02.05.1984
Neðri deild: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5048 í B-deild Alþingistíðinda. (4485)

70. mál, tóbaksvarnir

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umr., frv. til laga um tóbaksvarnir, er 70. mál yfirstandandi þings og hefur verið til meðferðar í nokkuð langan tíma hjá heilbr.- og trn. hv. deildar. Það verður að teljast eðlilegt þegar lagabálkur sem þessi er í umfjöllun hjá þinginu að fyrri deild sem um málið fjallar ætli sér nægan tíma til þess. Mál sem þetta varðar marga og þinginu ber að leita eftir skoðunum og áliti fjölmargra aðila svo og að ræða við þá sem unnu að gerð frv. Þetta hefur heilbr.- og trn. deildarinnar gert.

Sú ítarlega grg. sem fylgir frv. er svo yfirgripsmikil og fróðleg að í raun þarf hvorki nefndir né þingið í heild að leita sér frekari vitneskju eða fróðleiks en þar kemur fram fyrir nauðsyn þess og þörf að setja ítarlegri löggjöf en hér gildir til þess að draga úr tóbaksneyslu og setja ákvæði sem verndi umhverfið og manninn sjálfan fyrir skaðsemi óbeinna reykinga og verði þar með til verndar almennri heilsu og vellíðan þeirra sem ekki reykja. En Alþingi þarf að sjálfsögðu um leið og það gætir réttar þeirra sem hér hafa verið nefndir að gæta þess að setja ekki þær hömlur á athafnafrelsi einstaklinganna að slík lög eða ákvæði verði ekki virt. Að sjálfsögðu ber löggjafanum, sem mótar m. a. stefnu í mennta- og heilbrigðismálum og veitir fé til þessara málaflokka, að gæta þess að allt þetta starf verði unnið með sem minnstum tilkostnaði. Því ber löggjafanum að stuðla að fræðslu um skaðsemi tóbaksneyslu, beinnar og óbeinnar, og upplýsa rækilega um afleiðingarnar sem birtast m. a. í erfiðum og hættulegum sjúkdómum sem þjóðin eyðir gífurlegu fé til að berjast gegn. Í dag ber enginn maður á móti þeim niðurstöðum vísindalegra rannsókna sem sanna okkur þann þátt sem tóbakið á í tilurð sjúkdóma, viðhaldi þeirra og mögnun.

Ég vil þegar í upphafi þessarar umr. þakka öllum sem sýndu nefnd okkar velvilja og langlundargeð í aðstoð sinni við það markmið okkar í nefndinni að ná samstöðu um þær brtt við frv. sem gætu sameinað okkur um tilgang þess. Slík samstaða yrði mótandi fyrir þingið og um leið þjóðina í heild. En ég vil sérstaklega þakka meðnefndarmönnum mínum fyrir þá þolinmæði sem þeir hafa sýnt mér, sem hef stýrt fundum þann tíma sem við höfum unnið að þessu máli, þakka samstarfsvilja þeirra og jákvæðar ábendingar og vilja til þess að finna lausn sem hróflaði ekki við meginmarkmiðum en allir gætu samt unað við.

Strax við 1. umr. þessa máls hér í hv. deild kom fram í spurningum og ræðum manna að skoðanir voru skiptar og andstaða við sum ákvæði frv. Þetta kom fram frá fleiri aðilum þótt yfirgnæfandi meiri hluti aðspurðra mælti eindregið með samþykkt löggjafar á grundvelli þess sem ákveðið var að endurskoðunarnefndin gerði till. um. Þessi endurskoðun stóð yfir frá 1980 en frv. var flutt á síðasta þingi og hlaut ekki afgreiðslu. Má lesa um þetta í inngangi eða athugasemdum með frv.

