09.11.1983
Efri deild: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (519)

10. mál, verðlagsmál

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Mig langar til að gera aths. við orðalag í 1. gr. þessa frv. sem þegar hefur verið nokkuð til umr. Þar stendur, með leyfi forseta, að aðeins skuli leyfa „óhjákvæmilega“ hækkun verðs eða endurgjalds fyrir vöru eða þjónustu. Af þessum lögum er ekkert að ráða hvað þetta orð „óhjákvæmilega“ þýðir, enda kemur skilgreining þess ekki fram fyrr en í framkvæmd laganna, eins og kom fram í máli hæstv. forsrh. hér áðan.

Ég vil aðeins vekja athygli á því að hér leyfa menn sér óneitanlega að taka ónákvæmt til orða, og það í jafnmikilvægu máli sem þessu, mikilvægu vegna þess að það snertir búreikninga hvers einasta heimilis í landinu. Ég geri, þar fyrir utan, ráð fyrir því að hér sé verið að vísa til hækkana, sem til muni koma vegna þess að ýmislegt sé eða hafi verið „í pípunum“. eins og menn segja iðulega á þessum bæ. En þá vil ég minna á það, að launafólk í landinu hefur og hafði einnig ýmislegt í sínum pípum, en því eru samt ekki leyfðar neinar „óhjákvæmilegar“ hækkanir á kaupi sínu. Það er vitaskuld ótækt og óverjanlegt að laun standi í stað á meðan verðlag hækkar. Að mínu mati hefðu ákvæði þessara laga þurft að vera miklu strangari og ákveðnari í þá átt að koma í veg fyrir verðhækkanir.