10.05.1984
Sameinað þing: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5610 í B-deild Alþingistíðinda. (4911)

Um þingsköp

Egill Jónsson:

Herra forseti. Það var því síður eðlilegt hlutverk sem hv. þm. Eyjólfur Konráð lék í kringum nefndarstörf í Ed. Alþingis í morgun, þegar það er jafnframt vitað að þetta er hinn mætasti maður, sem er búinn að stýra 50 fundum í fjh.- og viðskn. Alþingis með að sjálfsögðu miklum sóma. Það hefur engin áhrif á mat mitt á vinnubrögðum þess þm. í kringum nefndarstörfin í morgun.

Á hinn bóginn fagna ég því að það skuli nú vera staðfest sem ég sagði í minni ræðu, hvernig þetta mál hefði verið unnið í landbn. Ed. Alþingis. Það skiptir ekki meginmáli, og auðvitað getur þar verið um hreint misminni að ræða og er ekkert innlegg í þetta mál, hvort við töluðum báðir við Eið Guðnason, ég og Eyjólfur Konráð, en Eyjólfur Konráð tók hins vegar að sér að fjalla um málið við Eið Guðnason. Hins vegar gerði ég það líka og hans svar var: Ég ætla að líta á málið fram yfir páska. En það breytir ekki því, að n. afgreiddi málið með þeim hætti að fela Eyjólfi Konráði að tala við Eið Guðnason um málið, og það er þýðingarmikið að menn átti sig á því hér, hver var niðurstaðan úr þeirri umr., sem við fengum boð um í Ed. Alþingis, að þeir kysu að láta þessi mál sitja óafgreidd í n. Þetta eru staðreyndir málsins.