11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4676 í B-deild Alþingistíðinda. (4071)

304. mál, selveiðar

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér hefur hæstv. sjútvrh. mælt fyrir merku og þörfu máli þar sem er frv. til l. um selveiðar við Ísland. Ég kannast við efni þessa frv. frá tíð síðustu ríkisstj. þar sem það var kynnt af þáverandi hæstv. sjútvrh. Steingrími Hermannssyni. Ég var þess hvetjandi þá þegar að þetta frv. yrði flutt inn á vettvang Alþingis þar sem mikil nauðsyn er á því að setja löggjöf um selveiðar hér og taka á þessum málum með nokkuð öðrum hætti en gert hefur verið á liðinni tíð.

Ég tel að efni þessa frv. sé í öllum meginatriðum jákvætt og eðlilegt. Ég hef ekki skoðað það svo nákvæmlega enn að ég vilji staðhæfa að ekki þurfi þar við að auka í einhverjum greinum en geri ráð fyrir því að það fái vandlega meðferð.

Hæstv. ráðh. nefndi það sérstaklega að ein grein frv. væri ekki samhljóða þeim till. sem frá nefndinni hefðu komið sem um þetta mál fjallaði. Ég tel að þar sé vikið að atriði sem einmitt þarf sérstaklega að vanda til, þ. e. hvernig samráði verði hagað við aðila sem láta sig þessi mál einkum varða, bæði náttúruverndaraðila, rannsóknaraðila og beina hagsmunaaðila þessara mála. Ég teldi eðlilegt að lögfest yrðu atriði um samráð með eitthvað öðrum hætti en gert er hér í fyrirliggjandi 3. gr., t. d. að gert verði ráð fyrir samráðsnefnd þeirra aðila sem þar eru til nefndir ásamt fulltrúa frá sjútvrn.

Ég held að mjög æskilegt sé að bæði verndarsjónarmiðin og nýtingarsjónarmiðin takist á á einhverjum skipulegum vettvangi og þannig sé meiri von um að hægt sé að stilla saman um aðgerðir, m. a. aðgerðir til þess að halda selastofninum í skefjum að svo miklu leyti sem það er talið réttlætanlegt í ljósi rannsókna og nauðsynlegt af hagsmunalegum ástæðum.

Eins og hæstv. ráðh. nefndi hafa þessi mál verið mikið í umræðu á síðustu árum, einkum eftir að sjútvrh. Kjartan Jóhannsson, hv. 3. þm. Reykn., setti á fót svokallaða hringormanefnd þann 16. ágúst 1979 með skipunarbréfi þar sem hann fól þeirri nefnd sem skipuð var aðallega hagsmunaaðilum „að hafa yfirumsjón með rannsóknum og tilraunum sem fyrirhugaðar eru til að leita lausnar á þeim vanda sem hringormar í fiski valda íslenskum fiskiðnaði,“ eins og segir í skipunarbréfi. Einnig er þar kveðið á með svofelldum orðum:

„Nefndinni er einnig ætlað að hafa yfirumsjón með rannsóknum sem þegar eru hafnar á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar á selastofnum við Ísland.“

Skipun þessarar nefndar sætti að mínu mati eðlilega gagnrýni og ég tel að það komi í rauninni fram í þessu frv. og athugasemdum við greinar þess að hér hafi verið gengið fram með nokkuð óeðlilegum hætti, sérstaklega gagnvart Hafrannsóknastofnun sem á skv. lögum um stofnunina að annast rannsóknir af þessu tagi. Það liggur fyrir skjalfest í bréfi frá forstjóra Hafrannsóknastofnunar frá 20. desember 1982, sem svar við fsp. frá Landvernd, að ekki hafi verið haft neitt samráð við stofnunina um skipan þessarar nefndar og engin samvinna verið á milli hennar og Hafrannsóknastofnunar varðandi selarannsóknir hér við land.

Þetta hefur eðlilega verið gagnrýnt, m. a. af Náttúruverndarráði og einnig hefur Landvernd látið sig mál þessi varða eins og hér kom fram, og rætt þau á sínum vettvangi. Ég tel það mjög mikilsvert að því skuli slegið föstu, eins og gert er í 2. gr. þessa frv., að það sé Hafrannsóknastofnun sem annist rannsóknir á selum við Ísland og ef leitað er til annarra aðila skuli henni ávallt gert kleift að fylgjast með gangi mála og niðurstöðum rannsókna varðandi selinn.