Frv. var sent til 37 aðila, m. a. allra sem höfðu áður fengið frv. til umsagnar þegar það var flutt á hv. Alþingi á fyrra ári. Á þriðja tug sömu aðila svöruðu okkur einnig nú, aðrir létu okkur vita með munnlegum skilaboðum að þeir væru sama sinnis, jákvæðir gagnvart slíku frv. eins og þeir hefðu verið á fyrra ári. Einn aðili skar sig úr í umsögn sinni og komu fram hjá honum flest atriði sem fundin hafa verið slíkri löggjöf til foráttu. Þar segir m. a., með leyfi forseta:

„Um það er ekki deilt að tóbaksreykingar eru skaðlegar heilsu manna og því sannarlega þörf á öflugum áróðri og upplýsingamiðlun til að hamla gegn tóbaksreykingum. Þó ber að gjalda varhug við þeirri oftrú á boðum og bönnum og refsiákvæðum sem eru uppistaða frv. þessa. Það hlýtur að vera öllum þeim, er bera grundvallarreglur réttarríkisins fyrir brjósti, áhyggjuefni ef mikið kveður að lagasetningu sem engar líkur eru til að borgararnir virði. Slíkt er ekki til þess fallið að tryggja framgang þeirra markmiða er legið hafa til grundvallar lagasetningu en ávöxturinn kann að verða almennt virðingarleysi fyrir lögum og rétti.“

Þessi skoðun kom einnig fram við 1. umr. málsins og í nefndinni. Ég tel að heilbr.- og trn. hv. deildar hafi reynt í starfi sínu að skera af þá vankanta sem hér er bent á. Í þessari umsögn er þó ekki komið inn á það atriði sem hlýtur að vera verkefni löggjafans, en það er að vernda þann sem hlýtur skaða af óbeinum reykingum, aðilann sem á enga vörn við skaðsemi og óþægindum af reykingum annarra. En hvað eru óbeinar reykingar? Það er kallað svo þegar fólk sem ekki reykir sjálft andar að sér lofti menguðu tóbaksreyk. Í grg. frv. er ítarlega fjallað um þennan þátt og vitna ég hér í örfá atriði, með leyfi forseta:

Síðasta áratug hefur almenningur í hinum tæknivædda heimi orðið í vaxandi mæli meðvitandi um nauðsyn þess að hamla gegn mengun umhverfisins og hugtakið umhverfisvernd orðið til. Skorin hefur verið upp herör gegn hvers konar mengun frá orku- og iðjuverum, hvort heldur eru í eigu einstaklinga, félaga eða ríkisins.

Andrúmsloftið er sameign allra og óhjákvæmileg nauðsyn hverjum þeim sem lífsanda dregur. Er það samfélagsskylda að viðhalda hreinleika andrúmslofts ekki síður en neysluvatns sem ætlað er almenningi. Með sömu rökum er það réttur hvers manns að fá að neyta ómengaðs andrúmslofts jafnt í hvíld sem starfi og heyra frávik frá því aðeins til undantekninga.

Vitundin um þennan rétt hefur m. a. verið undirrót lagasetningar er miðar að því að takmarka reykingar á atmannafæri. Slík lagasetning þekkist bæði austan hafs og vestan, en í slíkri löggjöf er kveðið á um að matsölustöðum, verslunum, skrifstofum og öðrum svæðum sem ætluð eru almenningi til afnota, sé annaðhvort skipt í reykingasvæði og reyklaus svæði ellegar, ef stjórn stofnana ákveður svo, að algjört bann sé við reykingum á nefndum svæðum.

Í forsendum þessara laga er gengið út frá því að tóbaksreykur sé hættulegur heilsu almennings. Þau eru þó fyrst og fremst ætluð til verndar almennri heilsu og vellíðan þeirra sem ekki reykja. Lögð er áhersla á að þeim sem vilja reykja sé skylt að virða rétt hinna sem reykja ekki og vilja komast hjá skaðlegum áhrifum af reykingum í næsta umhverfi sínu. Reykingar eru alls ekki einkamál þeirra sem reykja.

