08.05.1984
Sameinað þing: 88. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5543 í B-deild Alþingistíðinda. (4796)

335. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Umr. um þá þáltill. sem á dagskrá er er að mörgu leyti athyglisverð. Eftir umr. að dæma mætti ætla að hv. alþm. hafi ekki mikið velt því fyrir sér hver atvinnumálastefna þjóðarinnar eigi að vera á næstu árum, hvernig við viljum að byggðin í landinu verði í næstu framtíð og hvernig við getum haft áhrif á þau mál. Menn tala hér í hv. deild út og suður án sýnilegra markmiða. Ég tel mikilvæga hagsmuni í húfi fyrir þjóðina í heild að sú stefna sé mörkuð að byggðin haldist með líku sniði og hún er nú.

Umr. hefur leitt í ljós að ótrúlega margir hv. alþm. virðast leggja mestallt traust sitt á orkufrekan iðnað þrátt fyrir þá reynslu sem fengist hefur og margs konar áhættu sem þeim atvinnurekstri fylgir. Menn voru bjartsýnir um afkomu Grundartangaverksmiðjunnar þegar ákvörðun var tekin um byggingu hennar. Hagnaðinn átti að nota til uppbyggingar annars staðar í landinu og óspart vitnað til ýmissa vitringa innlendra og erlendra um hvað sá atvinnurekstur sé álitlegur. Og enn eru teknar ákvarðanir um svipaðan atvinnurekstur og vitnað í og leitað ráða hjá sömu aðilum og um byggingu Grundartangaverksmiðjunnar þrátt fyrir reynsluna.

Hollt væri fyrir hv. alþm. að lesa umr. sem fram fóru á Alþingi er ákvörðun var tekin um byggingu Grundartangaverksmiðjunnar.

En hver er reynslan? Um síðustu áramót var rekstrarhalli þar orðinn rúmar 1200 millj. og framkvæmdastjóri verksmiðjunnar taldi allt útlit fyrir 20–40 millj. norskra kr. halla á árinu 1984. Það getur vel verið að mönnum finnist vera bjart yfir slíkum rekstri en ég get ekki tekið undir það.

Varðandi mengunarhættu tel ég að enga tryggingu sé hægt að gefa. Í því sambandi má benda á t. d. að gerð var breyting á álverksmiðjunni í Straumsvík sem átti að tryggja mönnum að ekki væri nein mengunarhætta eftir þá breytingu. Reynslan er ólygnust. Hún var sú að eftir breytinguna fóru mengunarmörkin yfir hættumörk. Þó að menn fái sérfræðinga, hvaðan sem þeir koma í þessu efni, hef ég a. m. k. þær upplýsingar að hægt sé að fá ýmsa sérfræðinga ef þeim er vel borgað til þess að gefa jákvæðar skýrslur um málið. Ég treysti a. m. k. engu í því efni miðað við þá reynslu sem við höfum.

Varðandi Grundartangaverksmiðjuna vil ég benda hv. þm. á að kynna sér í hvaða sérfræðinga var vitnað þegar þessi mál voru í umfjöllun fyrir einum 10 árum og hver reynslan hefur orðið. Ég man ekki betur en talað væri um að byggja upp atvinnulíf á Íslandi með gróðanum af þessari verksmiðju. Það verður víst lítið byggt fyrir þessar 1200 millj. sem tapið hefur orðið.

Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv: þm. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur áðan að bent hefur verið á að hið háa orkuverð í sumum löndum væri e. t. v. til að losna við ákveðin fyrirtæki burt vegna þeirrar mengunar sem er í þessum löndum. Manni er líka sagt að skógarnir í Mið-Evrópu séu víða illa farnir og jafnvel að deyja af mengun. Þá er ekki ólíklegt, að þessar þjóðir vilji losna við þau fyrirtæki sem menga mest.

Nú er ég ekki að ræða um þessa verksmiðju á Reyðarfirði, heldur þau orð sem hafa verið látin hér falla. Hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson, formaður stóriðjunefndar, talaði um að sumir settu þetta þannig fram að menn vildu annaðhvort landbúnað, sjávarútveg eða iðnað og settu þetta hvað upp á móti öðru. Ég kannast ekki við þetta. En því getur hæstv. iðnrh. treyst að við framsóknarmenn munum vera tilbúnir að ræða skynsamlegar tillögur. En við viljum ekki flana að neinu.

Ég hef lagt töluverða vinnu í að afla mér upplýsinga hjá þeim mönnum sem best þekkja og ég ætla að halda því áfram því hér er mikið í húfi. Það vil ég segja við hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarsson, sem ég kann mjög vel við að starfa með, að ég var mjög óánægður með það sem kom fram hjá honum í hans máli, þ. e. við megum ekki taka við neinu sem að okkur er rétt sem getur skaðað náttúru landsins. Hvernig ætlar formaður stóriðjunefndar að fullvissa þjóðina um að þarna sé ekki hætta á ferðum?

En víða úti í löndum vilja menn nú losna við t. d. álverksmiðjur og þess háttar verksmiðjur. Þessi stóriðja er eiginlega á fallandi fæti, þeir vilja losna við hana. Þeir vilja nýta sína orku á öðrum sviðum. Það er komið að því að þeir þurfi að endurbyggja margar af þessum verksmiðjum og mengunarvandamálið er það mikið á öllum sviðum að þeir vilja losna við það sem verst er. (GGS: Hver er mengunin frá járnblendinu í Hvalfirði?) Ég er ekki dómbær á það, hv. þm. Gunnar Schram. En við sjáum að það er mengun af verksmiðjunni í Straumsvík þrátt fyrir það sem þar hefur verið gert til að koma í veg fyrir mengun. Heilbrigðiseftirlit ríkisins hefur skoðað þessi mál og fellt um það sinn dóm. Við hljótum þrátt fyrir frómar óskir að taka meira mark á reynslunni. A. m. k. geri ég það.