08.11.1983
Sameinað þing: 16. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

74. mál, fordæming á innrásinni í Grenada

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Sú þáltill. sem ég mæli hér fyrir er flutt af öllum þm. Alþfl. Hún er á þá leið að Alþingi álykti að kjósa 7 manna nefnd til þess að gera í samráði við sjómenn, útvegsmenn og vinnsluaðila tillögur um veiðileyfastjórn á fiskveiðum, þannig að full og hagkvæm nýting fáist á íslenskum fiskimiðum og hagstæðustu útgerðarstaðir fái að njóta sín. Það eigi þá að vera hlutverk nefndarinnar að gera ítarlega athugun á mismunandi fyrirkomulagi veiðileyfastjórnar og meta líklega valkosti í samráði við ofangreinda hagsmunaaðila í sjávarútvegi og aðra þá aðila sem nefndin telur rétt að kveðja til ráðuneytis. Nefndin skal síðan skila tillögum sínum og greinargerðum til Alþingis og samtaka sjómanna og útvegsmanna og fiskvinnsluaðila. Það er gert ráð fyrir að nefndinni sé heimilt að ráða til sín sérfræðiaðila eftir því sem þörf er talin á. Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

Það er megintilgangur þessarar till. að þegar verði hafist handa um ítarlega könnun á stjórnarfyrirkomulagi fiskveiða og þá einkum á kostum og göllum svonefndrar veiðileyfastjórnar með það að markmiði að ná sem hagkvæmastri nýtingu á íslenskum fiskimiðum.

Þessi till. var áður flutt á 105. löggjafarþingi, en komst þá ekki til umr.

Við höfðum það náttúrlega fyrir augunum hvernig til hefði tekist um fiskveiðistjórn hjá okkur á Íslandi og það blasir við með gleggri hætti nú einmitt þessa dagana heldur en kannske löngum áður. Við stöndum frammi fyrir miklum vanda að því er varðar stjórn fiskveiðanna, meiri vanda að líkindum en við höfum gert á undanförnum árum eða áratugum. Við hljótum að spyrja okkur að því, hvort hluti þess vanda liggi ekki í því hvernig til hafi tekist um stjórnun veiðanna og ég held að svarið sé tvímælalaust rétt.

Við Alþfl.-menn höfum oft flutt það mál hér á þingi og fluttum um það lagafrv., að nauðsyn bæri til að stefna að hagkvæmri stærð skipastólsins. Miðað við þær aðstæður sem verið höfðu að undanförnu, þá hefði átt að spyrna við fótum. T. d. bar þetta frv. okkar í sér að bannaður yrði innflutningur skipa um hríð og að endurnýjun magnviðbótar við skipastólinn væri minni en það sem brott félli á hverjum tíma.

Þessi till. hlaut ekki nægilega snemma náð fyrir augum annarra stjórnmálamanna, þeirra sem réðu landinu. Það var ekki fyrr en seint og um síðir að ákveðið var að stöðva innflutning á fiskiskipum og þá hafði fiskiskipastóllinn stækkað mjög verulega. Það sem var sérkennilegt í þeim efnum var þó það, að menn voru einmitt að þessu á sama tíma og það var að koma í ljós, að loðnuveiðiflotinn hafði ekki verkefni til loðnuveiða heldur þurfti þess vegna að sækja verkefni í botnfiskveiðar. Engu að síður fór það svo, að það litla svigrúm sem menn höfðu í rauninni til að beina þessum hluta skipastólsins í botnfiskveiðarnar var enn þrengt með frekari skipakaupum. Og það var farið fram af svo miklum krafti í þessu máli, að meira að segja sá hæstv. ráðh. sem með þennan málaflokk fór átti það til að gleyma því að hann hefði úthlutað 2–3 skipum. eins og kunnugt er af blaðafregnum.

Ég held að það hafi verið mikil ógæfa að svo langt var gengið í stækkun skipastólsins og ekki spyrnt við fótum fyrr. Núna er okkur sagt að það séu uppi tillögur um að veiða ekki nema 200 þús. tonn af þorski. Þetta er mjög lág tala. Til þess að menn átti sig aðeins á hvers konar viðfangsefni Alþingi og ríkisstj., og þá fyrst og fremst sjútvrh., standa frammi fyrir í þessum efnum ætla ég að minna á að þorskaflinn skiptist gjarnan til helminga milli bátaflotans og togaraflotans. Það eru þá 100 þús. tonn á bátaflotann og 100 þús. tonn á togaraflotann. Við erum líklega með um 100 togara, ég hugsa að það láti nokkuð nærri. Við getum a.m.k. notað það sem reiknitölu svo að auðvelt verði að deila. 100 þús. tonn á 100 togara eru 1000 tonn af þorski á togara. Veiðigeta þeirra er sjálfsagt um 4 þús. tonn og veitir ekki af til þess að standa undir rekstrinum. Þarna hafa menn að mínum dómi vandamálið í hnotskurn.

