10.04.1984
Sameinað þing: 79. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4605 í B-deild Alþingistíðinda. (3973)

263. mál, tollkrít

Fyrirspurnin hljóðar svo:

1. Hvaða reglur gilda hjá fjármálaráðuneytinu um tollkrít, eða greiðslufrest á aðflutningsgjöldum og söluskatti?

2. Hvaða verktakafyrirtækjum hefur verið veitt tollkrít vegna innflutnings vinnuvéla undanfarin tvö ár?

3. Með hvaða kjörum og til hve langs tíma eru slík tollkrítarlán veitt?

4. Hvernig er skuldastaða þeirra verktakafyrirtækja við ríkissjóð sem fengið hafa lán af þessu tagi undanfarin tvö ár?

Skriflegt svar óskast.

Svar:

1. Árið 1969 var lögfest ákvæði í 53. gr. laga um tollheimtu og tolleftirlit þar sem fjármálaráðherra var heimilað með reglugerð að veita innflytjendum tiltekinn greiðslufrest á aðflutningsgjöldum. Við það var að miða að greiðslufrestur yrði veittur gegn fullgildri bankatryggingu eða annarri hliðstæðri tryggingu sem fjármálaráðherra tæki gilda. Jafnframt var gert ráð fyrir að það skilyrði yrði sett að viðkomandi vara yrði tollafgreidd og flutt úr vöruafgreiðslu innan tiltekins frests sem ákveðinn yrði í reglugerð og var sérstaklega tekið fram að hann skyldi ekki vera lengri en einn mánuður frá komudegi flutningsfars til landsins. Jafnframt var kveðið svo á í lögunum að heimilt væri að takmarka greiðslufrest við ákveðnar tegundir vöru.

Þegar á reyndi varðandi notkun heimildarákvæðis þessa komu í ljós ýmsir annmarkar, sem hér skulu ekki tíundaðir, er voru því til fyrirstöðu að koma heimildarákvæðinu til framkvæmda. Var því horfið frá því að setja almennar reglur um ákvæðið. Í þess stað var ákveðið að reyna tollkrít á einstökum mjög stórum vörusendingum og varð því niðurstaðan að veita greiðslufrest á aðflutningsgjöldum í eftirtöldum tilvikum:

1. Magninnflutningi á timbri.

2. Magninnflutningi á járni.

3. Bílum samkvæmt sérstöku samkomulagi, m. a. við Bílgreinasambandið.

4. Vörum til skipasmíða samkvæmt nánari reglum, en tollur af þeim er hvort eð er endurgreiddur eftir á.

Framkvæmd greiðslufrests að því er varðar ofangreindar vörur var í upphafi falin embætti tollstjórans í Reykjavík og gilti sem almenn regla. Reglur þær sem þannig voru mótaðar í upphafi eru í stórum dráttum enn þá í gildi. Skal hér á eftir gerð örlítið nánari grein fyrir þessum reglum.

Með ráðuneytisbréfi dags. 22. ágúst 1972 var veitt heimild til handa járninnflytjendum og timburkaupmönnum til þess að tollafgreiða þessar vörur með greiðslufresti til tveggja mánaða. Greiðslufrestur var bundinn því skilyrði að bankaábyrgð lægi fyrir við tollafgreiðslu. Að svo miklu leyti sem aðflutningsgjöld hvíla á járni og timbri eru reglur þessar í fullu gildi enn þá.

Að því er varðar greiðslufrest á aðflutningsgjöldum á efnivörum til skipasmíða og skipaviðgerða er nú í gildi almennt bréf til tollstjóra frá 14. ágúst 1980. Samkvæmt því er tollstjórum heimilt að veita skipasmíðastöðvum, útgerðaraðilum og skipaviðgerðaraðilum allt að sex mánaða greiðslufrest á aðflutningsgjöldum og öðrum ríkissjóðsgjöldum vegna tollafgreiðslu á vélum, tækjum og efnivörum til skipasmíða og skipaviðgerða. Greiðslufrestur á aðflutningsgjöldum skal veittur gegn útgáfu skuldarviðurkenningar og skilyrðislausri ábyrgð banka eða sparisjóða um greiðslu, verði krafa samkvæmt skuldarviðurkenningu eigi greidd á réttum gjalddaga.

Samkvæmt ráðuneytisbréfi frá 16. nóvember 1973 er tollstjóra heimilt að veita olíufélögunum greiðslufrest á tolli af bifreiðabensíni. Greiðslufrestur er þó aðeins veittur að hluta, þ. e. hann nær einungis til 35% af tollinum.

Sérstakt samkomulag var gert á árinu 1974 milli fjármálaráðherra f. h. ríkissjóðs, Verslunarbanka Íslands hf. og Bílaábyrgðar hf. Samkvæmt samkomulagi þessu er bifreiðainnflytjendum, sem eru hluthafar í Bílaábyrgð hf., veittur gjaldfrestur á aðflutningsgjöldum af bifreiðum gegn afhendingu skuldarviðurkenninga. Greiðslufrestur er á bilinu 10 til 20 dagar, talið frá afhendingardegi bifreiðar. Til tryggingar greiðslu á aðflutningsgjöldum hefur Verslunarbanki Íslands hf. sett ríkissjóði bankaábyrgð. Jafnframt var Bílaábyrgð hf. gert að setja að handveði tryggingar vegna hugsanlegra krafna Verslunarbanka Íslands hf. á hendur bifreiðainnflytjendum. Að öðru leyti eru í samkomulagi þessu ítarleg ákvæði um hvernig skuli leita fullnustu ef til vanskila kemur svo og um viðurlög. Sams konar samkomulag milli fjármálaráðherra, Samvinnubanka Íslands hf. og Sambands íslenskra samvinnufélaga var svo gert síðar sama ár.

