25.04.1984
Neðri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4859 í B-deild Alþingistíðinda. (4275)

119. mál, tollskrá

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Þar sem ég hef orðið til þess að halda uppi nokkrum umr. um þetta mál vil ég aðeins bæta hér við þær. Eins og ég hef marglýst yfir styð ég að sjálfsögðu það frv. sem hér liggur fyrir um að fella niður tolla af vísindatækjum og búnaði en ég vil enn og aftur ítreka að mér finnst með öllu óeðlilegt, þar sem um er að ræða milliríkjasamning, að fram skuli borið frv. um einn þátt samningsins. Nú sagði hv. flm. frv. hér í ræðustóll rétt áðan að hann og hans samflm. mundu sjá til þess að fram yrði borið frv. um aðra þætti samningsins. Ég hlýt að spyrja — og þá e. t. v. hæstv. utanrrh. sem hefur milligöngu um að undirrita þennan samning — hvers vegna slíkt frv. er í raun og veru borið fram af þm. í ákveðnu ráði, að þessu sinni Rannsóknaráði ríkisins, hvers vegna ríkisstj. sem slík sér ekki um að þær breytingar verði gerðar á tollskrá sem samningurinn tekur til. Þetta eru, ég endurtek það enn og aftur — ákaflega óeðlileg vinnubrögð, að einn þáttur þessa samnings sé afgreiddur hér alveg ótvírætt fyrir þrýsting frá Rannsóknaráði ríkisins en ríkisstj. sjálf virðist ekki hafa tiltakanlegan áhuga á því að breyta tollskrá þannig að öll atriði samningsins séu þannig afgreidd.

Hv. þm. Gunnar Schram sagði rétt áðan að búið væri að fella niður tolla af flestum öðrum atriðum sáttmálans og nefndi til listaverk eða safngripi. Þetta er ekki rétt og ég hef sagt það hér áður. Það vill svo til að það veit ég af reynslu sem stjórnarmaður í einu listasafni bæjarins að til þess að ná inn í landið safngripum — og þeir geta þess vegna verið 100 ára gamlir — verður að standa í hvers kyns kífi og þvargi við tollyfirvöld, reiða fram fé til tryggingar og annað slíkt til þess að fá að koma þessu inn í landið. Ef gengið hefði verið frá öllum atriðum sem sáttmálinn tekur til væri þetta úr sögunni. Ég hlýt að spyrja utanrrh. til þess að fá það alveg á hreint: Stendur til að þegar þingi lýkur verði búið að bera fram frv. um öll önnur atriði sáttmálans?