03.04.1984
Sameinað þing: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4351 í B-deild Alþingistíðinda. (3723)

438. mál, Lánasjóður íslenskra námsmanna

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Áður en ég svara fsp. langar mig til að taka undir þau orð hv. fyrirspyrjanda er hún tók það fram að megintilgangur laganna væri sá að veita námsmönnum jafnrétti til náms óháð efnahag. Um þetta er ekki deilt. Vandinn felst í hinu að finna leiðir til þess að láta nýtast sem best það fé sem til ráðstöfunar er fyrir Lánasjóð ísl. námsmanna.

Fyrsta fsp. var þessi: „Hvernig hyggst ríkisstj. mæta þeim halla sem fyrirsjáanlegur er á Lánasjóði ísl. námsmanna á þessu ári?“

Þá er þess fyrst að geta að ekki er fyllilega ljóst hver fjárþörfin verður. Það eru margir þættir í áætlaðri fjárþörf sem jafnan eru byggðir á líkum, á áætlun sem ekki byggir á algerlega föstum staðreyndum, og það kemur fyrst í ljós þegar nokkuð líður á árið hver hin raunverulega fjárþörf verður. Ætlunin er að reyna, svo sem verða má, að láta með úthlutunarreglum sjóðsins það fé duga sem á fjárlögum er í þessu skyni. Það var í því skyni sem lögunum var breytt um leið og lánsfjárlagafrv. sem nú nýlega hefur verið samþykkt hér og var það í samræmi við það sem lýst hafði verið yfir á Alþingi og utan þess fyrr í vetur, að ætlunin væri að halda sama lánsfjárhlutfalli á þessu ári og var á s. l. ári í stað þess að hækka það upp í 100%.

Önnur spurningin var: „Hefur menntmrh. í hyggju að breyta lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna?“ Það getur ekki orðið á þessu þingi að öðru leyti en því sem þegar er orðið með ákvörðuninni og samþykkt Alþingis um að láta 95% lánsfjárhlutfallið halda sér.

Í þriðja lagi: „Hafa verið mótaðar einhverjar tillögur til breytinga á úthlutunarreglum Lánasjóðsins?“ Já, það hefur verið gert. Skv. lögum á stjórn Lánasjóðsins að semja úthlutunarreglur sem ráðh. síðan staðfestir. Nú er það svo að þegar núgildandi lög voru sett um námslán og námsstyrki, nr. 72/1982, var gert ráð fyrir úthlutunarreglum skv. þeim, en nýjar úthlutunarreglur skv. hinum nýju lögum voru aldrei samþykktar fyrir árið 1982–83. Þær voru lagðar fyrir rn. frá stjórn Lánasjóðsins í ágúst í haust, en þá lá það fyrir að nokkrum atriðum þurfti augljóslega að breyta ef ætlunin væri að láta það fé, sem til ráðstöfunar var, endast.

Það segir sig sjálft að ástæðan til þess að úthlutunarreglur eru samþykktar frá ári til árs er ekki síst sú að lögin veita visst svigrúm. Mörg heimildarákvæði eru í lögum sem eðlilegt er að beita þegar rúmt er um fé, en aftur á móti að draga úr beitingu þeirra þegar þrengra er um fjárhaginn.

Þess vegna var það að í sept. í haust var stjórn Lánasjóðsins skrifað og þess óskað að athugaðar yrðu að nýju úthlutunarreglur sem sérstaklega ættu við um veitingu haustlána 1983 og eftirtalin atriði yrðu einkum athuguð í því sambandi. Var það í fyrsta lagi hin reiknaða fjárhæð framfærslueyris eða hlutfallstala lána.

Í öðru lagi hækkun á marki þeirra tekna er lántaki getur aflað án þess að lánsréttur skerðist, en það atriði hafði ég lagt mikla áherslu á við stjórn Lánasjóðsins nú í sumar til þess að Lánasjóðsreglurnar verkuðu ekki letjandi þess að afla sér tekna með einhverri vinnu ásamt náminu ef hún byðist.

Í þriðja lagi var stjórn Lánasjóðsins beðin að miða hinar nýju úthlutunarreglur við það að ferðastyrkir yrðu ekki greiddir nema gegn framvísun farseðla. Þetta á sér þá skýringu að núna er heimilt og svo hefur það verið framkvæmt að ferðastyrkir eru greiddir hvort sem ferðir eru farnar fyrir þessa styrki eða ekki. Hygg ég að þetta sé eina stofnunin í þjóðfélaginu sem svo hagar til um.