Til eru teknir í forsendum slíkra laga fjórir flokkar einstaklinga sem eiga það sameiginlegt að heilsufari þeirra sé ógnað með reykingum annarra:

1. Fólk haldið ofnæmis- eða astmasjúkdómum.

2. Börn og ungmenni vegna viðkvæmni gagnvart bólgu í öndunarfærum.

3. Sjúklingar með langvarandi hjarta- og lungnasjúkdóma.

4. Fólk með augnlinsur.

Eftir að ameríski lagabálkurinn sem um þetta fjallar var settur hefur margt nýtt komið í ljós varðandi skaðsemi óbeinna reykinga, m. a. að því er varðar varanlegar skemmdir á lungnavef og aukna áhættu á lungnakrabbameini. Svo segir í athugasemdum með frv.

Þegar þetta liggur fyrir má hv. þdm. vera ljóst hvað ég á við þegar ég tala um hinn hlutlausa aðila, þann aðila sem hvorki selur, dreifir eða neytir, en verður fyrir hinum skaðlegu áhrifum tóbaksreyks. Fólk þolir það misvel að dveljast við tóbaksreyk. Margir fá óþægindaertingu í slímhúð í augum og nefi o. s. frv. Fólk sem er með ofnæmi og astma þolir óbeinar reykingar sérstaklega illa. Það er viðurkennd staðreynd á síðustu árum að mengað loftslag í iðnríkjum, þ. á m. Íslandi, hefur haft gífurleg áhrif á alla ofnæmissjúkdóma, sérstaklega þá sem ég hef þegar nefnt.

Mikla athygli vakti niðurstaða sænsks tryggingadómstóls þegar hann úrskurðaði að lungnakrabbamein sem leiddi 55 ára konu til dauða hefði orsakast af óbeinum reykingum á vinnustað, en hún hafði aldrei reykt sjálf. Þetta er m. a. það sem hafa ber í huga þegar talað er um rétt þeirra sem ekki reykja til að sleppa við að anda að sér tóbaksreyk. Það á að vera höfuðregla að ekki sé reykt á vinnustöðum, matsölum, fundarsölum, í almenningsfarartækjum, inni í húsakynnum þar sem margt fólk safnast saman.

Það er því ekki aðeins fyrir okkur heldur fyrir alla aðra full ástæða til að leita markvisst að leiðum til verndar gegn óbeinum reykingum, enda hefur áhugi bæði leikra og lærðra farið vaxandi í þessu sambandi. Ég tel sjálfur að það sé kurteisisatriði gagnvart náunganum, gagnvart meðstarfsmanninum, að tillit sé tekið til þess að hann vill ekki neyta tóbaksreykinga beint eða óbeint því hann telur það skaðlegt fyrir sína heilsu. Þeir sem eru háðir þessari nautn verða að taka þetta til greina.

Ég ætla ekki, herra forseti, að rekja hér þær tölfræðilegu rannsóknir, sem hafa verið birtar og m. a. má lesa í grg. með frv. sem við erum að ræða, hvorki okkar eigin lækna og vísindamanna eða annarra þjóða, um þau gífurlegu fjárútlát sem við verðum að láta af hendi til lækninga vegna afleiðinga tóbaksreykinga. Að vísu verður að viðurkenna að oft er þetta samfara öðrum ástæðum en öllum sem um málin fjalla og vit hafa á ber saman um að sjúkdómar svo sem lungnakrabbi og kransæðasjúkdómar yrðu fátíðari ef reykingar yrðu aflagðar. Það er líka ljóst að hættan á þessum sjúkdómum og reyndar fleiri sjúkdómum, þ. á m. sjúkdómum í lungum svo sem bronkítis og eins lungnakrabba, eykst því yngri sem menn byrja reykingar og því lengur sem menn reykja.

Er þá komið að því sem er eitt grundvallaratriði í þessu frv., grundvöllurinn að tóbaksvörnum, þ. e. að ungt fólk fái svo rækilega fræðslu um áhrif reykinga að þorra þess takist að sneiða hjá þeim í tæka tíð. Grundvöllurinn hlýtur að vera fræðsla í skólakerfinu. Því er það sem íslensk kennarastétt á að vera vel í stakk búin að gegna því hlutverki, fái hún þjálfun til þess.

