frá mínum bæjardyrum séð er eðlilegt að gera skilsmun þarna á milli.

Hv. 3. þm. Reykv. talaði einnig um að varðandi stofnfjárreikninga væru heimildir of víða og hætta væri á stofnun gervifyrirtækja. Hér stangast rökin á. Í öðru tilvikinu er mælt gegn frv. vegna þess að heimildir í því séu of þröngar en gagnvart næsta lið er mælt gegn því vegna þess að heimildir séu of víðar. Þegar á heildina er lítið er varla hægt að taka mikið mark á gagnrýni af þessu tagi.

Inn í þetta hafa eðlilega einnig blandast umræður manna um almenn skattsvik í þjóðfélaginu. Þó að sú umr. heyri ekki beint undir þetta umræðuefni er kannske ekki óeðlilegt að menn dragi þau sjónarmið inn í þessa umr. Ég hygg að skattsvik verði ekki upprætt með sífellt auknu eftirliti. Þvert á móti held ég að háir skattar muni alltaf leiða til aukinna skattsvika, hversu mikið skattaeftirlit er menn byggja upp. Tilslökun í sköttum mun stuðla að betri skilum skatta sem ríkið ákveður að leggja á borgara landsins. Því held ég að í þessu tilviki séum við að stuðla að því að menn skili skilvíslega þeim sköttum sem menn eiga að greiða fremur en hitt.

Hv. 5. þm. Vestf., Ólafur Þ. Þórðarson, taldi að núverandi tekjuskattsfyrirkomulag væri óheppilegt vegna þess að stórir hópar manna slyppu undan skattgreiðslu og taldi að því mætti breyta með því að leggja tekjuskatt hlutfallslega eins á alla hópa með svipuðum hætti og útsvar. Ég sé ekki hvernig draga má úr skattsvikum með þessari kerfisbreytingu einni því að mér sýnist að menn dragi jafnt undan útsvarsgreiðslum í dag eins og almennum skattgreiðslum, þannig að fyrirkomulag af þessu tagi breytti ákaflega litlu varðandi skattsvik.

Í þriðja lagi hefur verið á það bent að ekki sé vitað um tekjutap ríkissjóðs á þessu ári ef þessi frv. verða samþykkt. Ég hygg að öllum sé ljóst að mjög erfitt er að gera sér í hugarlund hversu almenn þátttaka verður í þm að hagnýta sér þessi nýju ákvæði fyrst í stað. Við rennum algjörlega blint í sjóinn í því efni og því er ógerningur að segja til um það með nokkur:i vissu hvert tekjutapið verður á þessu ári. Það er þó rétt að vekja athygli á því að þeim ákvæðum, sem lúfa að frádrætti vegna fjárfestingaraukningar í atvinnurekstri, er ekki ætlað að koma til framkvæmda á þessu ári heldur fyrst á því næsta. Þannig er það ekki nema takmarkaður hluti frv. sem kemur til framkvæmda nú. Óhætt er að fullyrða að tekjutap ríkissjóðs á þessu ári verður mjög óverulegt. Miklu meira máti skiptir að ná þessum réttarbótum fram og stuðla þegar í stað að þeirri örvun atvinnulífs sem þessi frv. stefna að heldur en að velta um of vöngum yfir því mjög svo óverulega tekjutapi sem fyrirsjáanlegt er af þessum frv. á þessu ári.

En það er rétt sem fram kom í ræðu hv. 3. þm. Reykv. að þetta frv. snertir á margan hátt grundvallaratriði í hugmyndabaráttu stjórnmálaflokkanna. Hann benti á að skv. marxískum hugmyndum Alþb. ætti að leggja alla áherslu á rétt vinnunnar en með þessum frv. væri verið að draga um of taum fjármagnsins. Þessi gamaldags umræða hefur ekki heyrst lengi og sennilega hefur þessi útlegging á stefnu Alþb. ekki verið í hávegum höfð síðan Einar Olgeirsson stóð hér í þingsölum og flutti langar ræður um baráttu vinnu og fjármagns.

Ég held í þessu sambandi að rétt sé að minna á viðtal sem birtist eða flutt var fyrir skömmu í Ríkisútvarpinu við einn af þeim mönnum sem unnið hefur að undanförnu að gerð kvikmyndar um Atómstöðina. En kvikmyndaiðnaður á Íslandi hefur sprottið mjög skyndilega upp og er dæmigerður fyrir það hvað einkaframtak getur komið miklu til leiðar. Þessi talsmaður þeirra sem unnið hafa mikið verk við að kvikmynda Atómstöðina benti sérstaklega á það í þessu útvarpsviðtali að íslensk skattalög vantaði heimildir til þess að þeir sem vildu leggja fram áhættufjármagn í starfsemi af þessu tagi gætu fengið slík framlög frádráttarbær gagnvart skatti.

