07.05.1984
Neðri deild: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5450 í B-deild Alþingistíðinda. (4742)

178. mál, sala lagmetisiðju ríkisins á Siglufirði

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er sannarlega ankannalegt að fjalla hér um heimild fyrir ríkisstj. til að selja lagmetisiðjuna á Siglufirði, sem hún í raun seldi fyrir fjórum mánuðum. Það er auðvitað ekki í fyrsta sinn sem þannig eru höfð endaskipti á hlutunum, en í þessu máli er vandséð nauðsyn slíkra vinnubragða. Það er einsýnt að heimamenn á Siglufirði hafa litið haft með þetta mál að gera og fyrir liggur að stjórn lagmetisiðjunnar var ekki einu sinni spurð álits. Ég hlýt því að gagnrýna málsmeðferð.

Engu að síður styð ég þetta frv. og legg til að það verði samþykkt. Fyrir liggur að kaupendur fyrirtækisins hafa nú þegar lagt út mikið fé til uppbyggingar þess og reka það af fullum krafti, vonandi til hagsbóta fyrir alla aðila, heimamenn ekki síður en sjálfa sig. Við kvennalistakonur höfum enga ofsatrú á ríkisrekstri og ríkisreksturinn á Siglósíld var síður en svo með þeim hætti að í hann bæri að halda.