Það er okkar hér á löggjafarþinginu að bæta úr og leggja grunn að því sem koma skal í aukinni fræðslu, fyrirbyggjandi vörn, stuðningi við fræðslu um það sem við þurfum að varast og um leið stuðning við þau samtök sem berjast gegn þeim vágesti sem fylgir í kjölfar tóbaksnotkunar beint og óbeint. Í þessu frv. er fjallað um fræðsluþáttinn. Við í nefndinni höfum reynt að gæta þess að hlutlausi aðilinn, þriðji aðilinn sem ég hef svo nefnt, verði verndaður fyrir áhrifum tóbaksreykinga.

Ég mun nú fara yfir þær allmörgu brtt. sem heilbr.og trn. hv. deildar hefur lagt til að verði gerðar á frv. Í 1. gr. er lögð til sú breyting að í stað orðsins „tóbaksneyslu“ komi: tóbaksreyks. Er það í samræmi við þær skoðanir sem ég hef þegar sett fram í máli mínu.

Við 5. gr. er lögð til sú breyting að í stað „tóbaksvarnaráð“ og reyndar hvarvetna í frv. á eftir komi: tóbaksvarnanefnd. Þetta er tilkomið vegna þess að sú skoðun kom fram í nefndinni að ráðsnafnið væri yfirborðskennt og umsagnaraðilar bentu á að það nafn kallaði frekar á aukið „býrókratí“ í kringum þetta starf. Enn fremur var bent á að ef sú skoðun yrði ofan á á næstu árum að sameina bæri þetta tóbaksvarnastarf Hollustuvernd ríkisins yrði auðveldara að ráða við að flytja eina nefnd inn undir Hollustuverndina í stað þess að flytja sjálfstætt ráð sem teldi heppilegra fyrir sitt starf að vera sjálfstæður aðili. Með þessari nafngift er heilbr.- og trn. að benda, þótt óbeint sé, á þann möguleika að þetta starf geti að fenginni reynslu verið skipulagt á annan hátt í framtíðinni en lagt er til í þessu frv.

Við 5. gr. eru gerðar fleiri brtt. Í 1. tölul. 2. mgr. er bætt inn í þá upptalningu sem þar er hverjum tóbaksvarnanefnd eigi að verða til aðstoðar. Er bætt við þá upptalningu Vinnueftirliti ríkisins en heilbrigðisnefndir teknar út því að þær eru að sjálfsögðu ekki annað en tvítalning þegar Hollustuverndar ríkisins er getið sem eins aðilans. Breytingin við 5. mgr. 5. gr. er eðlileg í framhaldi af fyrri brtt. en þar er bætt inn Vinnueftirliti ríkisins.

Við 6. gr. er breyting gerð í samræmi við þá skoðun okkar að óþarft væri að hafa umboðsmenn í upptalningu þeirra sem standa eiga straum af kostnaði við merkingar skv. ákvæðum þessarar greinar. Við teljum að þeir munu ekki greiða þennan kostnað. Þessi kostnaður mun í raun alltaf koma fram á verði vörunnar frá tóbaksframleiðendum eða frá heildsala hans. Við höfum fyrir því vitneskju frá öðrum Norðurlöndum, sem eru miklu stærri innflutningsaðilar en við að sjálfsögðu, að þeim hafi tekist að fá framleiðendur sjálfa, suma þeirra a. m. k. til að setja leiðbeiningar á pakkana á máli viðkomandi þjóðar. Við teljum það verða eitt af verkefnum tókbaksvarnanefndar, ef lög þessi verða samþykkt, að reyna að ná samstöðu með sambærilegum aðilum meðal annarra Norðurlandaþjóða um að við Íslendingar fáum að taka þátt í samningum sem um þetta eru gerðir við tóbaksframleiðendur.