Með ráðuneytisbréfi dags. 13. apríl 1976 var olíufélögunum veittur greiðslufrestur á gjaldi af gas- og brennsluolíum. Greiðslufrestur er allt að fimm mánuðir frá komudegi flutningsfars til landsins. Greiðslufrestur er að öðru leyti veittur gegn útgáfu skuldarviðurkenningar.

Greiðslufrestur samkvæmt framansögðu gildir aðallega vegna innheimtu tolls og annarra aðflutningsgjalda, en að því er varðar innflutning efnivara til skipaviðgerða og skipasmíði er þó jafnframt heimilt að taka við skuldarviðurkenningu vegna söluskatts þegar um er að ræða innflutning af hálfu útgerðaraðilanna sjálfra.

Af fjármálaráðuneytisins hálfu hafa ekki verið settar frekari almennar reglur um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum vegna almenns innflutnings á öðrum vöruflokkum en hér hafa verið tilgreindir.

Sérstakt fyrirkomulag gildir að því er varðar tímabundinn innflutning á vörum. Um tímabundinn innflutning ferðamanna á bifreiðum gildir sú regla að ferðamenn þurfa almennt ekki að setja sérstakar tryggingar vegna innflutnings á bifreiðum sínum. Sama gildir um tímabundinn innflutning vísindamanna og vísindaleiðangra á tækjum og öðrum búnaði sem þeir nota hér við rannsóknir sínar. Í öðrum tilvikum má segja að meginregla sé að innflytjandi verði að setja peningatryggingu vegna greiðslu aðflutningsgjalda af vörum sem tímabundið eru fluttar inn í landið. Með ráðuneytisbréfi dags. 10. júní 1981 hefur fjármálaráðuneytið þó heimilað tollstjórum að taka við skuldarviðurkenningu fyrir lögboðnum áföllnum gjöldum svo og öðrum kostnaði í stað peningatryggingar þegar um tímabundinn innflutning er að ræða. Heimildin er bundin því skilyrði að fyrir liggi skilyrðislaus sjálfskuldarábyrgð banka.

2.1 Hinn 16. júní 1983 var Agnari Hallvarðssyni veittur greiðslufrestur á aðflutningsgjöldum og sölugjaldi að fjárhæð 2x400 þús. kr. gegn sjálfskuldarábyrgð banka. Gjalddagar voru 27. júní 1983 og 11. júlí 1983. Agnar flutti inn vélgröfu.

2.2 Hinn 29. júní 1983 var Helga Þór Jónssyni veittur greiðslufrestur á aðflutningsgjöldum og sölugjaldi að fjárhæð 2x1 735 þús. kr. vegna innflutnings kranabifreiðar. Helmingur lánsins var tryggður með veði í kranabifreiðinni R-33012 en hinn helmingurinn með veði í húseign. Lánið er til tveggja ára, verðtryggt og ber 2% vexti.

2.3 Hinn 31. ágúst 1983 var Vörðufelli hf. heimilað að greiða aðflutningsgjöld og sölugjald með skuldabréfum er tryggð væru með sjálfskuldarábyrgð banka eða sjálfskuldarábyrgð Almennra trygginga hf. Lánið er til tveggja ára, verðtryggt og ber hæstu vexti. Upphæð lánsins var 3 556 þús. kr. Vörðufell flutti inn vökvagröfu.

2.4 Hinn 2. febrúar 1984 var Hagvirki hf. heimilað að greiða aðflutningsgjöld og sölugjald með skuldabréfum að nafnverði 5 308 þús. kr. er tryggð væru með sjálfskuldarábyrgð banka. Lánið er til tveggja ára, verðtryggt og ber hæstu vexti. Hagvirki hf. flutti inn jarðýtu.

2.5 Hinn 23. mars 1984 var Veli hf. heimilað að greiða aðflutningsgjöld og sölugjald með skuldabréfum er tryggð væru með sjálfskuldarábyrgð banka, væru verðtryggð og bæru hæstu vexti. Völur hf. hefur greitt tolla að fjárhæð 792 þús. kr. með skuldabréfi er fellur í gjalddaga í október 1984. Skuldabréf til greiðslu á söluskatti mun væntanlega berast ríkissjóði 25. apríl. Nafnverð þess er ekki þekkt en andvirði þess á að greiðast ríkisféhirði í desember 1984.

3. Þessum lið fyrirspurnarinnar er svarað með upplýsingum er gefnar hafa verið varðandi fyrirspurn í lið 2. 4. Það er stefna ráðuneytisins að veita ekki upplýsingar um skuldastöðu einstaklinga eða fyrirtækja við ríkissjóð. Þær kröfur er ríkissjóður á og taldar eru undir lið 2 eru svo vel tryggðar að skuldastaða þeirra fyrirtækja sem þar eiga hlut að máli rýrir ekki líkur ríkissjóðs á að fá aðflutningsgjöld og sölugjald það sem hér um ræðir greitt.