25.04.1984
Efri deild: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4854 í B-deild Alþingistíðinda. (4263)

181. mál, sala jarðarinnar Bæjarstæðis í Seyðisfjarðarhreppi

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta mál var ítarlega rætt í hv. landbn. og niðurstöðuna er að finna í nál. og brtt. sem formaður n. hefur þegar gert grein fyrir. Ég ritaði undir þetta nál. með fyrirvara vegna þess að mér finnst miklu skipta að athugað sé vendilega áður en til nýtingar á þeim heimildum kemur, sem frv. kveða á um, hvort á þessum jörðum séu einhverjar náttúruminjar sem ástæða sé til að friða í almannaþágu. Ég legg áherslu á að slíkt sé þá gert áður en heimildin er nýtt.

Skv. upplýsingum Náttúruverndarráðs er jörðin Bæjarstæði ekki á náttúruminjaskrá. Hins vegar er næsti dalur við hliðina á þeirri jörð, sem nefndur er Austurdalur, á skrá og því er e. t. v. ástæða til að athuga það vel hvort eitthvað sé sameiginlegt með þeim tveimur dölum sem þarna um ræðir.

Með leyfi forseta, langar mig til að gera svipaðar athugasemdir við annað mál sem er á dagskrá í dag, þ. e. heimild fyrir ríkisstj. til að selja jörðina Þjóðólfshaga í Holtahreppi í Rangárvallasýslu, vegna þess að athugasemdirnar eru sams konar og það mundi spara hv. deild tíma.

Hvað Þjóðólfshaga varðar geri ég sömu athugasemdir, þ. e. að þar sé einnig athugað hvort um einhverjar náttúruminjar sé að ræða. Sú jörð er heldur ekki á náttúruminjaskrá en þar mun vera skráður merkislækur sem nefndur er Steinslækur og ósnortið votlendi í kring sem mun vera orðið nokkuð fátítt á Íslandi nú til dags og ástæða til að athuga hvort friða bæri.

Því vil ég spyrja hæstv. landbrh. að því hvort hann sé tilbúinn til að leita umsagnar Náttúruverndarráðs varðandi hugsanlega friðun á þessum jörðum og taka síðan tillit til þeirra umsagna áður en heimildirnar, sem frumvörpin kveða á um, eru nýttar. Sé svo mun ég greiða þessum frv. báðum atkv. mitt en ella ekki.