Loks í fjórða lagi var þess óskað að endurskoðaðar yrðu úthlutunarreglurnar um veitingu bráðabirgðavíxillána skv. heimild í síðustu mgr. 7. gr. laga um námslán og námsstyrki, en hún hafði einnig verið framkvæmd eins og þar væri um skyldu að ræða, en berum orðum segir í lögunum að það sé heimild. Um það atriði vil ég þess vegna segja að þegar þröngur er fjárhagur sjóðsins, eins og var á síðasta ári vegna algerlega óraunhæfra fjárlaga fyrir árið 1983, var ljóst að mjög mikið munaði um þá fjárhæð sem notuð var til bráðabirgðavíxillána sem ekki var skylt að veita skv. lögunum. Þess vegna var miklu eðlilegra og heppilegra fyrir sjóðinn og mikill sparnaður í því fólginn fyrir hann á þessum mánuðum að reynt væri að ná samkomutagi við viðskiptabankana um að þeir tækju að sér þessi víxillán og það tókst. Þess vegna kom aldrei til þess að það reyndi á þá fjárvöntun sem búið var að segja að yrði vandamálið nú seinast á haustmisseri. Í fjölmiðlum og víðar komu yfirlýsingar um að 40 millj. kr. mundi skorta, a. m. k. til þess að hægt væri að úthluta lánum í desembermánuði. Til þess að þessi vandi yrði ekki afleiðing af þeirri fjárvöntun, sem sagt var að væri fyrir hendi, var, eins og ég sagði, samið við viðskiptabankana um að þeir tækju að sér víxillánin. En svo, þegar til átti að taka, þurfti ekki einu sinni á því fé að halda. Þetta sýnir að stjórn Lánasjóðsins tókst, með vissu aðhaldi í starfsemi sinni og í beitingu úthlutunarreglnanna innan ramma laganna, að hagræða þarna og spara svo milljónatugum kr. skipti á þessum tíma. Þetta er mjög mikilsverð niðurstaða. Þetta sýnir líka óvissuna í áætlununum.

Nú lá það fyrir að fjárlög voru ekki afgreidd fremur en endranær fyrr en í des. á Alþingi. Þess vegna var ekki endanlega ljóst fyrr en eftir afgreiðslu þeirra hve fjárveitingavaldið mundi láta mikið fé í þessu skyni. Meðan það var ekki alveg ljóst taldi ég rétt að staðfesta ekki úthlutunarreglurnar heldur hafa opna þá leið að beita aðhaldi innan þeirra þegar séð væri hvaða fjárhæð fengist.

Nú hefur stjórn Lánasjóðsins verið sent bréf með ábendingum um nokkrar breytingar sem gera þyrfti á úthlutunarreglnauppkastinu til þess að það geti hlotið staðfestingu. Það eru allt breytingar sem horfa til þess að hafa betra samræmi á milli laganna og reglnanna um framkvæmdina, auk þess sem þar er um að ræða tvær reglur sem ég tel að hafi mjög mikið hagræði í för með sér fyrir námsmenn, önnur þeirra þó einkanlega fyrir þá sem stunda nám erlendis og þeirra umboðsmenn og aðstandendur.

Þessar reglur eru annars vegar um rýmri rétt til að hafa einhverjar tekjur ásamt námi sínu án þess að það skerði lánið. Menn vita að það stendur svo á í mörgu námi að því fylgir viss vinnuskylda. Fyrir það eru oft greidd lítils háttar laun en það er ósanngjarnt að þau skerði lánsréttinn.

Í öðru lagi var um að ræða reglu um það að lán til námsmanna erlendis yrðu greidd mánaðarlega og í gjaldeyri þess lands, sem námið er stundað í, inn á reikning viðkomandi námsmanns erlendis. Hingað til hefur þessu fylgt geysimikil skriffinnska. Lánin hafa verið greidd í einu lagi þrem mánuðum eftir á og þá hefur tapast fé oft og tíðum, bæði vegna þeirrar öru verðbólgu sem varð hér á umliðnum síðustu árum og svo hins vegar að ef gengisbreyting varð í dvalarlandinu varð hún líka oft til þess að námsmaðurinn tapaði þarna fé án þess að nokkur heimild væri fyrir hendi til að skerða þennan rétt hans. Þessu var ætlunin að breyta.

Ég vissi sannast sagna ekki annað en að þetta atriði væri þegar komið til framkvæmda. Það átti að vera það, en mér tjáði forsvarsmaður Lánasjóðsins nú alveg nýlega að þetta hefði ekki enn þá komið til framkvæmda alls staðar. Ég vonast til að þessu verði framfylgt hið fyrsta svo að linni kvörtunum námsmanna erlendis um þjónustu Lánasjóðsins. Einkum er yfir því kvartað að hún sé ekki nægilega góð að því er fyrirgreiðslu og upplýsingar varðar fyrir þá námsmenn sem stunda nám erlendis. Þess vegna er það að menn hafa stundum spurt: Væri ekki eðlilegt að þessi lánaflokkur, eins og svo margir aðrir, væri í einu horninu á einhverju af því glæsilega bankahúsnæði sem til er í landinu? sannleikurinn er sá, að eins og lögin eru er hér um svo flókið kerfi að ræða að að óbreyttum lögum tel ég að slík breyting komi tæpast til greina. Til þess þyrfti mikla einföldun á lögunum. En ég hygg að mjög margir í námsmannahópi væru þess fýsandi að að því yrði horfið.

Herra forseti. Ég gleymdi að svara öðru atriðinu í 4. lið fsp. Spurt var hverjar úthlutunarreglurnar væru — ég hef lauslega gert grein fyrir því — og hverjir unnu þær till. Þessar breytingar hafa verið unnar af lögfræðingum sem starfað hafa innan rn. nú í vetur.