26.04.1984
Sameinað þing: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4966 í B-deild Alþingistíðinda. (4358)

289. mál, rannsókn og meðferð nauðgunarmála

Páll Pétursson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég held að hér sé hreyft réttu og þörfu máli og kann flm. þakkir fyrir að hreyfa því. Ég held að hér sé um atferli að ræða sem sé náttúrlega forkastanlegt. En mér finnst að e. t. v. vanti í þetta umfjöllun um misgerðir gegn börnum sem ég heyrði ekki að hv. 1. flm. fjallaði í ræðu sinni. Það er einn þáttur þessa máls og kannske sá alvarlegasti. Ég vil bara undirstrika það að mér finnst að það megi alls ekki missa sig úr þessari umr.

Mér finnst umhugsunarefni hvort tillgr. er rétt orðuð, en það er smærra atriði og mætti laga í nefnd og ég tel víst að flm. séu samþykkir því. Tillgr. hljóðar svo: „Alþingi ályktar að fela dómsmrh. að skipa fimm manna nefnd er kanni hvernig háttað er rannsókn og meðferð nauðgunarmála og geri tillögur til úrbóta í þeim efnum.“ Þær gefa sér að úrbóta sé þörf og ég er þeim sammála um það. Ég held að þarna sé úrbóta þörf. En þá er þetta ekki rétt orðað. Þá fyndist mér best að stytta leiðina að markinu og skipa fimm manna nefnd til þess að gera tillögur um hvernig úrbæturnar mættu verða. Þetta er óþarflega loðið orðalag, að fara að kanna hvernig háttað sé rannsókn og meðferð nauðgunarmála. Þær gefa sér, og að ég held með réttu, að úrbóta sé þörf og þá eigum við bara að álykta um það að úrbóta sé þörf og setja nefnd í málið til þess að vinna verkið.

En sem sagt, ég styð þessa till. og vona að hún nái fram að ganga.