09.05.1984
Neðri deild: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5580 í B-deild Alþingistíðinda. (4865)

154. mál, stjórnarskipunarlög

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég vill eindregið mælast til þess við hæstv. forseta að hæstv. forsrh. sé viðstaddur þessa umr. (Forseti: Ég mun gera reka að því að hæstv. forsrh. verði hér í salnum. Ég vil geta þess að ég hef haft þær spurnir af hæstv. forsrh. að hann hafi verið kvaddur í símann og sé að ljúka símtali. Ég vona að hv. ræðumaður hafi biðlund á meðan.) Að sjálfsögðu, herra forseti. (Forseti: Hæstv. forsrh. gengur í salinn.) Já, herra forseti, ég tel nauðsynlegt að hæstv. forsrh. sé viðstaddur þá umr. sem hér fer fram um þetta dagskrármál. Hann mælti fyrir því hér ekki alls fyrir löngu.

Um þetta mál urðu á síðasta þingi allmiklar umr. Talsvert mikill meiri hluti þáverandi hv. þm. var fylgjandi þessu máli. Ég er nærri því viss um að þó nokkuð margir hv. þm. sem teljast munu til dreifbýliskjördæma hafi glapist á það að vera fylgismenn frv. í trausti þess að við þá yfirlýsingu, sem því fylgdi á sínum tíma og nú er prentuð sem fskj. með frv. í nál., yrði staðið. Nú er það ljóst að a. m. k. enn sem komið er hefur ekkert það gerst sem gefur tilefni til að ætla að við þessa yfirlýsingu formanna stjórnmálaflokkanna fjögurra, sem prentuð var í fskj. með frv. á síðasta Alþingi, verði staðið.

Ég vil því mjög gjarnan, eins og ég hef áður gert svo og ýmsir aðrir sem tekið hafa þátt í umr. um þetta mál og mál sem tengjast því beint og óbeint, spyrja hæstv. forsrh. — og ekki bara hæstv. forsrh. heldur og hina formenn flokkanna þriggja sem að yfirlýsingunni stóðu — hvað líði vinnu í þá átt að staðið verði við gefnar yfirlýsingar sem gerð var grein fyrir við umr. þessa máls á síðasta Alþingi. Mér vitanlega hefur ekkert gerst í þessum efnum.

Ég vil sérstaklega spyrja hæstv. forsrh. hvað líði störfum þeirrar n. sem mér er tjáð að hann hafi haft frumkvæði að að tilnefnd var af hálfu þingflokka fyrir nokkuð mörgum vikum til að vinna í því máli. Hann tilnefndi formann þingflokks okkar, hv. þm. Eið Guðnason, í þessa nefnd og ég spurðist fyrir um það síðast í gær hvað liði störfum hennar. Þá var mér tjáð að hún hefði ekki komið saman til fundar enn þó að nokkuð margar vikur séu liðnar síðan hæstv. forsrh. óskaði eftir því við þingflokka að þeir tilnefndu menn til að setja af stað vinnu í þessum efnum.

Þetta veldur því ásamt mörgu öðru að ég hef afskaplega litla trú á því að nokkur meining hafi fylgt þeirri yfirlýsingu sem getið var í grg. með frv. fyrst þegar það var lagt fram á síðasta þingi. Mér sýnist að eins og málin hafa þróast síðan sé beinlínis ætlun þeirra fjórmenninganna að svíkja þá yfirlýsingu sem gefin var. Ég beini þessu ekkert sérstaklega til hæstv. forsrh., ég beini þessu til allra formanna þeirra flokka sem yfirlýsinguna gáfu. Ég tel það vanvirðu við Alþingi, við kjósendur ef ekkert mark er takandi á yfirlýsingum sem gefnar eru í þskj. af formönnum stjórnmálaflokkanna í landinu. Eigi það eftir að koma fram er engin furða þó að álit á stjórnmálamönnum fari almennt minnkandi ef svo er komið að ekkert mark er takandi á gefnum fyrirheitum forustumanna stjórnmálaflokkanna sjálfra.

Ég geri raunar kröfu til þess, herra forseti, að þetta mál fari ekki lengra hér í umr. fyrr en fyrir liggur um það vitneskja hvað á að gera í sambandi við önnur óréttlætismál í þjóðfélaginu sem flokkast undir þá yfirlýsingu sem til er vitnað og fyrr en það liggur fyrir að leiðrétting á þeim málum verði samferða þessu frv. í gegnum þingið. Allt annað eru svik við þau fyrirheit sem gefin hafa verið.

