14.05.1984
Efri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5818 í B-deild Alþingistíðinda. (5143)

340. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Alþfl. hefur lýst sig andvígan því frv. sem hér liggur fyrir. Þetta frv. er til komið vegna þeirrar uppgötvunar ríkisstj. að endar nái ekki saman og stórfellt gaf sé fyrir hendi í ríkisfjármálunum. Gefnar voru út yfirlýsingar af ríkisstj. við valdatöku um að nú skyldi búa þannig um ríkisfjármálin að ekki þyrfti til slíkra uppgötvana að koma, en það hefur brugðist eins og hvað annað. Okkur hinum sem vorum og erum í stjórnarandstöðu var það ljóst að vissulega yrði erfitt að halda fjármálunum í góðu lagi við þær aðstæður sem voru fyrir hendi með bullandi verðbólgu og hvers konar þrengingum á sviði efnahagsmála og óstjórn. En það var fullyrt við gerð fjárlaga fyrir áramót að svo hefði verið tekið til hendi að ekki þyrfti til þess að koma að leysa vandamál, eins og þau sem hér liggja fyrir.

En þetta hefur sem sagt uppgötvast og urðu víst margir hissa þegar það varð ljóst. Við teljum að með því frv. sem hér liggur fyrir sé seilst mjög langt í það að brjóta niður velferðarkerfið í landinu. Skattheimta er aukin í því formi að koma byrðunum yfir á sjúklinga, yfir á þá sem minna mega sín. Þetta er gert á sama tíma og verið er að lækka skatta á fyrirtækjum, verið er að koma peningum til þeirra sem peninga hafa fyrir, taka af hinum sem minna mega sín.

Það hefur verið fullyrt hvað eftir annað að það yrði að forðast að taka erlend lán. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að tekin verði lán upp á 2100 millj. Ekki er vafi á því að sú lántaka fer fram úr öllu því sem fyrirheit gáfu til kynna. Þegar teknar eru saman allar þær lántökur sem verða bæði samfara fjárlögunum og lánsfjárlögum, verður heildaraukning erlendra skulda á þessu ári 4000 millj. kr. Það stendur sem sagt ekki steinn yfir steini af þeim yfirlýsingum sem gefnar hafa verið, yfirlýsingum sem fjmrh. hefur reyndar verið hressastur við að koma á framfæri og jafnvel hótað því að það yrði brottfararatriði fyrir hann sjálfan ef ráðist yrði í slíka hluti. En enn situr ríkisstj. og enn situr hann sem sýnir best að engu er að treysta, ekki einu sinni loforði um það að fara frá ef gengið yrði of hart fram í að taka erlend lán.

Þetta frv. verður rætt í fjh.- og viðskn. þar sem frekari upplýsingar fást um hin ýmsu atriði. Það er því óþarfi að vera mjög langorður nú. Þó langar mig að vekja athygli á því, sem reyndar hefur komið fram hjá öðrum hér, að nú eru í fyrsta sinn tekin lán fyrir hinum ólíklegustu hlutum, eins og barnsmeðlögum. Þá eru lagðir á ýmsir smáskattar á almenning sem í raun eru ekki smáskattar gagnvart fólkinu sem þá þarf að greiða. T. d. hækkar hvert viðtal hjá lækni um 200–300%, hver röntgenmynd um 200%, hver rannsókn og hver lyfjaskammtur sömuleiðis.

Ég á von á því að hefði verkalýðshreyfingin gert sér grein fyrir því að þessa væri að vænta þegar gengið var til samninga nú í febrúar hefði staðan verið önnur hjá hinum almenna félagsmanni er samþykkti þá samninga.

Í 2. kafla frv. er meiningin að lögfesta það sem gert var ráð fyrir að lögfest yrði með gerð kjarasamninganna og er ekkert nema gott um það að segja. En aðrir þættir í þessu frv. eru mjög í þá átt, eins og ég sagði áðan, að flytja fjármagn frá þeim sem minnst mega sín í þá hít sem nú er verið að brúa.

Ein grein er hérna sérstaklega varhugaverð. Það er 8. gr. um sjúkrasamlagið þar er ákvæði sem lendir sérstaklega á húsmæðrum, námsmönnum og verkamönnum sem hafa minnstan réttinn, menn sem eru að flytjast á milli starfa o. s. frv. Þeir koma til með að þurfa að gjalda mjög þeirrar greinar varðandi sjúkradagpeninga.

En ég ætta ekki að fjölyrða um frv. nú. Ég lýsi andstöðu minni við það, þau atriði sem ekki varða þá kjarasamninga sem ég var að ræða um áðan, og tel að með þessu sé verið að koma aftan að fólki og það á hinn versta máta.