05.04.1984
Sameinað þing: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4510 í B-deild Alþingistíðinda. (3835)

Umræður utan dagskrár

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Til þessara utandagskrárumræðna var stofnað með það fyrir augum að fá vitneskju um hvað stjórnvöld hygðust gera þegar heilu byggðarlögin stæðu frammi fyrir fjöldaatvinnuleysi. Síðan hafa umr. farið út um víðan völl og menn einkum rætt um kvótakerfið, stjórnun fiskveiða, en ekki það meginatriði sem ætlunin var að fá fram með þessum umr.

Búið er að samþykkja kvótafyrirkomulagið eða þá stjórnun fiskveiða sem nú er. Það var gert fyrr á þessu þingi. Við megum reikna með því, eins og fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni, að hin ýmsu byggðarlög um landið hafi ekki verið undir það búin að aðlaga sig þessu kvótakerfi og ég hygg að nú sé það að koma fram. Það er einnig rétt sem kom hérna fram að hinir ýmsu hagsmunaaðilar tjáðu sig í nefndum þingsins. Það kom fram að þessir aðilar voru samþykkir því að taka upp þetta kvótakerfi, allir nema einn aðili, Félag botnvörpuskipaeigenda. Þeir gengu um eins og frelsaðir menn og töldu að með þessu kvótakerfi eða þessu nýja fyrirkomulagi mundu öll vandamál leysast. Það er hins vegar að koma í ljós og ég hygg að margur þessara manna viðurkenni það nú að þeir mundu ekki halda á málum í dag líkt og þeir gerðu fyrr í vetur.

Ég tel ekki vafa á því að á miðju ári verði búið að afla upp í kvótann í mjög mörgum byggðarlögum í landinu. Ég veit að svo verður á Suðurnesjum, hvar ég þekki best til, og telja sjómenn að tugir báta verði verkefnalausir skömmu eftir páska. Þetta er nokkuð sem menn sjá fyrir. Hins vegar var spurt að því hvað ríkisstj. hygðist gera við því atvinnuleysi sem þá skapaðist. Við því hafa engin svör fengist. Ekkert hefur verið gert og ekkert hefur verið íhugað. Tillögur um úrbætur í þeim málum hljóta að þurfa að koma frá ríkisvaldinu, frá þeim sem ábyrgðina bera.

Það mátti heyra á hæstv. félmrh. áðan að það leysti allan vanda atvinnumála að skrá atvinnuleysi. Ég furða mig alveg stórkostlega á þessum ummælum og botna reyndar ekkert í því hvernig það getur forðað atvinnuleysi að skrá atvinnuleysi. Ég vil líka upplýsa að slík skráning hefur átt sér stað í áraraðir þannig að það er ekkert nýtt.

Hæstv. forsrh. kom hér upp er fyrirspyrjandi hafði lokið máli sínu og fór að ræða um kvótakerfið. En hann gat engu svarað varðandi það hvað ætti að gera þegar tugir báta væru búnir með kvótann, þegar byggðarlögin stæðu frammi fyrir fjöldaatvinnuleysi. Hann minntist á að skipa ætti nefnd, það hefði verið fyrirhugað fyrir mörgum vikum síðan. En sú nefnd hefur ekki enn verið skipuð. Spurningin er hvort nokkuð hafi verið á eftir því rekið. Ég leyfi mér reyndar að efast um að einhver nefnd komi til með að leysa þann atvinnuvanda sem skapast þegar bátarnir hafa lokið við kvóta sína, tel ólíklegt að slík nefnd bæti úr í þeim efnum.

Ég lýsi sérstökum áhyggjum mínum af því ástandi sem skapast þegar bátarnir hafa lokið við kvótann. Það má vera að hann dugi þeim mörgum fram á mitt ár en þá spyrja menn: Hvað kemur þar á eftir? Ég leyfi mér líka að halda því fram að ríkisvaldið hafi sáralítið gert til þess að hjálpa mönnum til að aðlagast því kerfi sem nú hefur verið sett á. En einmitt það að menn hafa ekki lært á þetta kerfi eða lært að lifa eftir því gerir það að verkum að menn rjúka í að taka aflann fyrr en skyldi.

Ég vænti þess að ríkisstj. komi með till. um það hvernig á málum skuli haldið þegar við stöndum frammi fyrir atvinnuleysi í landinu. Ef svo fer sem horfir mun það ríða yfir verkafólk. Ég skora á ráðh. — forsrh. er nú reyndar farinn — að gera grein fyrir því hvað sé til ráða þegar þeir standa frammi fyrir atvinnuleysi í landinu. Ég hygg reyndar að menn geti séð það fyrir og menn geti nú þegar undirbúið tillögur og aðgerðir í þeim efnum, ekki þurfi að bíða þangað til það er yfir riðið. Það verður þess vegna að leita allra ráða til að forða því að atvinnuleysi hrjái byggðir landsins á næstu mánuðum.