Hér er ekki eingöngu við hæstv. ríkisstj. að sakast, hér er við þá formenn að sakast sem gáfu þessa yfirlýsingu í nafni stjórnmálaflokkanna. Það er ekki til of mikils ætlast þó að þeir fjórmenningar í krafti sinnar stöðu, í krafti sinna embætta komi því til leiðar að staðið verði við þessi fyrirheit og ákvarðanir sem byggja má á verði teknar til að leiðrétta það margþætta misrétti sem viðgengst í landinu, en gefin voru fyrirheit um að það yrði gert samhliða því sem þetta mál yrði rekið í gegnum þingið.

Ég hef ekki heldur trú á því að það sé talið brýnasta verkefnið í íslensku þjóðfélagi nú í dag eins og fjármál þjóðarinnar eru að fjölga þm. Þetta frv. er um það að fjölga þm. um þrjá. Ég tel önnur brýnni og nauðsynlegri verkefni í íslensku þjóðlífi í dag en að fjölga þm. frá því sem er. Það kostar líka peninga.

Þetta frv. ásamt kosningalagafrv. er fyrst og fremst lagt fram og rekið áfram vegna offors tiltölulega fárra stjórnmálamanna hér á suðvesturhorni landsins. Talað er í þeim efnum um misvægi atkvæða eftir því hvar menn eru búsettir á landinu. Menn minnast ekki á misvægið í réttlætinu eftir því hvar menn eru búsettir á landinu. Því virðist vera gleymt í þessari umr. allri. Sumir ganga m. a. s. svo langt að tala um skort á mannréttindum hér á suðvesturhorni landsins vegna þess hvernig kosningafyrirkomulagið er nú.

Það er hægt að flokka miklu fleira undir mannréttindi en kosningarréttinn. Það er auðvitað krafa hvers og eins Íslendings að fá að búa við sambærileg kjör, sambærilegar aðstæður og þær sem bestar gerast hér á landi. Því fer víðs fjarri í okkar þjóðfélagi að svo sé. Hægt er að nefna ótal málaflokka sem eru þess eðlis að landsbyggðarfólk er nánast meðhöndlað sem annars eða þriðja flokks þjóðfélagsþegnar af hálfu stjórnvalda miðað við það sem gerist hér á þessu svæði. Þetta er ekki líðandi.

Ég hef margoft getið um það hér á Alþingi og fleiri hv. þm. á það minnt og gert til þess kröfu að t. d. hið gífurlega misrétti sem landsmenn búa við í sambandi við upphitun á íbúðarhúsnæði, sem er nú hvað mest stingandi í augu og verið hefur um nokkuð langt skeið, sé leiðrétt. Það er einn sá málaflokkur sem mundi flokkast undir annan lið þeirrar yfirlýsingar sem getið var í grg. með þessu frv. þegar það var lagt fram á síðasta þingi og er prentað sem fskj. með nál. á þskj. 425:

„Að beita sér fyrir aukinni valddreifingu og virkara lýðræði samhliða afgreiðslu nýrrar stjórnarskrár. M. a. fái sveitarfélög meira sjálfsforræði og þannig verði völd og áhrif landsmanna allra í eigin málum aukin, óháð búsetu þeirra. Jafnframt munu þingflokkarnir beita sér fyrir sérstökum aðgerðum til þess að jafna félagslega og efnalega aðstöðu manna þar sem mismununar vegna búsetu gætir helst.“

Þetta er það fyrirheit sem gefið var. Og megi ekki trúa því og treysta að forustumenn, formenn stjórnmálahreyfinganna í landinu standi við slíka yfirlýsingu, útgefna í þskj., hvers má þá vænta af öðrum? Mér finnst að bæði þessa tilteknu formenn stjórnmálaflokkanna og stjórnmálaflokkana sem heild setji niður ef svíkja á þessi gefnu fyrirheit með þeim hætti sem mér sýnist að nú eigi að gera, og er þó líklega ekki af umtali að heyra úr háum söðli að detta.