7. gr. fjallar um auglýsingar á tóbaki og reykfærum og höfum við lagt fram nokkrar brtt. við hana. Við lagtærum orðalag í upphafi 2. málsl. í 1. mgr. varðandi auglýsingar í ritum sem eru gefin út utanlands af erlendum aðilum og erlendum tungumálum en meginbrtt. okkar er sú að fella burtu 4. og 5. mgr. Þær fjalla um atriði sem margir aðilar hafa bent á að yrðu lítt framkvæmanleg og gera meira ógagn en gagn, mundu valda andstöðu fólks við lögin í heild og framkvæmd þeirra. Hið sama má reyndar segja um 8. gr. Þar drögum við reyndar nokkuð úr. Orðinu heilbrigðisstofnanir sleppum við í þeirri upptalningu sem fjallar um stofnanir sem ekki má selja tóbak f. Undir heilbrigðisstofnanir falla t. d. dvalarheimili aldraðra, geðspítalar og meðferðarstofnanir áfengissjúklinga. Á öllum þessum stöðum er um að ræða fólk sem hefur takmarkaða hreyfigetu eins og t. d. íbúar á heimilum aldraðra. Tóbaksreykingar geta haft áhrif á viðkvæma meðferð sjúklinga og það verður að vera læknir sem segir til um hvort þá eigi að svipta tóbaki. Tóbakssvipting meðal margra slíkra sjúklinga gæti orsakað fráhvarf frá þeirri meðferð sem að er stefnt með viðkomandi aðila. Við teljum hins vegar eðlilegt að á sjúkrastofnunum þar sem verið er t. d. að vinna að afleiðingum tóbaksreykinga, t. d. á lungnadeildum, ofnæmisdeildum spítala, sé beinlínis rangt að selja tóbak. Þeir sem þurfa og vilja nota tóbak geta látið kaupa það fyrir sig og reykt á þeim stöðum þar sem það er leyft. Við urðum hins vegar sammála um að í skólum og stofnunum fyrir börn og unglinga sé eðlilegt að banna sölu á tóbaki með öllu.

Við 9. gr. leggjum við einnig til að gerðar verði breytingar, enda ákvæði hennar meðal þeirra sem mikilli gagnrýni hafa valdið. Nefndin varð sammála um að umorða 1. mgr. 9. gr. og hljóðar sú brtt. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Tóbaksreykingar eru óheimilar í þeim hluta af húsnæði stofnana, fyrirtækja og annarra sem almenningur leitar aðgangs í sambandi við afgreiðslu eða þjónustu sem þessir aðilar veita. Þetta gildir þó ekki um veitinga-og skemmtistaði. Þó skulu þeir á hverjum tíma hafa afmarkaðan fjölda veitingaborða fyrir gesti sína sem séu sérstaklega merkt að við þau séu tóbaksreykingar bannaðar.“

Fyrri hluti þessarar málsgr. er til að draga úr að skaðleg áhrif tóbaksreykinga nái til hins saklausa í hópnum, að óbeinar reykingar valdi skaðlegum áhrifum á svæðum og stöðum sem almenningur þarf og leitar aðgangs að í sambandi við þjónustu. Okkur þykir þetta eðlilegt með hliðsjón af því sem áður hefur verið sagt að sú krafa sé gerð til þeirra sem reykja að þeir hafi hemil á þessari nautn sinni rétt á meðan þeir bíða afgreiðslu á slíkum stað. Við töldum okkur ekki fært að ganga lengra í sambandi við veitinga- og skemmtistaði en gert er með brtt. þessari, þ. e. að hafa afmarkaðan fjölda veitingaborða fyrir gesti sem sérstaklega eru merkt að við þau séu tóbaksreykingar bannaðar. Margir draga í efa þýðingu þessa ákvæðis. Við, sem til þekkjum í nágrannalöndum okkar þar sem þetta hefur verið reynt, vitum hins vegar hið gagnstæða. Nú þykir víða orðið sjálfsagt þar sem mannamót eru erlendis að hafa þennan hátt á. Hv. þm. kunna sjálfsagt að meta það að á mörgum alþjóðaþingum og ráðstefnum þar sem vinnunefndir eru að starfi eru fundarmenn lausir við reykingar en gefin eru í staðinn fundarhlé til þess að viðkomandi aðilar, sem nautninni eru háðir, geti farið og notið hennar.