Ég held að þarna hafi einmitt verið bent á mjög mikilvægan þátt. Þetta er gert víða erlendis og er nákvæmlega það sama og þessi frv. eiga að leiða til. Ég held að það væri ákaflega mikil lyftistöng fyrir þennan iðnað, menningariðnað, í okkar þjóðlífi sem er að spretta upp að fá heimildir af þessu tagi. Frá talsmanni þessa fyrirtækis kom fram mikill áhugi á því að heimildir af þessu tagi yrðu opnaðar í íslenskum skattalögum og hér er einmitt verið að fara inn á þá braut.

Það sem máli skiptir varðandi atvinnurekstur á Íslandi, ef við ætlum að styrkja hann og gera það mögulegt að auka hér framleiðslu og verðmætasköpun, er að auka eigið fé í atvinnulífinu. Það gerum við m. a. með þessu móti. Það sem líka er afar þýðingarmikið varðandi þróun atvinnulífsins er að stuðla að aukinni dreifingu eignarhalds á atvinnufyrirtækjunum, að fá fleiri eigendur að atvinnufyrirtækjunum, gefa fleiri mönnum kost á því að vera eigendur atvinnufyrirtækja. Það er einmitt verið að stuðla að því með þessu frv.

En gegn þessu berst auðvitað Alþb. Það vill ekki fjöldaþátttöku í atvinnufyrirtæki. Það vill ekki að allur almenningur eigi atvinnufyrirtæki. Það vill heildstæða stjórn. Það kom mjög vel fram í ræðu hv. 3. þm. Reykv. sem dró fram sem valkosti við þessar hugmyndir tillögur sósíaldemókrata í Svíþjóð um launamannasjóði. Þar er verið að byggja upp fjárfestingarsjóði þar sem almenningur, hinn almenni launþegi, fær hvergi nærri að koma. Byggðir eru upp sjóðir sem lúta heildarstjórn verkalýðsfélaganna. M. ö. o. er verið að vinna að því að sósíalísera atvinnulífið í gegnum verkalýðsfélögin í staðinn fyrir að gera það í gegnum ríkisvaldið. Hinn almenni launamaður og almenni verkamaður stendur jafnlangt frá því að vera þátttakandi í atvinnurekstrinum í hinum sænsku launamannasjóðum og verkamaðurinn í Rússlandi, Sósíalíseringin er nákvæmlega hin sama, einungis eftir mismunandi aðferðum. Það sem hér er verið að leggja til er að gefa einstaklingum í atvinnulífinu aukin tækifæri til þess að kaupa hlutabréf og gerast eignaraðilar að atvinnulífinu. Um þetta er grundvallarágreiningur á milli stjórnmálaflokkanna. Ég skil ósköp vel andstöðu Alþb. við frv. vegna þess að þau ganga gegn þeirra grundvallarviðhorfum. Þau lúta ekki að aukinni valddreifingu, þau lúta ekki að því að gera það mögulegt fyrir allan almenning að eignast atvinnufyrirtækin og kaupa hlutabréf í þeim.

Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum að þeim umr. sem hér hafa farið fram um skipulag kjarasamninga. Hv. 3. þm. Reykv. varði nokkrum tíma af ræðu sinni til þess að verja það miðstýrða fyrirkomulag sem ríkir við gerð kjarasamninga en kom þó að því í lokin að vel gæti verið nauðsynlegt að víkja frá því og fór í stóran hring umhverfis það umræðuefni. Ég er mjög sammála þeim viðhorfum sem komið hafa fram á undanförnum árum um nauðsyn þess að draga úr þessari miðstýringu. Ég held að hún sé óheppileg og æskilegt sé að stefna að því að launafólk geti gert kjarasamninga með öðrum hætti. En til þess þarf miklar breytingar á vinnulöggjöf og skipulagi kjarasamninga.

Ég undrast þá löngu tölu sem hv. 3. þm. Reykv. setti hér á til þess að mæla gegn því að hlutafélög hefðu sömu skattalegu aðstöðu og samvinnufyrirtæki. Ég skil ekki hvers vegna hann berst svo hatrammlega gegn því að hlutafélög njóti svipaðrar aðstöðu og samvinnufyrirtækin í landinu. Ég hygg, hvað sem líður mati forstjóra SÍS, að þrátt fyrir að þessi frv. yrðu að lögum væri ekki búið að jafna aðstöðumun milli hlutafélaga og samvinnufélaga. En það er vafalaust stigið skref í þá átt og ég get ekki skilið hvers vegna menn eru á móti því. Ég tel eðlilegt að skattaleg meðferð atvinnufyrirtækja eigi að vera sem jöfnust burtséð frá því hvert rekstrarformið er.