03.04.1984
Sameinað þing: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4355 í B-deild Alþingistíðinda. (3726)

438. mál, Lánasjóður íslenskra námsmanna

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Hér hefur nokkuð verið gerð að umtalsefni skýrsla sú sem er árangur faglegrar úttektar sem fram hefur farið á starfsemi og rekstri Lánasjóðs ísl. námsmanna. Ég hygg að flestir þm. hafi lengi verið sammála um þörf á því að slík úttekt yrði gerð. Það segir sig auðvitað sjálft að um leið og slík skýrsla liggur fyrir og bent er á hugsanlegar leiðir til úrbóta þá eru þær leiðir ekki þar með orðnar að stjórnarfrv. Þessi mál og skýrslan, ábendingar í henni og fleira, eru til athugunar. Það er margt mjög athyglisvert í henni og þær upplýsingar mjög mikils virði sem þar koma fram, m. a. hvernig það er dregið fram að aðferðin við fjármögnun sjóðsins felur það í sér að það lengist sífellt tíminn, sem líður til þess að sjóðurinn fari að standa undir sér með afborgunum til baka vegna þess að fjármagnskostnaður sjóðsins hefur verið langt umfram það sem eðlilegt má teljast. Að því hefur hv. seinasti ræðumaður m. a. staðið, fyrst í fjögur ár sem fjmrh. og þar áður sem menntmrh. Það er von að hv. þm. undrist það að nú séu uppi hugmyndir um það að leita leiða til þess að ganga svo frá reglum um þessi mál að hægt sé að standa við þær. Það er meira en hæstv. fyrrv. ríkisstjórn gerði því að hún samþykkti fjárlög og aðrar reglur hvað eftir annað án þess að hafa hugmynd um það hvort hægt væri að standa við það sem samþykkt var, enda kom það á daginn að hún gat ekki staðið við það. Þannig var það mál.

Hv. fyrirspyrjandi minntist á að það fælist ekki sparnaður í því fyrir sjóðinn að létta af honum greiðslu víxillána. Í því felst nú einmitt sparnaður þegar til þess er litið að víxillán þeirra sem halda ekki áfram námi eftir misserið eða sýna ekki nægilegan námsárangur eru greidd til baka og líka hitt að einungis sá greiðslufrestur fyrir sjóðinn sem felst í hinum hluta víxillánanna, hann er einnig nokkurs virði. Sjóðurinn þarf ekki að borga fjármagnskostnaðinn af því fé eins og af þeim lánum sem hann þarf að taka, annaðhvort hjá Seðlabanka eða með öðrum hætti. Mér þykir það óeðlileg aðferð að Lánasjóðurinn þurfi að standa undir fjármagnskostnaði af víxillánum til viðskiptamanna sem alveg eins geta fengið sín víxillán í hinu almenna bankakerfi. Við þetta bætist, eða svo var til skamms tíma á meðan verðbólgan var þó ekki komin í það skikkanlega horf sem hún er núna, að víxillánin voru langtum ódýrari en verðtryggðu lánin þannig að sjóðurinn fékk minna fyrir þau lán heldur en jafnvel verðtryggð lán eins og þau voru þá.

Ég vil andmæla því sem hv. 7. landsk. þm. kallaði hringlandaliátt með hundraðshluta lánveitingarinnar, með 100% lánsfjárhlutfallið. Það var enginn hringlandaháttur. Það lá bara fyrir frá því að fjárlög voru lögð fram í haust að að þessu væri stefnt. Þetta var forsenda fyrir afgreiðslu fjárlaga. Þessa var getið í grg. Ég tel það aftur á móti afar óskynsamleg vinnubrögð að byrja á því að reikna út 100% lánsfjárhlutfall, greiða skv. því og taka það svo aftur þegar þeir vita að það verður ekki nema 95%. En þetta er mál þeirra sem reka stofnunina frá degi til dags, en það er ekki námsmönnum til þægindaauka. Auðvitað er betra fyrir námsmenn að vita strax hvaða lánsfjárhæð þeir fá í hendur og að gengið sé út frá þeirri upphæð frá upphafi.