Við 9. gr. 2. málsgr. leggur n. til þá brtt. að í stað „tóbaksnotkunar“ komi tóbaksreykingar og reyndar er þetta gert á öðrum stað í frv. einnig. Þetta er í eðlilegu samræmi við það sem ég hefi tekið fram hér að framan. sannað er að tóbaksreykingar valdi skaða á þeim sem ekki neyta tóbaks.

Við 10. gr. komu fram athugasemdir frá mörgum aðilum varðandi rétt starfsmanna til þess að segja til um hvernig reykingar væru leyfðar í því húsnæði sem ætlað er starfsfólki sérstaklega. Leggjum við í n. til að aftan við orðið „heimilt“ í 2. málsgr. komi: samkvæmt till. starfsmannafundar eða starfsmannaráðs. Er þetta talið eðlilegt og er í samræmi við það sem nú gerist á vinnustöðum atmennt.

Samkvæmt 11. gr. er forráðamönnum húsnæðis, sem almenningur hefur aðgang að en fellur ekki undir ákvæði 9. og 10. gr., heimilað að ákveða sjálfir takmörkun reykinga í húsnæðinu. En það á að láta það koma greinilega í ljós á staðnum og jafnframt að tilkynna það heilbrigðisnefnd eða Vinnueftirliti ríkisins eftir því sem við á skv. 1. málsgr. 17. gr. og er þá m. a. vitnað til ákvæða um starfsmannaaðstöðu. Slíkum ákvæðum hefur í raun alltaf verið beitt og hefur enginn haft við að athuga að forráðamenn húsnæðis hafi bannað tóbaksreykingar þar þegar það hefur átt við.

Um 13. gr. hafa orðið deilur og hefur sitt sýnst hverjum. Nefndin er þó sammála um að sett verði í lögin bann við reykingum í farþegarými almenningsfarartækja sem rekin eru með gjaldtöku. Undir þetta munu að sjálfsögðu falla bæði langferðabifreiðar og farþegaflugvélar, þó með þeirri undantekningu sem segir í 2. málsgr. Þegar haft er í huga að farþegabifreiðar á langleiðum stoppa yfirleitt með klukkutíma millibili sér n. ekki ástæðu til að valda þeim sem ekki neyta tóbaks þeim óþægindum sem tóbaksreykingar hafa í för með sér. Sama er um flugvélar í innanlandsflugi, en lengsta farþegaflug er um klukkustund í innanlandsflugi. Lengi hafa reykingar verið bannaðar í hinum minni farþegaflugvélum og sér n. ekki ástæðu til annars en að láta sömu reglur gilda fyrir allar flugvélar í innanlandsflugi. Undantekning frá þessu er gerð með farþegaflugvélar í utanlandsflugi, en þar er tekið fram að forráðamönnum flugvéla sé leyft að leyfa reykingar í hluta farþegarýmis í almennu flugi milli landa en jafnframt tekið fram að þess skuli ávallt gætt að óþægindi skapist ekki fyrir þá sem ekki reykja. Er þetta í raun sú regla sem gilt hefur í millilandaflugi okkar um margra ára skeið.

Þá leggur n. til að á eftir þessari málsgr. komi ný málsgr. sem fjalli um skip okkar, bæði farþegaskip, verslunarskip og önnur. Hér um svo margþætta starfsemi að ræða og flókið mál að það verður að vinna í samráði við þann aðila sem best þekkir til um skip og búnað þeirra hér á landi og setur m. a. reglur um öryggi þeirra, þ. e. Siglingamálastofnun ríkisins. Því leggur n. til að sett verði sérreglugerð um skip. Þetta er ekki óeðlilegt þegar þess er gætt að verið er að tala um skip sem bæði er vinnustaður og heimili og jafnframt nokkur þeirra með rými fyrir farþega sem greiða fyrir fargjald og falla því undir 1. málsgr. þessarar sömu greinar.

