03.04.1984
Sameinað þing: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4366 í B-deild Alþingistíðinda. (3739)

245. mál, útflutningur dilkakjöts

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég fagna því að þessi fsp. skuli fram komin. Ég er í rauninni ánægður með þá umr. sem hér hefur farið fram, hún hefur verið málefnaleg og réttmæt.

Ég held að það sé eitt af okkar allra brýnustu viðfangsefnum að ganga úr skugga um það með hvaða hætti hægt sé að ná fram betra markaðsverði erlendis. Þar er áreiðanlega langfýsilegast til árangurs að hafa jafnræði á milli þeirra aðila sem treysta sér til að takast á við það viðfangsefni. Alveg burtséð frá því hvort sú leið hefur verið opin eða ekki þá hafa sí og æ komið upp neikvæðar raddir þegar menn hafa verið að brjótast inn á nýjar leiðir í þeim efnum. Má m. a. minna á þau viðbrögð sem komu fram í dagblöðum núna fyrir skemmstu í sambandi við áformaða sölu Selness hf. á kjöti á Bandaríkjamarkað.

Varðandi aðra málaþætti sem hér hefur verið gripið á og þá sérstaklega í sambandi við kostnað við þessa sölu, geymslugjöld og líka að þessi vara sé ekki ætíð til staðar er það ekki í fyrsta sinn sem þetta hefur heyrst og ég veit að fyrir þessu eru í sumum tilvikum full rök. Að mínum dómi er ekki nema ein leið til að fyrirbyggja þetta, þ. e. að auka skyldur þeirra, sem vinna og versla með þessa vöru á innlendum og erlendum markaði, gagnvart framleiðandanum sjálfum þannig að það sé þeirra hagur að standa sig vel í sölunni.