Bent hefur verið á ótalmarga þætti sem eru þess eðlis að gífurlegs óréttlætis gætir annars vegar milli íbúa þessa svæðis sem við nú erum á og hinna dreifðu byggða víðs vegar úti um land. Umfram það sem ég gat um áðan, kostnaðinn við upphitunina, sem er margfaldur t. d. á Vestfjörðum miðað við það sem hér er á Reykjavíkursvæðinu, nægir að nefna einangrunina sem þetta fólk býr við stóran hluta úr árinu. Það nægir að nefna þá takmörkuðu menntunarmöguleika sem íbúar dreifbýlisins hafa samanborið við það sem býðst á þessu svæði. Og það nægir líka að nefna þá viðbót sem dreifbýlisfólk þarf að borga í hækkuðu vöruverði vegna flutningskostnaðar og vörugjalds. Allt eru þetta liðir sem samanlagðir valda því að íbúar úti á landi eru miklu, miklu verr settir kjaralega séð en íbúar á því svæði sem hér er verið um að ræða.

Auk þess er svo rétt að benda á þá staðreynd að öll stjórnsýsla ríkisins og Alþingi sjálft er staðsett hér á þessu svæði. Ég er handviss um að ef t. d. Vestfirðingar ættu þess kost að hafa Alþingi í Vestfjarðakjördæmi, stjórnsýslumiðstöðvarnar þar, þá gætu þeir eftirlátið Reykvíkingum og Reyknesingum sína þm. Það er ekkert lítið vald sem íbúar þessa svæðis, sem þetta bákn allt hafa nánast í hendi sinni, hafa til áhrifa á gjörðir og framvindu mála. Ég hef haldið því fram og held því fram enn að miðað við kringumstæður mætti frekar fækka þm. t. d. í Reykjavík og Reykjanesi en að fjölga þeim. (Gripið fram í.) Nei, ég var að segja, hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, og ég hélt að ég talaði nú svo hátt og skýrt að þm. heyrðu væru þeir vakandi á annað borð, að ef Vestfirðingar byggju við þær kringumstæður varðandi stjórnsýsluna í landinu og Alþingi að hafa þessar stofnanir nánast við bæjardyrnar, þá þyrftu þeir ekki á mörgum þm. að halda. Það er munurinn. Það eru ekki litlir fjármunir eða lítil vinna sem því er samfara fyrir sveitarfélög, sveitar- og bæjarstjórnarmenn utan af landsbyggðinni að þurfa að dvelja langdvölum hér í Reykjavík til að reyna að hafa áhrif á þróun mála sem skipta miklu fyrir þeirra umbjóðendur. Þeir þurfa ekki að eyða miklu fé í slíkt t. d. borgarfulltrúar í Reykjavík og bæjarstjórnarmenn hér í nágrenninu, samanborið við það sem sveitarstjórnar- og bæjarstjórnarmenn utan af landi þurfa að kosta til vegna þessa þáttar sem er auðvitað borgaður af íbúunum á viðkomandi svæðum.

Fyrir nú utan hitt — og því ætti hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson að taka eftir sem formaður Verkamannasambands Íslands — hvað félagsmenn í aðildarfélögum Verkamannasambands Íslands af svæðum eins og Vestfjörðum og Austfjörðum búa við verri lífskjör vegna þess hve þessir kostnaðarþættir margir hverjir eru gífurlega þungir á heimilunum. Hvað heldur t. d. hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson að félagsmenn í Dagsbrún mundu segja ef þeir fengju mánaðarlega reikning vegna upphitunar á íbúðarhúsnæði sínu upp á 5–7 þús. kr.? Ég hygg að þeir teldu það, ef sú breyting yrði, einhverja mestu kjaraskerðingu sem þeir hefðu upplifað á langri ævi. Þetta er launafólki víðs vegar úti um land ætlað að búa við. Það hefur búið við þetta og virðist, eftir því er best verður séð, ætlað að búa við áfram. Þetta er eitt mesta óréttlætið sem nú viðgengst að því er þennan þátt varðar. Þetta er meiri mannréttindaskortur en það misvægi atkvæða til áhrifa á Alþingi sjálft sem menn eru hér að tala um á þessu svæði. En á þetta virðist ekki vera hlustað.

Það er rétt að víkja að því í sambandi við þetta mál að um fjögurra mánaða skeið hefur hæstv. iðnrh. gengið með frv.-drög, í maganum líklega, um jöfnun og lækkun húshitunarkostnaðar. Það eru rúmir fjórir mánuðir síðan hæstv. iðnrh. gaf þá yfirlýsingu hér á Alþingi í umr. að strax í janúarmánuði mundi hann leggja fram frv. þess efnis að jafna og lækka húshitunarkostnað í landinu. Nú hefur þetta frv. loks séð dagsins ljós. Er það frv. þá í anda þeirrar yfirlýsingar sem formenn stjórnmálaflokka gáfu á sínum tíma og prentuð er hér með nál. sem fskj.? Ekki aldeilis. Það er engu líkara en að framlagning þess frv. gæti verið staðfesting á brbl., um hluti sem búið væri að gera í þeim efnum um nokkuð langan tíma.