Er þá komið að 15. gr. frv. og brtt. sem n. flytur við hana. Hún hefur valdið hvað mestum umr. innan n. Við leggjum til í n. að varið verði 2% af brúttósölu tóbaks til tóbaksvarnastarfs. Þetta ákvæði mun að sjálfsögðu stangast á við skoðanir þeirra manna sem telja rangt í sambandi við fjárlög ríkisins að vera með markaða tekjustofna. Nú þekkjum við hins vegar mörg dæmi um slíkt.

Ef við rifjum upp sögu tóbaksvarna á Íslandi leyfi ég mér að minna á að fyrstu lagaákvæði um tóbaksvarnir, þ. e. auglýsingabannið, var sett árið 1967. Þegar opinberar tóbaksvarnir hófust árið 1971 var ákveðið í lögum um verslun ríkisins með áfengi, tóbak o. fl. að ráðstafa 2% af brúttótekjum vegna sölu tóbaks í landinu til þess að vara við tóbaksreykingum en aðvaranir á sígarettupökkum voru lagðar niður sem höfðu þó verið ákveðnar með lögum allt frá 1969.

Í kjölfar þessa ákvæðis má segja að unnið hafi verið af miklum dugnaði að tóbaksvörnum allt fram á síðustu ár. 1977 var lagt fram frv. til l. um ráðstafanir til þess að draga úr tóbaksreykingum og varð það frv. að lögum þá um vorið, lög nr. 27. Með þessum lögum var ákvæðið frá 1971 um 2% af brúttótekjum ríkisins af tóbaksölu til tóbaksvarna fellt burtu. Í stað þess var sú breyting gerð á að það skyldi ákveðið á fjárlögum hvert ár hve miklu fé ætti að verja í þessu skyni. Enginn vafi var á því að þeir sem stóðu að málum þá ætluðu sér að stórauka fjárframlögin til þessara mála eins og kom í ljós síðari hluta ársins 1977 þegar frv. til fjárlaga fyrir árið 1978 var lagt fram. En því miður var þeirri stefnu ekki haldið lengi.

Árið 1980 voru lagðar 27 millj. kr. til tóbaksvarna og vantaði 13 millj. kr. upp á að framlagið svaraði til 2% reglunnar hefði hún verið áfram í lögum, hvað þá að um aukningu væri að ræða. Þetta hefur þýtt eftir því sem árin liðu að enn hefur dregið úr þessum fjárframlögum til tóbaksvarna. Hér er að sjálfsögðu um tvískinnung að ræða, enda var það alls ekki ætlan Alþingis með samþykkt laganna frá 1977.

Ég lýsti því yfir á fundum í heilbr.- og trn. að ég sæi ekki ástæðu til þess að halda áfram mikilli vinnu við þetta frv. ef það væri gert af sýndarmennskunni einni saman. Ég skýrði hæstv. heilbr.- og trmrh. frá þessu einnig og féllst hann á skoðanir mínir og í raun öll nefndin. Hins vegar munu einhverjir þingflokkar hafa tekið afstöðu til markaðra tekjustofna og eru þess vegna neikvæðir gagnvart þessu ákvæði. Það er þannig ástatt nú í sambandi við þá sem að þessum málum vinna að þeir gera það til þess að verða við persónulegum óskum hæstv. ráðh. en voru hættir og munu hætta ef ekki verður gerð breyting hér á.

Til þess að skýra nokkuð um hvaða upphæðir hér er að ræða má ætla skv. upplýsingum frá ÁTVR að brúttósala tóbaks verði um 1150 millj. kr. á árinu í ár. Ef þetta gjald verður tekið upp, 2% af brúttósölu að meðtöldum söluskatti, mun verða hér um að ræða upphæð sem nemur 2.3 millj. kr. Þetta mun nema um 9 aura hækkun á hvern sígarettupakka og samsvarandi á annað tóbak. Fjárframlagið til tóbaksvarna í ár, 500 þús. kr., er hins vegar um 2 aurar á hvern sígarettupakka og samsvarandi á annað tóbak.