Nú ætla ég ekki að fara að ganga á tíma þingdeildar á þessu kvöldi með því að fara að rekja þau álitamál sem uppi hafa verið fræðilegs og vísindalegs eðlis varðandi samhengið á milli hringorms í þorski og stærðar selastofnsins við Ísland. Sem kunnugt er hefur það samhengi og þær ályktanir, sem dregnar hafa verið af fyrirliggjandi þekkingu á þessum málum, verið vefengdar af ýmsum aðilum. Það kemur m. a. greinilega fram gagnrýni á ályktanir af fyrirliggjandi rannsóknum í þeirri grg. Náttúruverndarráðs frá janúar 1984 sem hæstv. ráðh. vitnaði til í sínu máli og er forvitnilegt fyrir þá n. sem fær þessi mál til meðferðar að kynna sér þau viðhorf sem þar koma fram. Eflaust eiga ýmsir fleiri eftir að setja fram viðhorf bæði með og móti þeim sjónarmiðum sem þar eru túlkuð.

Ég vil ekki að mál mitt misskiljist þannig að ég skilji ekki fyllilega áhuga þeirra aðila sem vinna í fiskvinnslu á Ístandi að leitast við að draga úr þeim mikla vanda og þeim mikla tilkostnaði sem stafar af hringormi í þorski. Það er tvímælalaust mikið hagsmunamál fyrir okkur að unnt verði að komast eins og verða má að ástæðu fyrir aukningu á hringormi í þorski sem ég vefengi ekki að orðið hafi á liðnum árum.

Ég tel að verja eigi fjármagni til rannsókna, bæði grundvallarrannsókna á því líffræðilega samhengi sem þarna er um að ræða og einnig rannsókna á tækni til þess að fást við hreinsun á hringormi og ná tökum á henni með sem kostnaðarminnstum hætti. Vissulega hafa tilraunir verið gerðar í þeim efnum en þær hafa ekki leitt til þess að leysa mannshöndina af hólmi í sambandi við ormatínsluna og ég skal engu spá um það hversu langan tíma það taki að leysa það mál tæknilega.

Heyrst hafa raddir þess efnis að það mundi verða til að svipta ýmsa atvinnunni ef ormatínslan legðist niður. Það er kannske ekkert óeðlilegt að slík sjónarmið komi fram á tímum þegar menn óttast um atvinnu fólks, m. a. í fiskiðnaði, en ég tel samt að ekki beri að láta slíkt sjónarmið ráða. Ég held að sú vinna sem unnin er við hreinsun hringorms sé afskaplega hvimleiður starfi þó ég hafi ekki sjálfur við það fengist. Ég hef heyrt það hjá mörgu fiskverkunarfólkinu sem við þessi störf fæst að það mundi ekki syrgja það þó að ormatínslunni létti. Ég held að við verðum að leita annarra leiða til að leysa atvinnuvandann en að draga við okkur að leita lausnar á þessum vanda, einnig hvað snertir ormatínsluna.

Ég vil svo að endingu, virðulegi forseti, þakka hæstv. sjútvrh. fyrir það að hafa lagt þetta mál fyrir þingið. Ég hvet eindregið til þess að reynt verði að ljúka setningu þessara laga á yfirstandandi þingi og taka upp þráðinn á grundvelli þeirra við stórefldar rannsóknir á selastofninum, nýtingarmöguleikum á selnum sjálfum og á því samhengi sem tengist hringormi í þorski.

Ég get tekið undir með hæstv. ráðh. sem ræddi hér áðan um náttúruverndarmálin að þar er ekki alltaf mælt út frá sama bakgrunni. Ekki eru alltaf sömu sjónarmiðin sem þar liggja að baki málflutningi manna og vissulega getur þar leynst úlfur í sauðargæru undir málflutningi náttúruverndar eins og í sambandi við fleira. En hvað sem því líður held ég að alveg nauðsynlegt sé fyrir okkur Íslendinga að taka af raunsæi tillit til hræringa erlendis þó að okkur líki þær ekki að öllu leyti eða höfum um þær skiptar skoðanir, teljum jafnvel að þær beinist gegn okkar hagsmunum í vissum tilvikum. Heimurinn er það samtvinnaður að mikil þörf er á því að horfast í augu við þróun mála, einnig erlendis. Það tel ég að Alþingi hafi gert með skynsamlegum hætti t. d. í sambandi við hvalveiðimálið, sem leitt var til lykta á hv. Alþingi í fyrra, þar sem hæstv. núv. sjútvrh. lagði lóð á rétta vogarskál. Ég treysti honum alveg til þess að fara með þessi mál á meðan hann gegnir starfi ráðh. en ég hvet að endingu til þess að gengið verði sem best frá samráði við náttúruverndaraðila og hagsmunaaðila í fiskvinnslu og einnig landeigendur við frágang þessa frv., áður en að lögum verður, og vil stuðla að því fyrir mitt leyti að það fái sem greiðastan gang í gegnum þingið.