Fulltrúi hæstv. iðnrh. á aðalfundi Orkubús Vestfjarða, sem haldinn var vestur í Hnífsdal um s. l. helgi, gaf þá yfirlýsingu þar, ég geri ráð fyrir í nafni hæstv. ráðh. sem fulltrúi hans, að efni þessa frv. hefði þegar náð fram að ganga. Það væri ekkert í þessu frv. sem kæmi til viðbótar því sem nú þegar væri fyrir hendi. Þetta gerist eftir 4 eða 5 mánaða meðgöngutíma að vísu. Það er ekki fulllangur meðgöngutími og kannske er það þess vegna sem þetta frv. er ekki burðugra en það er.

Kannske þykir hv. þm. einkennilegt að vera að blanda þessu saman við það umræðuefni sem hér er á dagskrá. En þetta er bara hluti af því máli. Þetta er hluti af því máli vegna þess að fólki á þessum svæðum var gefið fyrirheit um að þetta yrði lagfært. Og ég er handviss um að þó nokkuð margir hv. þm., sem léðu þessu máli lið sitt á síðasta þingi, hafa gert það vegna þess að þessi yfirlýsing fylgdi þó með og menn vildu trúa því og treysta að við hana yrði staðið. Ég bið hv. þm. enn að hugsa um það, að vísu eru þeir kannske ekki hér inni sem ættu að vera það fyrst og fremst, hér ættu a. m. k. að hlýða á allir formenn stjórnmálaflokkanna, sem gáfu yfirlýsinguna, en ég bið hv. þm. að hugsa um það gífurlega óréttlæti sem íbúar landsbyggðarsvæðanna mega þola, þeir sem búa við orkuokur að því er varðar upphitun eigin íbúða. Ég bið þm. að hugsa um það, að þeir verða að borga ríflega helming dagvinnutekna sinna á mánuði til að standa undir þessum þætti heimilishaldsins. Kannske mundi hv. þm. ekki muna um þennan lið af sínum launum, en hjá launafólki, sem einvörðungu hefur lágmarkslaun, og þó þau væru ríflega það, er það gífurlega stórt hlutfall sem það verður að leggja af sínum launum til þessa þáttar eins.

Ég efast mjög um það — það er ekki af illvilja sagt að hv. þm. almennt talað hafi gert sér grein fyrir því gífurlega ranglæti sem lagt er á þetta fólk. Ég er næstum því viss um að verkalýðspostularnir hér í Reykjavík, sem yfirleitt ráða nú ferðinni, hafa ekki gert sér grein fyrir því hversu gífurlega stór þáttur það er sem tekst af launum þessa fólks áður en það getur farið að leyfa sér einhverja aðra hluti sem hér er hægt að leyfa sér. Ég er handviss um að ef verkalýðshreyfingin sem heild tæki þetta mál upp á sína arma væri því betur borgið en nú er. En því miður hefur hún ekki fengist til þess, hvorki Alþýðusamband Íslands né Verkamannasamband Íslands, sem hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson er formaður fyrir. Menn ættu að gera sér grein fyrir þessum þáttum, ekki síst í þeirri gífurlegu kjaraskerðingu sem átt hefur sér stað á undanförnum mánuðum. Fólk á þessum svæðum undi þessu meðan það gat lagt svo til nótt við dag til að afla tekna fyrir þessum umframkostnaði. Nú er slíkt ekki fyrir hendi lengur. Atvinna hefur dregist saman. Það þykir gott á þeim svæðum þar sem dagvinnustundafjöldi næst, yfirvinna eða næturvinna er engin. Og launþegi sem einvörðungu hefur dagvinnutekjur af að lifa og býr á þessum svæðum. ég bið menn að hugsa um það hvar hann er settur fjárhagslega séð þegar meira en helmingur af laununum fer í þennan þátt einan.

