24.04.1984
Sameinað þing: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4818 í B-deild Alþingistíðinda. (4241)

312. mál, lækkun húshitunarkostnaðar

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Þetta er allt of stuttur tími til að ræða málið.

Menn hafa ekki aðeins verið að tala um þyrlu heldur þyrlur. Það er svo að þyrlur eru ákaflega dýr tæki. Tæki af þessari tegund, sem um er að ræða, kostar með öllum búnaði a. m. k. 90 millj. kr. hvert stykki. Það er ljóst að ef menn hafa eina þyrlu í rekstri þarf meiri varahluti en handa tveimur þyrlum, ósköp einfaldlega vegna þess að þegar einn varahlutur fer í annarri stendur hin tilbúin til flugs. Þyrla númer tvö er þá hreinlega til vara. Það eru ríkir menn í svona litlu þjóðfélagi sem hafa efni á því að láta 90 millj. kr. stykki standa til vara nema einstaka sinnum þegar þarf að grípa til.

Það er mín skoðun að við eigum að reka eina burðuga þyrlu. Þegar hún þarf að fara í skoðun og lagfæringu getum við notast við aðstoð Bandaríkjamanna eins og við höfum gert. Íslendingar bjarga öðrum þegar þeir eiga þess kost og Bandaríkjamönnum einnig. Það bjargar auðvitað hver öðrum, alveg sama af hvaða þjóðerni. Það er engin skömm að styðjast við það, síður en svo.

Ég undrast dálítið orð hæstv. dómsmrh. þegar hann talar af vandlætingu um að við skulum tala svona um starfsmenn Gæslunnar. Í þessari nefnd, með stjórnmálafræðinginn úr Framsfl. í fararbroddi, eru auðvitað ekki starfsmenn Gæslunnar. En ég talaði svona um starfsmenn Gæslunnar vegna þess að sporin hræða. Muna menn eftir því hvers konar vélar hafa verið keyptar? Katalínaflugbátur, DC 4 Skymastervél, tveir Grumman bátar, sem hafa varla komist í loftið og annar kannske aldrei, og síðan Fokker, 50 manna vél sem kostar þrisvar sinnum meira á flugtíma að reka en minni vél.

Ég tek alveg undir það að við eigum að efla Gæsluna. Með hverju verður hún efld? Verður hún efld með því að kaupa þrisvar sinnum dýrari tæki sem er þrisvar sinnum dýrara að reka? Við höfum ákveðið fjármagn og það fjármagn hlýtur að vera í eðli sínu takmarkað. Ef við horfumst í augu við þá staðreynd að fjármagnið er takmarkað þurfum við að haga gæslunni þannig að vel sé farið með peningana, að við stundum ódýrari rekstur sem gerir sama gagn og við fáum meiri gæslu út úr því. Það er staðreyndin í málinu. Og ég treysti Gæslunni ekki nú fremur en fyrri daginn til þess að velja heppilegustu tæki, hvað svo sem hæstv. dómsmrh. segir, og ég skammast mín ekkert fyrir að nefna það, enda er þetta sagt á opinberum vettvangi og þeir geta gagnrýnt það ef þeir vilja.

Ég legg á það áherslu við hæstv. dómsmrh. vegna þess sem ég hef sagt og margir aðrir í þessu þjóðfélagi, sem þekkja þetta mál: Formaður þessarar nefndar, Þórður Ingvi Guðmundsson, hefur auðvitað ekkert vit á flugi. Það er alveg skelfilegt að setja formann í svona nefnd sem þekkir ekkert til slíkra hluta. Auðvitað á að velja menn í þetta sem hafa haft eitthvert inngrip í flug. Og það á ekki heldur að velja menn í þessa nefnd sem hafa valið vitlausa kosti áður, jafnvel þó þeir séu tengdir Gæslunni. Það er hinn voðalegasti misskilningur að þeim sé best treystandi sem hafa verið að starfa í Landhelgisgæslunni í þessum efnum. Þetta er sérhæft mál. Ég vil minna hæstv. dómsmrh. á erindi sem honum hefur verið sent, sem ég hef í höndum, frá einum þekktum starfsmanni Gæslunnar, þar sem hann ræðir flugvélamál af svo óskaplegri vanþekkingu og misskilningi að það er ekki ein einasta brú í nokkurri einustu málsgrein í bréfinu.

Vegna þess sem ég hef nú sagt er nauðsynlegt að gera opinberlega grein fyrir málinu og það verður gert. En, herra forseti, tíminn er stuttur. Ég vil þó nota nokkrar sekúndur til að biðja hæstv. dómsmrh. að fela þessi verkefni mönnum sem hafa þekkingu á þeim.