13.10.1983
Sameinað þing: 3. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það var nú svo með hæstv. iðnrh. að meðan hann var forseti í Nd. gætti hann þess jafnan að hafa almennar þingreglur í heiðri og stóð sig iðulega mjög vel í þeim efnum, eins og ég gat um áðan. Hins vegar hefur honum bersýnilega farið aftur í sumar og m.a. hefur hann gleymt þessari setningu í 36. gr. þingskapa Alþingis:

„Aðrir mega ekki tala oftar en tvisvar. Þó er jafnan heimilt að gera stutta athugasemd um atkvgr., um gæslu þingskapa og til þess að bera af sér sakir.“

Ég hafði talað tvisvar áður en hæstv. ráðh. sté hér í stólinn og hann veittist mjög freklega að mér í orðum sínum áðan. Ég tel það ekki sæmilegt, en ég hef ekki leyfi til þess að svara því núna. Mér gefast vafalaust tækifæri til þess síðar.

Það sem liggur fyrir eftir þessa umr. hér í dag er ósköp einfaldlega það, að Framsfl. hefur ákveðið að þing mætti ekki koma saman og Sjálfstfl. hefur selt sína sannfæringu fyrir sex ráðherrastóla.