04.04.1984
Efri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4448 í B-deild Alþingistíðinda. (3783)

198. mál, Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Virðulegi forseti. Heilbr.- og trn. hefur fjallað um þetta mál, sem er frv. til l. um þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra. Eins og fram kemur í nál. bárust umsagnir frá Blindrafélaginu, frá læknaráði Landakotsspítala, Augnlæknafélagi Íslands og landlækni. Allar þessar umsagnir voru mjög jákvæðar í garð þessa máls, en eins og nál. ber með sér stígur nefndin fram sem einn maður í málinu og leggur til að það verði samþykkt.

Nauðsynlegt var að gera eina breytingu á frv., þ. e. þar sem stendur „gleraugnafræðingur“ komi: sjóntækjafræðingur, af augljósum ástæðum þar sem samþykkt hefur verið frv. og lögverndað heitið sjóntækjafræðingur.

E. t. v. er ekki ástæða til þess að hafa fleiri orð um þetta frv. Þó vildi ég leyfa mér, þótt liðið sé á daginn, að drepa niður í athugasemdum við þetta frv. sem koma raunar frá þeirri nefnd sem stóð að samningu þessa frv. Það skýrir að mínum dómi meginþætti í frv., með leyfi forseta:

„Í frv. því sem hér liggur frammi er gert ráð fyrir því að sett verði á laggirnar stofnun á vegum ríkisins er nefnist Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra. Engin slík stofnun hefur verið fyrir hendi hér á landi til þessa. Þeir sem njóta mundu þessarar þjónustu yrðu fyrst og fremst þeir sem eiga í erfiðleikum með lestur með venjulegum gleraugum.

Eitt af markmiðum stofnunarinnar verður að tryggja það að ávallt séu hér á boðstólum sem fullkomnastar tegundir sérhæfðra hjálpartækja fyrir sjónskert og blint fólk. Enn fremur þarf að tryggja það að viðgerðarþjónusta verði sem best. Innan stofnunarinnar verður því að starfa sérþjálfað fólk til þess að leiðbeina sjúklingum og þjálfa þá svo að fullkomin nýting náist út úr þeim hjálpartækjum sem á boðstólum eru. Þarf að kappkosta að ná til sem flestra þeirra aðila sem á þessari aðstoð þurfa að halda, t. d. með ferðalögum úti á landi í tengslum við augnlækningaferðalög á vegum heilbrigðisstjórnarinnar. Leggja verður áherslu á að hér er þó um ólík atriði að ræða, þar sem augnlækningaferðirnar hafa verið farnar í lækningaskyni en þjálfunarþátturinn hefur ekki verið ræktur sem skyldi á sérhæfðum grundvelli, einkum endurhæfingin. Viðbúið er að margir, sem þurfa hefðu á slíkri þjónustu að halda, hafi ekki notið hennar, þar sem sjúkdómsgreiningaþátturinn hefur ekki verið ræktur sem skyldi. Enn fremur ber að hafa í huga að allt forvarnarstarf á þessum vettvangi skilar sér í sparnaði annars staðar innan kerfisins eins og önnur dæmi sanna, t. d. þannig að viðkomandi þurfi ekki á sérkennstu að halda, sem er miklu dýrari og umfangsmeiri en venjuleg kennsla. Enn fremur má benda á að fræðsla á þessu sviði hefur ekki verið mikil þannig að af þeirri ástæðu er viðbúið að þjónustuþörfin sé meiri en fram hefur komið.“

Ég taldi ástæðu til þess að lesa þetta upp úr inngangi úr athugasemdum með frv. Ég veit að hv. heilbr.- og trn. er fullkomlega sammála — annað hefur ekki komið fram — þeim sjónarmiðum sem hér eru fram sett. Ég vil vekja á því athygli að, eins og raunar hefur verið greint frá við 1. umr. þessa máls, gert er ráð fyrir því að þetta hafi nokkurn kostnað í för með sér, hjá því verður ekki komist, en þó sýnu mestan fyrsta árið vegna stofnkostnaðar af augljósum ástæðum.

Ég held að ég hafi ekki um þetta fleiri orð, virðulegi forseti, en n. leggur eindregið til að frv. verði samþykkt. Ég hafði áður gert grein fyrir brtt.