04.04.1984
Neðri deild: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4483 í B-deild Alþingistíðinda. (3812)

269. mál, erfðafjárskattur

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil aðeins fá að víkja að tveimur atriðum.

Hæstv. ráðh. sagði áðan að hinn látni yrði að tilgreina erfingja sinn sem sambýlismann. Önnur lög í landinu segja svo fyrir um að fólk skuli skrást sem sambýlisfólk í opinberum skýrslum. T. d. hefur Hagstofan ákveðna tölustafi við fólk sem er í sambúð, sem er gift, sem er fráskilið o. s. frv. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh. lagalega séð: Segjum nú að hinn látni og erfingi hans hafi alls ekki verið merkt í þjóðskrá sem sambýlisfólk, hvert gildi hefur þá erfðaskrá hins látna þó að hann haldi því fram að þau hafi verið sambýlisfólk? Annaðhvort er fólk sambýlisfólk eða er það ekki. Um það gilda ákveðnar reglur og fólk verður að tjá sig um sambúð í Hagstofu.

Það eru svona hlutir sem ég er alltaf hrædd um að ekki sé gáð að. Ég hef ekkert á móti því að fólk hagi sambýli sínu eins og því sýnist, en ég held að löggjafinn verði að gera sér grein fyrir því að hjónaband er fjárhagslegt samyrkjubú, það er félagsbú sem byggist á sameiginlegum fjárhag og jafnframt á gagnkvæmri framfærsluskyldu. Maki er skyldugur að framfæra maka sinn. Sambýlisfólk er ekki gagnkvæmt framfærsluskylt. Að mínu viti er þessi löggjöf orðin óttalega tætingsleg. Ég hef áhyggjur af því, ef til dóms kæmi, hvernig hann félli. Ég get ekki séð að hinn látni geti sagt í erfðaskrá: Þetta var sambýliskona mín og hún skal erfa mig, en síðan flettir dómari upp í manntali Hagstofu og þar er þetta fólk ekki merkt sem sambýlisfólk. Ég get ekki ímyndað mér að hinn látni verði þá tekinn alvarlega um að þau hafi verið í svokölluðu formlegu sambýli. Þetta þekkja t. d. Tryggingastofnun ríkisins og starfsfólk hennar mætavel. Fólk sem ekki var merkt í sambúð kemur til Tryggingastofnunar og vill fá ekknabætur eða ekklabætur eftir látinn sambýlismann, en hafði hins vegar tekið mæðralaun eða feðralaun allan tímann af því það var ekki í sambúð. Þetta eru vandamál sem við verðum að glíma við. Ég er e. t. v. ekki sérlega lögfróð, en ég hefði gaman af að heyra álit þeirra lagaspekinga sem hér sitja enn þá og hlusta. Hvaða gildi hefur slík erfðaskrá um meinta sambúð? Ég held að þetta þurfi að skoðast afskaplega vel.

Ég skal ekki lengja þetta mál. Það er alltaf erfitt að vera að halda fólki hér, sem búið er að sitja hér allan daginn, þegar klukkan er að verða hálfátta. En mér finnst þetta mál vera svo alvarlegt að ég held að við í allshn. hljótum að verða að kalla okkur til ráðslags marga menn sem þekkja vel til þessara mála, og jafnframt vil ég segja: Svona mál á auðvitað að leggja fram miklu fyrr á þingi þannig að þm. hafi tíma til að skoða það. Ég hef grun um að hægt verði að keyra þetta mál í gegnum þingið án þess að nokkur líti á það nema nefndirnar sem þurfa um það að fjalla. Það eru ekki góð löggjafarstörf. Það eru mörg atriði í frv. sem ég tel að þurfi að skoða, og ekki síst þau sem stangast á við önnur lög.