Í frv. er lagt til að lögin öðlist gildi 1. jan. 1985 ef samþykkt verða. Því mun fjvn. og hæstv. fjmrh. geta gert sér grein fyrir nauðsynlegri verðlagningu á tóbaki ef þessi brtt. okkar verður samþykkt. En ég hef ekki breytt skoðun minni á því að ef þessi brtt. verður felld sýnist mér sú vinna, sem hefur verið lögð í þetta frv. og reyndar í alla endurskoðunina, vera unnin fyrir gýg því að ekkert verður gert í þessum málum öðruvísi en að fjármunir séu til staðar. Við höfum því miður þá reynslu af fjárveitingu til þessara mála sem raun ber vitni um allt frá árinu 1979.

Um markaða tekjustofna vil ég taka fram persónulega að ég tel að þeir eigi fullan rétt á sér þegar þeim er varið til góðgerðarmála og menningarmála, að ég tali nú ekki um ef slíkar fjárveitingar skapa og stuðla að aukinni fjáröflun og auknu starfi til hinna sömu mála sem máske eru leyst af hendi að hluta af sjálfboðaliðum. Ég tel einnig að það séu tveir málaflokkar sem eigi skilyrðislaust að fá hluta af tekjum sem verða til af sölu þeirra til þess að þær verði nýttar til að vinna gegn afleiðingum af neyslu þessara sömu efna. Á ég hér að sjálfsögðu við alkóhól og nikótín. Þetta tel ég rétt eðli málsins samkvæmt en mun ekki fara nánar út í það nema sérstakt tilefni gefist til.

Við VI. kafla lagana sem fjallar um eftirlit og viðurlög, eru lagðar til brtt. frá því sem er í frv. Í brtt. heilbr.- og trn. er lagt til að ásamt Hollustuvernd ríkisins sé Vinnueftirlit ríkisins tekið inn til eftirlits og ráðlegginga þar sem það á við. Nefndin hefur orðið sammála að leggja til að fyrst þessar tvær stofnanir ríkisins eru orðnar aðilar að málinu gildi þau ákvæði laga sem Alþingi hefur sett um eftirlit og viðurlög gagnvart brotum við lögum um Hollustuvernd og Vinnueftirlit ríkisins. Það er því eðlilegt að þessi ákvæði nái yfir lög um tóbaksvarnir ef Alþingi samþykkir þau. Í samræmi við þessa skoðun okkar er lagt til að 17. gr. orðist eins og segir á þskj. sem brtt. eru birtar á.

Að lokum leggur n. til breytingu á 20. gr. 2. mgr. Við leggjum til að orðin „með aðstoð lögreglu ef með þarf“ falli brott og eins 3. mgr. Er þetta gert með hliðsjón af því sem hér að framan segir um heilbrigðisnefndir á vegum Hollustuverndar ríkisins og Vinnueftirlits ríkisins.

Ég hef, herra forseti, farið yfir þær brtt. sem heilbr.og trn. leggur til að gerðar verði á frv. En ég vil áður en ég lýk máli mínu benda á þá ályktun og áskorun sem hefur nýlega borist til Alþingis frá aðalfundi Krabbameinsfélags Reykjavíkur og hefur verið send þm. Ég vil enn fremur, herra forseti, í lok ræðu minnar benda á áskorun frá fundi héraðslækna með fulltrúum heilbr.og trmrh. og landlæknisembættinu sem haldinn var í Reykjavík hinn 9. og 10. apríl s. l. Í báðum þessum ályktunum kemur fram áskorun um að samþykkja efnislega frv. um tóbaksvarnir og jafnframt að Alþingi Íslendinga útvegi og marki tekjustofn fyrir þetta starf þannig að starfið verði unnið á eðlilegan hátt.

Ég vænti þess, herra forseti, að þessar skýringar, sem ég hef gefið með brtt. okkar, nægi og ég veit að meðnm. mínir munu þá bæta um ef þar skortir á.