Hv. þm. minntist einnig á það að hert eftirlit með ferðastyrkjum mundi auka skriffinnsku. Það er auðvitað alveg rétt. Allt bókhald eykur skriffinnsku. Öll reglusemi í meðferð fjármuna getur aukið skriffinnsku. Það er auðvitað miklu fljótlegra og þægilegra að hafa opnar ávísanir á ríkissjóð, að þurfa hvorki að skila fylgiskjali né öðru. Það er hins vegar ekki skynsamleg meðferð fjármuna almennings. Við þurfum að halda trausti gagnvart þessu fyrirtæki, því að mjög miklu máli skiptir fyrir námsmenn hvert viðhorf almennings í þjóðfélaginu er til þeirrar aðferðar sem námið er fjármagnað með. Eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði er ekki um að ræða gjafir til námsmanna heldur lán sem greidd eru með þeirra vinnu. Þess vegna er það illa gert gagnvart námsmönnum að hafa slík ákvæði sem þetta þar sem ekki er fullnægt eðlilegum bókhaldsreglum í þjóðfélaginu. Auðvitað á að skila annaðhvort farmiða eða staðfestum reikningi inn fyrir þeim ferðakostnaði sem menn fá greiddan. Ég hef einnig heyrt það furðulega sjónarmið að þessi regla, að borga ferðastyrki, hvort sem menn fara ferðir eða ekki, hvetji fólk til þess að fara heim í námshléum. Ég vil halda því fram að það sé einmitt þvert á móti. Ef fólk fær borgaðan ferðastyrk og er statt einhvers staðar úti í heimi þá getur alveg eins verið að farið sé til Rómar eða Vínar eða eitthvað annað að gamni sínu. Í styrknum felst engin trygging fyrir því að fólkið komi til Íslands. Þetta er auðvitað augljóst. Ég varð undrandi þegar ég uppgötvaði að þetta ákvæði væri svona framkvæmt. Ég hygg að svo hafi verið um fleiri og þætti nú trúlega hvergi gott í ríkiskerfinu.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. spurði hvort 100 millj. kr. yrðu örugglega útvegaðar. Hvernig var það þegar fjárlög voru samþykkt fyrir 1983? Var þá ekki hv. þm., þáv. fjmrh., öldungis viss um að það fé sem í fjárlögum stæði nægði? (Gripið fram í.) Nei, ekki það. En samt stóð hv. þm. að þessum fjárlögum og sagði að það mundi nægja þó að hann upplýsi nú að hann hafi vitað annað. Ég vil ítreka það að það sem um er að ræða þegar slík áætlun er fram sett er þetta: ýmsar stærðir, sem slík áætlun er byggð á, eru enn þá óþekktar og þær verða ekki þekktar fyrr en í sumar og nokkrar þeirra ekki fyrr en í haust. Það sýndi líka reynslan á síðasta ári að áætlanir sem þessar eru ákaflega breytingum háðar. Ég held því að þær ráðstafanir sem þegar hafa verið gerðar til að breyta úthlutunarreglum muni hafa mikla þýðingu í þá átt að láta fjárhæðina duga. Má líta til reynslunnar af haustmisserinu þar sem hvorki kom til þess að grípa þyrfti til útvegunar á þeim 40 millj. sem haldið var fram að vantaði né heldur einu sinni til þess að nýta heimildina sem fengin var hjá viðskiptabönkum til að greiða víxillánin. Þetta þurfti hvorugt, til þessa þurfti ekki að koma. (Forseti hringir.) Ég held þess vegna, herra forseti, að þær áhyggjur sem birst hafa í þessum fsp. séu e. t. v. ekki tímabærar enn þá. Öll höfum við áhyggjur af afkomu ríkissjóðs, eins hjá hinum opinberu stofnunum og í ríkiskerfinu yfirleitt. Það á við um þetta eins og allar aðrar stofnanir að við skulum sameinast um að vinna að því að þær séu skynsamlega reknar og að beitt sé hinu ýtrasta aðhaldi innan þeirra reglna sem lögin setja til þess að þær megi verða borgurunum til hagsbóta.