11.05.1984
Neðri deild: 86. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5725 í B-deild Alþingistíðinda. (5074)

340. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Frsm. meiri hl. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti meiri hl. fjh.- og viðskn. deildarinnar sem liggur fyrir á þskj. 831.

Nefndin hefur athugað þetta frv. á mörgum fundum. Nefndin aflaði fjölmargra gagna varðandi málið og kvaddi á fund sinn eftirtalda aðila: Jón Sigurðsson forstjóra Þjóðhagsstofnunar, Bjarna Braga Jónsson frá Seðlabankanum, Magnús Pétursson hagsýslustjóra, Hallgrím Snorrason frá Þjóðhagsstofnun, Ásmund Stefánsson forseta Alþýðusambands Íslands, Björn Björnsson hagfræðing Alþýðusambands Íslands, Vilhjálm Egilsson hagfræðing Vinnuveitendasambands Íslands, Björn Önundarson og Helga Sigvaldason frá Tryggingastofnun ríkisins, Örlyg Geirsson frá menntmrn., Sigurjón Valdimarsson frá Lánasjóði ísl. námsmanna, Björn Friðfinnsson formann Sambands ísl. sveitarfélaga, Magnús Guðjónsson framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga, Jón Sæmund Sigurjónsson heilbr.- og trmrn., Hákon Sigurgrímsson framkvæmdastjóra Stéttarsambands bænda, Egil Bjarnason frá Framleiðsluráði landbúnaðarins, Sigurð Þórðarson fjmrn., Sigurð Helgason menntmrn., Má Elísson frá Fiskveiðasjóði og Stefán Pálsson frá Búnaðarbankanum.

Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu málsins.

Meiri hl. leggur til að frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir á þskj. 736, með breytingum sem fluttar eru á sérstöku þskj. Undir þetta nál. rita Páll Pétursson, Þorsteinn Pálsson, Friðrik Sophusson og Halldór Blöndal.

Brtt. frá meiri hl. liggja fyrir á þskj. 832. 1. brtt. er svohljóðandi:

„Á eftir 16. gr. frv. komi svohljóðandi ný grein og breytist töluröð annarra greina skv. því:

48. gr. laga nr. 63/1974, um grunnskóla, orðist svo: Í 7.–9. bekk grunnskóla skulu deildir eigi vera færri en aldursflokkar þeir sem sækja þessa bekki skólans, nema menntmrn. heimili annað í samráði við viðkomandi skólayfirvöld.

Til þess að 8.–9. bekk grunnskóla verði haldið uppi í skólahverfi má meðalfjöldi nemenda í deild ekki vera minni en 12, nema að fenginni heimild menntmrn.

Undanfarna daga hefur nokkur umr. orðið um orðalag þessarar greinar, en samkomulag varð um þá niðurstöðu sem ég var nú að lesa. Samkennsla í fámennum bekkjum getur vissulega átt rétt á sér og það er eðlilegt að hún sé háð samþykki skólayfirvalda á hverjum stað. Ég held að það sé mikilvægt að leitast við að spara í skólakerfinu eins og annars staðar í rekstri ríkisins, en ég tel eðlilegt að ekki sé einungis sparað í litlum skólum á landsbyggðinni. Það er eðlilegt að það gildi um alla skóla, hvar sem þeir eru staðsettir. Það er víða hægt að koma sparnaðinum við. Það er vel hægt að hugsa sér að hinkra með lengingu forskólans, bæði að auka ekki kennslu í 6 ára bekk og eins að hinkra með að hefja kennslu 5 ára barna.

Margir fræðslustjórar benda á að e. t. v. næðist sami árangur við dönskukennslu í grunnskólum þótt dönskukennslan yrði ekki hafin fyrr en í 7. bekk. Og sjálfsagt er það margt fleira sem mætti spara. Ég veit að hæstv. menntmrh. og hans liðsmenn í. ráðuneyti eru allir af vilja gerðir að leita sparnaðarleiða og það mun ekki standa á okkur framsóknarmönnum að leggja þeim lið um skynsamleg úrræði. En ég legg áherslu á að sá sparnaður gangi sem víðast um skólakerfið, en ekki einungis til fárra skóla.

2. brtt. á þskj. 832 er einungis leiðrétting við 20. gr. frv. Sú grein fjallar um barnabótaauka og breytingin er í því fólgin að við leiðréttum töluna 2.4% en þar á að vera og hefur alltaf átt að vera 1.2%. Þá er greinin svohljóðandi er leiðréttingin hefur náð fram að ganga:

„Barnabótaauki vegna barna á framfæri hjóna skerðist um 1.2% af því sem eignarskattsstofn hvors hjóna um sig fer fram úr 750 þús. kr., uns hann fellur niður er eignarskattsstofn hvors hjóna nær 1250 þús. kr. Á sama hátt skerðist barnabótaauki vegna barna á framfæri einstæðra foreldra um 1.2% af því sem eignarskattsstofn foreldris fer fram úr 1 millj. kr., uns hann fellur niður er eignarskattsstofn foreldris nær 1500 þús. kr.“

3. brtt. á þskj. 832 varðar lántökuheimild Framkvæmdasjóðs og að sjálfsögðu er lántökuheimild þessi bundin samþykki ríkisstj. 28. gr. kæmi þá til með að hljóða þannig ef brtt. verður samþykkt: „Framkvæmdasjóði Íslands er heimilt að fengnu samþykki ríkisstj. að taka erlend lán á árinu 1984 að fjárhæð 680 millj. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt og endurlána til atvinnuvega“.

Eins og fram kom í nál. hefur þetta frv. fengið allítarlega umfjöllun í fjh.- og viðskn. deildarinnar. Ég vil einungis hér og nú bæta því við að sjálfsagt eigum við allir, sem að þessu meirihlutaáliti stöndum, það sameiginlegt að við hefðum getað hugsað okkur frv. einhvern veginn öðruvísi. Þetta frv. er ófullkomið eins og önnur mannanna verk og það byggist á samkomulagi margra aðila. Það nær ekki nógu langt til þess að leysa fjármálavanda ríkisins, sem vissulega er brýnt að leysa, en það er skref í áttina, að vísu stutt skref, en skref sem er nauðsynlegt að taka. Ég læt máli mínu lokið að sinni, herra forseti.