Skv. nýjustu niðurstöðum og úttektum er talið að það fari rúmlega 12 vikur á ári bara til að vinna fyrir upphitunarkostnaðinum t. d. á Vestfjörðum. Þrír mánuðir á ári er það sem stjórnvöld ætla Vestfirðingum að vinna kauplaust til að geta borgað þennan þátt. 20– 30% af tekjunum á þessu svæði fara til að borga þennan eina þátt heimilishaldsins. Og eftir sem áður daufheyrast stjórnmálamenn, daufheyrast þeir sem geta breytt þessum málum ef vilji er fyrir hendi, þeir sem ráða ferðinni í íslenskum stjórnmálum, þeir sem meiri hlutann hafa, geta breytt þessu ef þeir vilja. Ég verð að segja það alveg eins og er að út af fyrir sig lagði ég ekki mikið upp úr þessari yfirlýsingu sem prentuð var með frv. þegar það var lagt fram og gat þess reyndar þá í umr. að oft áður hefðu verið gefnar álíka yfirlýsingar og jafnoft sviknar. Og mér sýnist því miður að eins ætli um þessa að fara. Það er a. m. k. ekki að sjá að á þessu þingi eða samferða þessu máli eigi neitt að gera til að rétta hlut þessa fólks.

Ég geri ráð fyrir því að það sé svo um fleiri þm. en mig, komi þeir út á þessi svæði, að fyrsta skammarorðið er einmitt um þennan þátt. Og staðreyndin er sú að nú þegar er fjöldi fólks búinn að auglýsa íbúðarhúsnæði sitt á þessu svæði til sölu vegna þess að það getur ekki staðið undir þessum kostnaði. Það er fyrst og fremst tvennt sem nú hrjáir það fólk sem í sjávarplássunum á þessum svæðum býr t. d. og þá raunar svæðin sem heild um leið. Það er sá samdráttur sem átt hefur sér stað í afla, kvótasetningin með þeim gífurlegu annmörkum sem kvótinn setur, og síðan sá gífurlegi kostnaður í heimilishaldinu sem upphitunarþátturinn er.

Nú þegar eru fólksflutningar farnir að eiga sér stað af þessum svæðum til þess svæðis sem við nú erum á. Og komi einhvern tíma að því að augu stjórnmálamanna, sem ferðinni ráða, opnist til þess að lagfæra þetta, þá verður erfiðara að stöðva þá skriðu, ég tala nú ekki um að snúa henni við, heldur en ef gripið er til aðgerða í tíma. Ég hef sagt það áður og segi enn: Það er ekkert til fyrirstöðu af minni hálfu að jafna hið margumtalaða misvægi atkvæða. En því aðeins að annað óréttlæti, annar ójöfnuður í landinu verði lagfærður um leið. Það er vanvirða af hálfu stjórnmálaforingja, hverju nafni sem nefnast, að gefa út falskar yfirlýsingar og fölsk plögg sem ekki er ætlað að standa við. Það verður eitt með mörgu til að rýra enn álit almennings á íslenskum stjórnmálaforingjum.

Ég vil, herra forseti, enn ítreka að ég geri kröfu til þess að þetta mál fari ekki lengra hér í Nd. fyrr en á borð þm. eru komin frv. í samræmi við þá yfirlýsingu sem formenn stjórnmálaflokkanna gáfu og prentuð eru hér í nál. sem þskj. með þessu frv., fyrr en komin eru á borð þm. frv. sem eiga að leiðrétta aðra hluti, og að þeim sé ætlað að fara líka í gegnum þingið á sama hátt og þessu frv. hér. Ég geri kröfu til þess og ég trúi ekki öðru en að hæstv. forseta þyki það eðlileg krafa í ljósi þess sem hér hefur verið vitnað til og skjalfest er. Og ég lýsi eftir því hjá hæstv. forsrh.: Hvað líður starfi þeirrar nefndar sem hann óskaði eftir tilnefningu í af hálfu þingflokkanna fyrir nokkrum vikum síðan, sem átti að vinna að því máli? Hefur hún eitthvað gert? Hversu mikið og hvað? Komi það í ljós, sem ég þykist vita, af eftirgrennstan minni í mínum eigin þingflokki, að nefndin hafi ekki einu sinni verið kölluð saman, þá sjá hv. þm. hver meining formanna stjórnmálaflokkanna hefur verið með þeirri yfirlýsingu sem gefin var.

Það verður kannske, herra forseti, margt fleira sagt og miklu lengri ræður fluttar um þetta mál ef á að þverskallast við því að koma hér fram með það sem lofað var á sínum tíma og menn höfðu byggt á og fólkið treysti að yrði gert.