02.11.1983
Neðri deild: 10. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í B-deild Alþingistíðinda. (396)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég hugsa að oft hafi verið rædd mál hér utan dagskrár á Alþingi, sem hafa haft minni áhrif en sú tilkynning flugmálastjóra sem hér er til umr. hefur haft á þau landssvæði sem fyrst og fremst og raunar eingöngu byggja samgöngur á þessum tíma árs á flugvélum.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram að það er fáheyrður atburður að slík ákvörðun sem hér um ræðir, sem hefur í för með sér gífurlegar afleiðingar, skuli vera send út án þess að viðkomandi rn. eða ráðh. hafi um það vitneskju. Slíkt hygg ég vera fáheyrð vinnubrögð og vissulega ber að víta slíkt, að embættismaður skuli geta leyft sér að gefa út slíka tilkynningu án þess að hafa á nokkurn hátt samband við viðkomandi ráðh. yfir málaflokknum.

Það vill svo til að ég vissi nokkuð um þetta mál. Þannig var ástatt í gær, eftir að ekki hafði verið flogið til Vestfjarða í tvo daga að Arnarflugsvél flaug á Súgandafjörð og skilaði þar af sér farþegum. En þá hafði komið það mikil snjóföl á völlinn að hún treysti sér ekki til þess að fara í loftið nema tóm, án þess að ruddur yrði flugvöllur. Það var haft samband við hæstv. samgrh. og ég stóð í þeirri meiningu — hæstv. ráðh. leiðréttir það þá hér á eftir ef það er ekki rétt - en ég stóð í þeirri meiningu eftir það samtal við flugmálastjóra að málið væri leyst, og lítillega grunar mig að flugmálastjóri hafi ekki tekið mark á munnlegri fyrirskipan hæstv. ráðh. Ég vildi gjarnan fá það upplýst hvort hæstv. samgrh. hefur ekki í þessu símtali við flugmálastjóra í gær gefið fyrirskipun um það að afturkallað yrði þetta bann sem um var rætt. Ég hygg svo vera en vil ekki um það fullyrða. Hæstv. ráðh. getur að sjálfsögðu upplýst það.

Ekki síst varðandi landshluta eins og t.d. Vestfirði, sem einvörðungu byggja á flugsamgöngum á þessum tíma árs, er full ástæða til að mótmæla slíkum vinnubrögðum af hálfu embættismanna ríkisins. Því að auk þess sem slík ákvörðun hefur truflandi áhrif á samgöngur hefur hún sálræn áhrif á það fólk sem hér á hlut að máli. Og ekki bæta blaðamenn eða fjölmiðlar þar úr. Í Dagblaðinu í dag er á öftustu síðu frásögn þar sem um þetta mál er fjallað, sem ég ætla að leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Innanlandsflug mun lamast næstu daga og hugsanlega alveg stöðvast á næstu vikum vegna stórfellds niðurskurðar sem flugmálastjóri hefur boðað vegna fjárskorts flugmálastjórnar.

Þegar í morgun höfðu skapast vandræði. Ekki var hægt að fljúga til Patreksfjarðar, þrátt fyrir gott flugveður, þar sem snjó hafði ekki verið rutt af flugbrautinni. Ef ekkert verður gert mun Patreksfjarðarflugvöllur ekki opnast fyrr en með vorinu.

Svipað mun verða uppi á teningnum með aðra flugvelli landsins, nema þá sem flugmálastjórn hefur eigin snjóruðningstæki á.“

Hér er því sem sagt slegið fram að líklegt sé að sú tilkynning sem út var gefin af hálfu flugmálastjórnar í gær standi til vors. (JHB: Var þetta ekki rétt frétt?) Nei, þetta er röng frétt, því það var vitað, hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, að slíkt mundi auðvitað aldrei líðast þó að þessi embættismaður ætti í hlut. En kannske er hv. þm. búinn að gleyma samgöngumálum vestra. Ég treysti mér enn til að taka þm. í tíma og leiðbeina honum þar um. Nóg um það. En það er ástæða til að spyrja í þessu sambandi og það skulu vera mín lokaorð: Er það flugmálastjóri einn sem stendur að þessari ákvörðun eða er það flugmálastjórn sem heild? Mér finnst það skipta nokkru máli hvort hér er um að ræða ákvörðun flugmálastjóra eins eða hvort hér er um að ræða ákvörðun allrar flugmálastjórnar, þannig að hún standi á bak við slíka tilkynningu flugmálastjóra.

Ef hæstv. ráðh. veit um það, þá vildi ég gjarnan fá upplýst með hvaða hætti það er.