10.05.1984
Sameinað þing: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5622 í B-deild Alþingistíðinda. (4924)

295. mál, útvarp frá Alþingi

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Efnislega er sú till. sem hér er til umr. athyglisverð. Það er ekkert óeðlilegt að menn varpi fram þeirri spurningu í Alþingi Íslendinga hvort rétt sé að útvarpa daglega umr. frá þinginu.

Það hafa ekki verið miklar umr. um þetta hjá okkur. Hins vegar hefur það verið allvíða annars staðar þar sem svipað skipulag eða hliðstætt gildir og hér. Það virðist svo að það séu nokkuð skiptar skoðanir um gildi þess að útvarpa daglega frá löggjafarsamkomu. Það virðist líka svo að það sé nokkuð mismunandi reynsla þar sem þetta hefur verið reynt.

Ég sagði: Þetta er athyglisvert mál. Ég tek undir ýmislegt af því sem síðasti ræðumaður, hv. 4. landsk. þm. sagði um mikilvægi þess að koma réttri mynd af umr. í þinginu beint til kjósenda eða almennings í landinu. Hins vegar er ég mér þess meðvitandi að þetta er mál sem við þurfum að athuga af nokkurri kostgæfni og án þess að rasað sé um ráð fram.

Ég vil vekja athygli á því að Alþingi samþykkti í des. s. l. að skipa sérstaka nefnd til að endurskoða lög um þingsköp Alþingis þar sem í eiga sæti forsetar Alþingis og einn fulltrúi frá hverjum þingflokkanna. Þessi nefnd er núna að störfum og ég vil láta það koma hér fram að nefndin mun að sjálfsögðu athuga þetta mál sem hér er til umr.

Ég ætla ekki að ræða hér efnislega um þetta mál. Það mætti halda langa ræðu um þetta mál efnislega. En ég ætla ekki að gera það. Ég ætla aðeins að víkja að því formlega. Hér er gert ráð fyrir að Alþingi samþykki þál. um að fela ríkisstj. að láta hefja beina útsendingu útvarps frá daglegum fundum Alþingis. Ég tel að þetta form sé ekki hið rétta form ef þoka á þessu máli áfram og í raun og veru óhæft. Í 58. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þingsköp sameinaðs Alþingis og beggja deilda þess skulu sett með lögum.“

Ekki er hægt að breyta þingsköpum nema með lögum. Það er ekki hægt með þál. Það er ekki heimilt skv. stjórnarskránni. Ef við ætlum að aðhafast eitthvað í þessu efni þarf að breyta lögum um þingsköp.

Þá er annað formsatriði sem ég vil víkja að. Í þessari þáltill. er gert ráð fyrir því að fela ríkisstj. að láta hefja beina útsendingu útvarps frá Alþingi. Þetta getur ekki staðist. Alþingi hefur skv. stjórnarskrá, svo að maður tali nú ekki um okkar þingvenju, eitt yfir þessum málum að segja, ekki ríkisstj. Menn verða að hafa það í huga og ekki síst þeir sem tala mikið um aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdavalds að í þessu efni verða að vera alveg greinileg skil. Það er Alþingi eitt sem kveður á um þetta. Það er Alþingi eitt sem framkvæmir eitthvað í þessu efni ef eitthvað verður framkvæmt.

Þetta eru meginformgallarnir á þessari till. sem hér er til umr. Ég vildi víkja að þeim og með tilvísun til þeirra leyfa mér að bera fram tillögu um svohljóðandi rökstudda dagskrá:

„Með því að

1. þingsköp kveða á um starfsreglur Alþingis

2. þingkjörin nefnd vinnur nú að endurskoðun laga um þingsköp og

3. Alþingi sér sjálft um framkvæmd þingskapa sinna, samþykkir Alþingi að taka fyrir næsta mál á dagskrá.“ Herra forseti. Ég afhendi hér með þessa tillögu um rökstudda dagskrá.