Við stöndum frammi fyrir því að þurfa e.t.v. að skera þetta niður svona smátt, að það verði einungis um 1000 tonn af þorski á hvern togara. Þetta vandamál mátti í rauninni sjá fyrir vegna þess að það hafa iðulega verið sveiflur í aflabrögðum við Ísland. Hverju sinni sem afli hefur farið um eða yfir 450 þús. tonn hafa menn upplifað það á eftir að lægð kæmi í aflann. Menn hafa oftekið sig í góðri trú, skulum við vona, síðan hafa menn þurft að upplifa það á eftir að þeir fengju aflabrest. Nú hjálpast sjálfsagt margt að, eins og nú árar hjá okkur. Sjórinn er orðinn langtum kaldari en áður og það er mikið áhyggjuefni. Dregið hefur svo úr vaxtarhraða fisks að með ólíkindum er, eftir þeim upplýsingum sem við höfum fengið, og hlýtur það að valda miklum búsifjum, vegna þess að bæði nýtist stofninn verr og eins nýtist fiskurinn verr, þegar hann kemur á land til nýtingar.

En hvað sem því líður, þá höfum við búið við það kerfi, að leitast við að skammta veiðarnar með ýmiss konar aðgerðum. Ýmiss konar friðunaraðgerðir hafa verið gerðar, sem hafa í sjálfu sér verið mjög góðar. Það getur varðað friðun á einstökum svæðum, skyndilokunarsvæðum, það varðar möskvastærðir og þar fram eftir götunum. Allt var þetta gert til að reyna að bæta uppeldisskilyrði smáfisks eða réttara sagt að stuðla að því að fiskurinn fengi að ná hagkvæmri stærð. Það er hins vegar nýrra í okkar sögu að við leitumst við að takmarka aflamagnið í heild. Þessar aðgerðir miðuðu fyrst og fremst að því, alveg fram undir síðustu ár, að vernda ungviðið. Það er einungis á síðustu árum sem menn hafa gripið til takmarkana til að takmarka heildaraflamagnið. Það var gert í loðnuveiðunum fyrst haustið 1978, það var byrjað á svonefndu skrapdagakerfi og páskastoppum og þvíumlíku, líklega árinu fyrr, og síðan var þetta að smáaukast í höndunum á okkur, þessar takmarkanir urðu meiri og meiri.

Þetta hefur verið sú stjórnunaraðferð sem við höfum beitt til að takmarka heildaraflamagnið, til að sjá til þess að ekki einungis fengi ungviðið að vaxa, heldur líka að ekki væri gengið of nærri stofninum í heild. Allar þjóðir heims eru nú að vakna upp við það, hversu mikilvægt er að heildaraflamagninu sé haldið í skefjum, vegna þess að afrakstur stofnanna er takmarkaður og ef menn fara fram úr ákveðnum mörkum lenda menn í erfiðleikum.

Við höfum dæmin um það, hvernig Kanadamenn hafa verið að byggja upp sína fiskistofna og gjarnan haft það sem markmið, að hrygningarstofninn ætti að vera milljón tonn þegar þeir væru að taka úr honum 200–300 þús. tonn. Þessu er alveg öfugt farið hjá okkur. Hrygningarstofninn hefur því miður verið í hættu hjá okkur og hann hefur náttúrlega alls ekki verið af þessari stærð, miðað við það sem úr honum er tekið, heldur gjarnan helmingur af því sem menn tóku mest úr honum — og þaðan af minna.

Það er auðvitað eðlilegt að hver og einn útgerðaraðili og hver og einn sjómaður leitist við að taka eins mikið úr sjó og hann mögulega getur. Hver og einn leitast við að ná sem bestri afkomu hjá sér í sinni útgerð. En í þessu liggur vandinn við stjórn fiskveiðanna í heild sinni, vegna þess að þegar um takmarkað aflamagn í heild sinni er að ræða, hvort sem menn takmarka það sjálfviljugir eða það takmarkast af líffræðilegum mörkum, þá þýðir viðbót umfram eitthvað tiltekið, umfram það sem stofnarnir bera, bara það að verið er að taka frá öðrum, annaðhvort í bráð eða í lengd — eða bæði í bráð og lengd. Þegar menn eru komnir yfir þessi ákveðnu mörk, þá er viðbótin einungis tekin frá öðrum, vegna þess að líffræðilega standa stofnarnir ekki undir því. Fyrir bragðið, vegna þess að þessi hvati er til þess að reyna að fá sem mest í sinn hlut, þá hefur sjávarútvegurinn tilhneigingu til að rýra sína eigin afkomu með því að leggja í of mikla veiðigetu, of mikla fjárfestingu miðað við þá stofna sem verið er að sækja í. Þetta er í rauninni það vandamál sem við höfum verið að finna fyrir núna á seinustu árum. Við fundum ekki fyrir því fyrst eftir að við stækkuðum landhelgina, á meðan við gátum einbeitt okkur að því að vernda ungfiskinn, við vorum ekki að taka of mikið úr stofnunum. Það er þetta vandamál sem við erum að finna fyrir núna og þetta er stjórnunarvandamál sem Alþingi og ríkisstj. verða að taka á. Það verður ekki komist fram hjá því að þessir aðilar taki á því, vegna þess að aðrir aðilar geta það í rauninni ekki. Það er eðlilegt og sjálfsagt að sérhver einstakur útgerðaraðili leitist við að ná sem mestu í sinn hlut, það liggur í eðli hlutanna, en heildaraflamagnið og hvernig því er varið hlýtur að vera hlutverk stjórnvalda að ákveða, m.a. til þess að vernda greinina í rauninni fyrir sjálfri sér, til þess að treysta afkomu greinarinnar. Annars standa menn sí og æ frammi fyrir dæmum eins og þeim sem þeir hafa í dag, þar sem tilkostnaðurinn við veiðarnar, miðað við það sem menn geta veitt, er orðinn óheyrilega mikill. Hann er orðinn óheyrilega mikill vegna þess að við erum að reka mjög stóran skipastól til að sækja mjög lítið af fiski. Þar liggur aðalvandinn.

