02.05.1984
Neðri deild: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5044 í B-deild Alþingistíðinda. (4471)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta arma mál virðist nú að því komið að kveðja okkur hér í hv. Nd. a. m. k. að sinni. Ég hef notað hvert tækifæri sem gefist hefur til að lýsa eindreginni andstöðu minni við það og ætla að halda því áfram hér við 3. umr. Ég vil lýsa eindreginni andstöðu minni við þau fjárfestingarafglöp, það skipbrot íslensks sjálfstæðis og þá röngu forgangsröð í íslenskum flugmálum og síðast en ekki síst þau reginmistök í skipulagningu og hönnun sem hér virðast ætla að eiga sér stað.

Gróðurhús eru tiltölulega einföld mannvirki ef þau eru reist ein og sér til síns brúks. Sömuleiðis geta flugstöðvar verið tiltölulega einföld mannvirki ef þær eru reistar einar sér og til síns brúks. En það er alveg greinilegt, herra forseti, að þegar þessu tvennu er blandað saman verður útkoma úr því hroðalegur bastarður. Ég vil sem sagt enn og aftur ítreka andstöðu mína, herra forseti, við þetta mál, þennan minnisvarða forheimskunar og niðurlægingar, sem á að fara að reisa suður á Keflavíkurflugvelli fyrir erlendar blóðtalentur.