Út frá þeim forsendum sem ég hef nú rakið töldum við þm. Alþfl. nauðsynlegt að Alþingi ákvæði nú — töldum það reyndar í fyrra, því þetta er endurflutt nú — að láta fara fram könnun á annars konar stjórnunarfyrirkomulagi fiskveiðanna en hér hefur verið við lýði, fyrirkomulagi sem miðaðist við veiðiheimildir, sumir vilja kenna það við kvóta. Þetta er ákaflega viðkvæmt mál. Það eru margir sem hafa ekki getað hugsað sér kvótaheimildir í sambandi við veiðar. En við skulum líka gæta að því, að þessar veiðiheimildir geta verið með margvíslegum hætti, og þótt um kvótafyrirkomulag sé að ræða geta afbrigðin verið margvísleg bæði að því er varðar heildaraflamagn á einstökum stofnum eða bundið við verstöðvar eða bundið við skip. Þess vegna teljum við nauðsynlegt að þetta mál sé kannað mjög ítarlega áður en tíminn hefur runnið frá okkur.

Ég sé það á grein, sem birtist í Tímanum í dag, að hæstv. sjútvrh. hefur mikið velt þessum málum fyrir sér. Hann lætur þar orð falla í þá átt að ekki sé auðvelt að komast fram hjá því, eins og sakir standa nú, að breyta um stjórnkerfi. Hann hefur einnig rætt þessi mál mjög opið á fundi Landssambands ísl. útvegsmanna. Ég vil benda öllum hv. þm. á að lesa grein ráðh., þar sem hann fer yfir það í mörgum greinum í hverju vandamálið sé fólgið, nefnilega í því að þeir fiskstofnar sem við höfum í að sækja, eins og sakir standa a. m. k., skila ekki afrakstri miðað við þann flota sem við erum með og að tilkostnaðurinn sé of mikill, m.a. vegna þeirrar flotastærðar sem við erum með.

Mér sýnist nauðsynlegt að sem víðtækust samstaða náist um stjórnunaraðgerðir af þessu tagi. Það virðist vera ljóst að allar slíkar stjórnunaraðgerðir eru mjög erfiðar og kannske tekst ekki að framkvæma mjög ítarlega könnun áður en hæstv. sjútvrh. þarf að grípa til aðgerða fyrir næsta ár. En hvað eina sem gert er í þessum efnum til að stuðla að sem skynsamlegastri stjórn á fiskveiðunum og uppbyggingu fiskiskipastólsins skilar okkar auðvitað í betri stöðu seinna.

Ég ætla ekki, herra forseti, að fjölyrða miklu meira um þetta. En ég vísa til þeirrar grg. sem fylgir þessari þáltill. og enn fremur til fskj. með þeirri grg. sem er hluti úr erindi eftir dr. Gylfa Þ. Gíslason frá því í des. 1982 og nefnist Hugleiðingar um efnahagsstefnu stjórnvalda 1983. Í þessu erindi fjallaði dr. Gylfi m.a. um þróun sjávarútvegs og veiðileyfastjórn, þar sem gert er ráð fyrir sölu veiðileyfa, sem er einungis ein hugmyndanna. En sá punktur sem dr. Gylfi gengur út frá í grein sinni er athugun hans á hagsögu liðinna ára og sú staðreynd, að fjárfestingin í sjávarútvegi hafi ekki skilað þeim afrakstri sem hefði mátt vænta. Hún hefði skilað miklum afrakstri framan af, en síðan hefði átt sér stað stöðnun í þeim efnum á seinni árum.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til atvmn. til frekari athugunar og til síðari umr. hér í deildinni. En ég hefði gjarnan viljað, einmitt á þessu stigi og út frá því hver staða okkar er einmitt nú, heyra nánar álit hæstv. sjútvrh. um stjórnun fiskveiðanna um þessar mundir og um þróunina í þeim efnum, vegna þess að ég þykist sjá að hann hafi hugleitt þau mál mjög rækilega. Það sem skiptir mestu máli núna er auðvitað ekki að við lítum til fortíðarinnar og mistaka okkar, hversu þau hafa verið stór, heldur að okkur takist að ná saman höndum um það verkefni sem við stöndum frammi fyrir og virðist vera æði svart ef marka má þau gögn sem hafa verið birt frá fiskifræðingum um þessar mundir.